Loading...

Hornstrandafriðland

Hornstrandafriðland

Náttúruverndarráð lagði fram tillögur 2. febrúar 1973 um friðlýsingu Sléttuhrepps og hluta Grunnavíkurhrepps. Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhepps var stofnað 10. mars 1973 til að landeigendur ættu sameiginlegan vettvang til viðræðna við Náttúrverndarráð. Flestar jarðir innan friðlandsins eru í einkaeigu.

Eftir viðræður og LSG og landeigendur varð ljóst að ekki myndi nást samkomulag um friðlýsingu við alla landeigendur og því var ekki hægt að friðlýsa með samkomulagi skv. 28. gr. laga um náttúrvernd nr. 47/1971. Náttúruverndarráð auglýsti því endurbætta tillögu til friðlýsingar 10. maí 1973 í Lögbirtingablaðinu til að koma mætti á friðlandi á grundvelli 30. gr., sömu laga, um friðun með tilkynningu og voru landeigendum gefnir 4 mánuðir til að mótmæla eða gera bótakröfur.

Friðlandi á Hornströndum var svo komið á 27. febrúar 1975 með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Mörk þess eru:

Úr botni Hrafnsfjarðar um Skorarheiði í botn Furufjarðar. Mörkin fylgja Skorará frá ósi og í Skorarvatn. Þaðan liggja þau meðfram suðurströnd vatnsins, en síðan í beina línu úr suðausturhluta þess og í upptök þeirrar kvíslar, sem næst er vatninu og fellur í Furufjarðarós. Miðast mörkin við hugsaða línu 200 m fyrir sunnan kvíslina og síðan ámóta vegalengd sunnan Furufjarðaróss allt til sjávar í Furufjörð.