Loading...

Grunnvíkingabók

Grunnvíkingabók

Fljótlega eftir stofnun Grunnvíkingafélagsins vaknaði áhugi fyrir að skrá sögu byggðarinnar,gera héraðslýsingu og  Grunnvíkingatal. Helsti hvatamaður þessa máls var Kristján Guðjónsson þáverandi formaður félagsins. Nokkur ár líða þó áður en hugmyndinni er hrint í framkvæmd og nefnd kosin til þess. Í hana völdust þau Kristín Alexandersdóttir, Margrét Hagalínsdóttir, Óskar Friðbjarnarson, Sigríður Tómasdóttir, Steinunn Guðmundsdóttir og Valgerður Jakobsdóttir. Seinna komu til starfa með nefndinni Dagbjartur Majasson, Einar Alexandersson, Guðfinnnur Sigmundsson og Sigfús Kristjánsson. Leitað var til séra Sigurðar Kristjánssonar sem þá var að láta af prestskap á Ísafirði um að safna heimildum til verksins. Tók hann erindinu vel og hóf fljótlega að viða að sér gögnum til Ábúendatals og Manntals.

Sr. Sigurður Kristjánsson
Sr. Sigurður Kristjánsson
En því miður entist honum ekki aldur til þess að ljúka sínu verki. Ýmsir erfiðleikar urðu til þess að eftir lát séra Sigurðar lágu skrif niðri til ársins 1985. Þá voru sagnfræðingarnir Guðrún Ása Grímsdóttir og Lýður Björnsson ráðin til þess að taka verkið að sér. Hélt Lýður áfram verki séra Sigurðar en Guðrún Ása hóf ritun þátta um byggðarsögu frá grunni. Grunnvíkingabók  varð loks orðin að veruleika. Fólk í Grunnavíkurhreppi átti sínar gleði- og raunarstundir sem aðrir og lífsbaráttan var hörð. Um þetta fólk og baráttu þess var lítið til af rituðum heimildum, en með þessari bók  er reynt að bjarga því sem bjarga mátti frá gleymsku.
Guðrún Ása Grímsdóttir
Guðrún Ása Grímsdóttir
Saga byggðarinnar er hér ekki öll en flest sem fundið varð. Bókanefnd eru færðar þakkir fyrir sitt framlag. Það er fyrst og fremst fyrir tilstuðlan hennar að Grunnvíkingabók er til orðin. Grunnvíkingafélagið vill einnig þakka höfundum bókarinnar þeirr verk.

Hlíf Guðmundsdóttir formaður Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði.

Grunnvíkingabók I og II eru til sölu hjá stjórnarmönnum félagsins og Matthildi Guðmundsdóttur hér fyrir vestan og hjá Kristbirni Eydal og Páli Halldóri Halldórssyni fyrir sunnan, bækurnar saman kosta aðeins kr. 7.000

Lýður Björnsson
Lýður Björnsson

Bókarbragur eftir Guðrúnu Jakobsdóttur frá Reykjarfirði.


Það fréttist einn morgun með fluginu vestur

Að fengum við ritverkið langþráða þar.  

Við bökuðum tertur því bókin er gestur,

buðum í kaffi en ekki á bar.

Í framsóknarstofunni fengum við borð

fegruðum blómum og töluðum orð.

Og við byrjum að skoða í bókina okkar,

Á blaðsíðu hverri er vitneskju að fá.

Ef lesum við kafla þá lengra það lokkar

til leitar að fróðleik og meira að sjá.

Um bændanna hreysti, um byrjandans raun,

Baráttu snauðra að vinna sér laun.


Ég ætti að finna hér ættina mina,

afi er þarna en amma er hvar?

Áfram ég fletti og aðgæti þína

ætli þær tengist á blaðinu þar?

Sé ég þar Gísla og sé ég þar Jón

já, sé hér að Jói og Inga urðu hjón.


Við rýnum í hreppbóka registrin skráðu 

á reytur, ómegð og framfærslunauð.

Átti einhver meira en arftakar spáðu,

eða hvar vantar hið daglega brauð?

Hún Katrín frænka klæði átti nóg,

krækjur úr silfri og kopp er hún dó.


Vönduð er bókin, en villurnar leynast

víxlað er setningum myndunum hjá
Eldgamlar kerlingar ungpíur reynast,

eitthvað er svipað um karlana að sjá.  

Þó geymist þar margt sem var glatkistu í

við getum í nefndinni státað af því.


Bókin er opin og byrjað að kaupa,

brátt verður uppselt hvert einasta blað.

Viljið þið hamstra, þið verðið að hlaupa,

en við pöntum aftur, vitnast má það.

Nóg er að skoða og nokkuð að sjá,

er nafn mitt og minna, ég ætla að sjá.