Fljótavík
Að Látrum í Aðalvík
Frá tjaldstæðinu á Atlastöðum liggur leiðin upp með Atlastaðaós og hann vaðinn. Leiðin liggur svo að Tungu. Frá tjaldstæðinu á Glúmsstöðum liggur leiðin meðfram Fljótsvatni vestanverðu að Tungu.

Frá Tungu er haldið upp með Nónfelli upp á Tunguheiði og yfir hana.

Niðurleiðin liggur um Grafarhlíð að vegi sem lagður var fyrir herstöðina á Straumnesfjalli. Eftir veginum er haldið að Látrum.

Tjaldstæðið á Látrum er við neyðarskýlið.
Í Hlöðuvík
Frá tjaldsæðinu á Atlastöðum er haldið inn með Fljótsvatni að austanverðu. Frá Glúmsstöðum má setja stefnuna á Þorleifsskarð.
Þar sem Reiðá fellur í Fljótsvatn er farið upp í Þorleifsdal.

Þegar upp í Þorleifsdal má finna stikur sem leiða ferðamanninn áfram upp í Þorleifsskarð.

Frá skarðinu tapast nokkur hæð en gönguleiðin heldur áfram undir Bergþóruskarð og Kjöl að Almenningaskarði sem haldið er yfir og niður í Kjaransvík.

Fara þarf yfir Kjalará og Kjaransvíkurá og fyrir Álfsfell. Þegar fyrir Álfsfellið er komið er stutt á tjaldstæðið við Hlöðuvíkurós.