Gönguleiðir í og að Hornstrandafriðlandi
Hvernig má fara um friðlandið?
Samkvæmt friðlýsingu er gangandi fólki heimilt að fara um svæðið og takmarkar það almannarétt að nokkru leiti. Það er t.d. ekki heimild í friðlýsingunni til að fara ríðandi eða hjólandi. Umhverfisstofnun getur sett nánari reglur um umferð um friðlandið. (4. gr. friðlýsingar)
Ferðamenn skulu fara eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum. (17. gr. laga um náttúruvernd)
Í lýsingum hér að neðan er almennt miðað við að upphafsstaðir séu tjaldstæði. Smella má á heiti til að fá nánari lýsingu.
Aðalvík, Látrar
Frá Látrum í Aðalvík má ganga á Straumnesfjall til að líta á leifar bandarískrar herstöðvar.
Ganga má yfir í Rekavík bak Látur og í kringum Rekavíkurvatn.
Frá Látrum má ganga yfir í Fljótavík um Tunguheiði.
Yfir að Hesteyri má fara um Stakkadal eða Miðvík og að Sæbóli um Miðvík og fyrir Hvarfnúp.
Aðalvík, Sæból
Frá Sæbóli í Aðalvík má ganga um Hvarfahnúp og Miðvík að Látrum.
Um Staðardal og Sléttuheiði liggur leið yfir að Hesteyri.
Góð dagsganga er upp á Darrann þar sem má finna leifar breskrar radarstöðvar frá seinni heimsstyrjöldinni.
Bolungavík á Ströndum
Frá Bolungavík á Ströndum má fara yfir Göngumannaskörð, Barðsvík og Smiðjuvíkurháls í Smiðjuvík.
Ganga má í Hrafnfjörð um Bolungavíkurheiði.
Og fyrir Drangsnes og Bolungavíkurófæru liggur leiðin í Furufjörð.
Fljótavík
Frá Fljótavík má ganga um Tunguheiði að Látrum í Aðalvík.
Um Þorleifsskarð, Almenninga og Kjaransvík liggur gönguleið í Hlöðuvík.
Furufjörður
Frá Furufirði má halda um Bolungavíkurófæru og Drangsnes í Bolungavík, um Skorarheiði yfir í Hrafnfjörð og um Svartaskarð og Þaralátursfjörð yfir í Reykjafjörð.
Hesteyri
Frá Hesteyri liggur leið um Sléttuheiði og Staðardal að Sæbóli, um Hesteyrarskarð yfir í Miðvík að Látrum og um Hesteyrarbrúnir og Kjaransvík að Hlöðuvík.
Hlöðuvík
Frá Hlöðuvík má ganga um Skálakamb yfir í Hælavík og áfram um Atlaskarð og Rekavík bak Höfn að Höfn í Hornvík, um Kjaransvík má halda um Almenninga og Þorleifsskarð í Fljótavík, eða um Kjaransvíkurskarð og Hesteyrarbrúnir að Hesteyri.
Hornbjargsviti í Látravík
Úr Látravík má fara um Almenningaskarð í Innstadal í Hornvík og taka dagsgöngu um Hornbjarg.
Um Kýrskarð og Kýrvað má ganga að Höfn í Hornvík.
Frá Látravík yfir Axarfjall liggur leiðin í Smiðjuvík.
Hornvík
Frá Hornvík er hægt að fara í dagsferð um Hornbjarg.
Önnur dagsferð væri að fara um Rekavík bak Höfn yfir í Hvannadal.
Frá Hornvík má ganga yfir í Látravík að Hornbjargsvita.
Gönguleið um Hafnarskarð liggur í Veiðileysufjörð.
Um Rekavík bak Höfn má halda upp í Atlaskarð og áfram í Hlöðuvík.
Hrafnfjörður
Úr Hrafnfirði má fara um Bolungavíkurheiði í Bolungavík á Ströndum, um Skorarheiði má fara í Furufjörð og um Kjósarhlíð og yfir Leirufjörð má fara að Flæðareyri.
Smiðjuvík
Frá Smiðjuvík má halda eftir Drífandisbjargi og yfir Axarfjall að Hornbjargsvita í Látravík eða yfir Smiðjuvíkurháls, Barðsvík og Göngumannaskörð í Bolungavík á Ströndum.
Veiðileysufjörður
Frá tjaldstæði og lendingu undir Lónhorni má halda upp í Hafnarskarð (519 m) og þaðan niður að Höfn í Hornvík.