Skólinn á Sæbóli
Skólahúsið á Sæbóli er í eigu og umsjá Átthagafélaga Sléttuhrepps.
Skólahúsið var reist 1933 fyrir barnaskóla, en hann hafði verið starfræktur í leiguhúsnæði næstu tvö ár á undan.
Skóli að Látrum
Skóli var reistur á Látrum 1900 og var hann viðurkenndur sem alþýðuskóli 1904. Skólinn var reistur af sjálfboðaliðum eftir samskot. Í Þjóðviljanum 23. febrúar 1901 segir svo frá:
Buðust þá eigendur „Látra" til þess, að gefa skólanum, hvar sem í landareigninni væri, óræktaða landspildu, ca 500 [] f. að stærð, og jafnframt var þegar tekið að efna til samskota [...] var skólinn [...] reistur að Látrum síðastl. sumar. Hann er tvílyptur, 10¼ X 8½ al. að stærð, með járnþaki, og kjallara undir, og var hann vígður 28. okt. síðastl. og voru börnin þá 12.
Skóli á Hesteyri
Heimilskennari var ráðinn til Hesteyrar 1889, Jón Friðfinnsson Kjærnested. Á Hesteyri var þinghús hreppsins tekið á leigu 1904 og reglugerð var sett fyrir Hesteyrarbarnaskóla 1907.
Farskólar
Farskólar voru einnig starfræktir á heimilum í Höfn og Horni í Hornvík.
Á fundi skólanefndar 27. ágúst 1939 var ákveðið að það yrði einn kennari fyrir öll skólahverfin.