Auglýsing um friðland á Hornströndum 13. ágúst 1985
Hornstrandir
Stjórnartíðindi B, nr. 332/1985.
Auglýsing um friðland á Hornströndum.
Samkvæmt heimild í 24. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd hefur [Umhverfisstofnun] fyrir sitt leyti ákveðið að friðlýsa svæðið norðvestan Skorarheiðar í Norður- Ísafjarðarsýslu, og er svæðið friðland.
Mörk svæðisins eru þessi:
Úr botni Hrafnsfjarðar um Skorarheiði í botn Furufjarðar. Mörkin fylgja Skorará frá ósi og í Skorarvatn. Þaðan liggja þau meðfram suðurströnd vatnsins, en síðan í beina línu úr suðausturhluta þess og í upptök þeirrar kvíslar, sem næst er vatninu og fellur í Furufjarðarós. Miðast mörkin við hugsaða línu 200 m fyrir sunnan kvíslina og síðan ámóta vegalengd sunnan Furufjarðaróss allt til sjávar í Furufjörð.
Reglur þessar gilda um svæðið:
- Mannvirkjagerð öll, jarðrask og önnur breyting á landi, svo og undan landi allt að 60 föðmum (115 m) frá stórstraumsfjörumáli, er háð leyfi [Umhverfisstofnunar].
- Umferð vélknúinna farartæka utan vega og merktra slóða er bönnuð, nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.
- Leyfi landeigenda, sem í hlut á, þarf til allra veiða, eggjatöku og annarra hlunnindanytja á svæðinu. Leyfi [Umhverfisstofnunar] þarf ef eigi er um að ræða hefðbundnar nytjar. Um netaveiði í ósum straumvatna gilda ákvæði laga um lax-og silungsveiði nr. 76/1970, sbr. einkum VI. kafla.
Hvers konar meðferð skotvopna er öllum bönnuð nema samkvæmt sérstakri heimild sýslumanns, mánuðina júní til september og utan þess tíma einungis heimil landeigendum til hefðbundinna nytja. - Gangandi fólki er heimil för um svæðið. Þó er skylt að ganga þannig um að ekki sé spillt lífríki, jarðmyndunum og mannvirkjum. [Umhverfisstofnun] setur nánari reglur viðvíkjandi umferð um hið friðlýsta svæði.
- [Umhverfisstofnun] og aðrar stofnanir, sem í hlut eiga, skulu stuðla að vernd menningarminja, gera greiðfærar gamlar götur og viðhalda vörðum.
- Bannað er að beita búpeningi á friðlandið.
- Á tímabilinu 15. apríl til 15. júní ár hvert þarf að tilkynna [Umhverfisstofnun] um ferðalög um svæðið. Þetta ákvæði tekur þó ekki til ferða landeigenda.
- [Umhverfisstofnun] setur nánari reglur um afnot landeigenda af eignum sínum á hinu friðlýsta svæði.
- [Umhverfisstofnun] og Landeigendafélag Sléttu-og Grunnavíkurhrepps tilnefna hvort um sig þrjá menn í samstarfsnefnd um málefni friðlandsins.
Til undanþágu frá reglum þessum þarf leyfi [Umhverfisstofnunar] eða þess sem fer með umboð stofnunarinnar.
Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum laga um náttúruvernd nr. 47/1971.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni, sem tekur gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. Jafnframt er felld úr gildi auglýsing nr. 44/1985 um friðland á Hornströndum.
Menntamálaráðuneytið, 13. ágúst 1985.
Ragnhildur Helgadóttir
_________________
Runólfur Þórarinsson