Loading...

Ferðalög í Hornstrandafriðlandinu snemmsumars

Ferðalög í Hornstrandafriðlandinu snemmsumars

Umhverfisstofnun hefur gefið út eftirfarandi leiðbeiningar um ferðalög snemmsumars.

Þeir sem hyggjast leggja leið sína í Hornstrandafriðlandið snemmsumars þurf að hafa eftirfarandi í huga: 

  • Reglur Hornstrandafriðlands kveða á um að ferðamenn skuli tilkynna um ferðir sínar á tímabilinu 15. apríl til 15. júní, þ.e. áður en eiginlegt tímabil ferðamennsku hefst.  Landeigendur eru undanþegnir þessu ákvæði.  Tilkynna má Hornstrandastofu í síma 591 2000 (biðja skal um Hornstrandastofu) eða netfang hornstrandir@umhverfisstofnun.is
  • Ástæðan tilkynningaskyldu er nauðsyn þess að hafa yfirsýn yfir ferðir fólks á umræddu tímabili en þá er náttúra svæðisins hvað viðkvæmust (fugla- og dýralíf) og þolir lítið rask eða truflun.  Svæðið er að koma undan snjó og yfirleitt  mjög blautt yfirferða. Jafnframt er brýnt að vita um ferðir og staðsetningu fólks ef ná þyrfti í það, s.s. vegna ísbjarnarkomu, eða annarrar váar. Ekki er æskilegt að margir og/eða fjölmennir hópar fari um svæðið á umræddu tímabili.
  • Ferðamenn þurfa að gera sér grein fyrir því að fáir, ef nokkrir eru á svæðinu snemmvors. Ástand svæðisins og öryggisbúnaður hefur ekki verið tekinn út og því óvissa um ástand neyðarskýla, talstöðva o.s.frv.    
  • Talsverður snjór eða bleyta getur verið í fjallaskörðum og þau jafnvel verið illfær (háir, lóðréttir skaflar í brúnum).  Vöð á ám gætu hafa breyst yfir vetrartímann og óvissa um ástand brattra fjallastíga (einstiga). Hafa ber í huga að margar gönguleiðir liggja í miklum bratta og geta þær verið ísilagðar og varasamar langt fram á vor.    
  • Fara þarf varlega á tjaldsvæðum, jafnt vegna bleytu svo og vegna sinu (varlega með eldunaráhöld).  Flestir kamrar eru fergðir yfir vetrartímann (hurðir).  Gæta þarf þess að loka þeim tryggilega þegar tjaldsvæði eru yfirgefin.  Ekkert skal skilja eftir sig á svæðinu.  Fara skal varlega í blautum stígum og gæta þess að troða þá ekki út eða mynda nýja stíga.
  • Brýnt er að fara varlega í nágrenni varpsvæða fugla og við refagreni.  Ekki skal dvelja á slíkum stöðum eða skilja eftir sig mat eða annað sem veldur truflun.  Dýralíf er viðkvæmt á þessum tíma og styggist auðveldlega.
  • Af og til koma ísbirnir á svæðið með Grænlandsísnum.  Þó slíkar heimsóknir séu ekki tíðar, þarf að hafa varan á sér og fylgjast vel með umhverfinu og ummerkjum (slóð) eftir dýrin.  Strax skal tilkynna ef björns verður vart á svæðinu og forðast ber að nálgast dýrið.
  • Landvörður fer um svæðið í maí og kannar aðstæður.  Brýnt er að slíku eftirliti sé lokið áður en ferðamenn leggja leið sína í einhverjum mæli um svæðið.