Loading...

Lög Átthagafélags Sléttuhrepps á Ísafirði og (næsta) nágrenni

1. grein
Félagið heitir Átthagafélag Sléttuhrepps á Ísafirði og næsta nágrennis, skammstafað Á.S.I.N.N. (Súðavík, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri)  

2. grein

Ásinn er félag þeirra manna sem átt hafa heima í Sléttuhreppi, afkomenda þeirra og maka.  

3. grein

Hlutverk félagsins er að félagsmenn standi alltaf sem ein heild að öllum þeirra framkvæmdum.  

4. grein

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok október ár hvert og er hann löglegur, ef 20 félagsmenn eru mættir. Á aðalfundi skal stjórn félagsins gefa skýrslu um störf félagsins á árinu, og leggja fram endurskoðaða reikninga fyrir s.l. ár til úrskurðar.  

5. grein

Enginn má skorast undan að taka sæti í stjórn félagsins, hvort sem hann er mættur eða ekki, né vinna önnur störf, er félagið felur þeim, nema hann beri fram afsökun, sem félagsfundur metur gilda.  

6. grein

Stjórn félagsins skal kosin á löglegum aðalfundi til eins árs í senn. Fyrst skal kosinn formaður og síðan fjórir í stjórn með honum og þeir skifta með sér verkum. Þá skal kjósa tvo endurskoðendur.  

7. grein
Stjórnina skipa fimm félagameðlimnir, formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi.  

8. grein

Formaður kveður til stjórnarfunda og félagsfunda í samráði við meðstjórnendur sína. Formanni er heimilt að skipa fundarstjóra í sinn stað, ennfremur fundarritara. Hann skal gæta þess að allir trúnaðarmenn félagsins gegni skyldum sínum og hafi yfirumsjón með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum félagsins, samþykktum, reglum og samningum sé hlýtt. Hann varðveitir öll bréf sem félaginu, og afrit af sendum bréfum og geymir önnur skjöl þess.  

9. grein

Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.  

10. grein

Gjaldkeri annast innheimtu félagsgjalda og annarra tekna félagsins. Sjóði félagsins skal geyma á vöxtum í banka eða öðrum jafntryggjum stað, eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eignum félagsins.  

11. grein

Ritari heldur gerðarbækur félagsins og færir í þær allar fundargerðir stjórnarinnar og félagsfunda. Hann annast bréfskriftir félagsins í samráði við formann. Enn fremur skal hann halda nafnaskrá yfir meðlimi félagsins sem tilgreini fullt nafn, fæðingardag og ár, frá hvaða stað félagsmeðlimir eru úr hreppnum og hvar þeir eru búsettir nú.  

12. grein

Fundi skal halda í félaginu, þegar félagsstjórn þykir ástæða til eða ef minnst tíu félagsmeðlimir óska þess skriflega og tilgreini fundarefni. Almennir félagsfundir eru löglegir ef löglega er til þeirra boðað og minnst tíu félagsmeðlimir eru mættir. Fundi skal boða með minnst 24 klst. fyrirvara með uppfestum auglýsingum eða bréflega. Stjórnin ákveður hvaða boðunaraðferð skuli viðhöfð eða hverju sinni. Aðalfundur skal þó boðaður með þriggja sólarhringa fyrirvara og geta fundarefnis í auglýsingu. Nú reynist fundur ekki löglegur vegna ónógrar þátttöku, þótt löglega hafi verið til hans boðað, skal þá stjórnin auglýsa fund öðru sinni, og er sá fundur löglegur hversu fáir, sem mæta. Eigi skal þó taka fyrir á slíkum fundum önnur mál en þau, er ræða átti á fundi þeim, er fórst fyrir, nema fundarsókn reynist lögmæt samkvæmt fyrrgreindum lagaákvæðum.  

13. grein

Gjalddagi árgjalds félagsins er fyrsti maí ár hvert.  

14. grein
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum allra mála í félaginu, sé ekki annað ákveðið í lögum þess.  

15. grein

Lög þessi öðlast gildi sama dag og þau eru samþykkt. Þeim má breyta á aðalfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði að fyrir liggi tillaga um lagabreytingar. Lagabreytingar öðlast gildi ef meirihluti viðstaddra fundarmeðlima greiða henni atkvæði.