Loading...

Grunnvíkingalögin

Grunnvíkingalögin

 

 

 

1. Lag: Stóð ég úti í tunglsljósi 

Grunnavíkurhreppur er gimsteinn þessa lands.

Glitrar sól á fjörðum þar öldur stíga dans.

Grænar eru hlíðarnar og fjöllin fagurblá

og fannahvít er Drangajökuls-bungan tignarhá

Einhvern tíman bráðum ég ætla mér á stjá.

Ég ætla þangað norður að skoða fjöllin blá.

Þá skal verða gaman að geta fótum tveim.

Gengið fornar slóðir og verið komin heim.

Sigurvin Guðbjartsson

2. Lag: Við göngum svo léttir í lundu 

Ég átti mér æskudag blíðan

í indælli broshýrri sveit.

Og aldrei um ævina síðan,

ég aðra þér betri né fegurri leit.

:,: Þá brostu blóm í hlíð

og blessuð sólin fríð.

Hún yljar mér enn þá sú æskutíð :,

Ég elskaði allt hérna heima

og ætíð mun sveitina þrá.

Lautirnar leikföngin geyma,

og leyndarmál smá sem við áttum þá.

:,: Ó Grunnavíkursveit

ég gleðst af því ég veit

að guð elskar ætíð þann sælureit ,:

Sigurvin Guðbjartsson

 


3. Lag: Undir bláhimni. 

Er ég fyrst heyri vorfugla kvaka

þá vil ég flýja í sveitina heim.

Ég hugsa ekkert um ferðir til baka

því ég vil hlusta og syngja með þeim.

Hann er dýrðlegur lóunar söngur

vilt þú hlusta á þrastana hjal .

Innst í brjósti mér blíðóma strengur

berst með blænum um fjallanna sal.

Gunnar Leósson

4. Með sínu lagi.

Fjarðasveit með fjöllin háu

fagra töfra landið mitt.

 Æskusporin öll hér lágu

alltaf verð ég barnið þitt.

 Ég hef átt hér eins og fleiri

ótal gleði og sælustundirnar

:,: Sérhver ferð á Flæðareyri

fagrar vekur endurminningar:,:

Lag og ljóð Sigurvin Guðbjartsson

 

5. Lag: Blessuð sértu sveitin mín.

Aldna byggð við Bjarnarnúp.

Breiða sveit við Jökulfjörðu.

Við Hornbjarg yst og Geirólfsgnúp

gnauðar hafsins mikla djúp.

Sveipast djúpum dularhjúp

Drangajökull fagurgjörður.

Aldna byggð við Bjarnarnúp

breiða sveit við Jökulfjörðu.

Eiríkur Guðjónsson 

 

 

6.

Hér forðum var norður í fjörðunum kátt.

  Hæ faddi ri hæ faddi ra.

Er fólkið kom saman og dansaði dátt.

  Hæ faddi ri húrra.

Boðum var komið frá bæjum að bæ

að ball skyldi haldið og húllum og hæ.

  Á Flæðareyri, Flæðareyri, Flæðareyri, Húrra.

Og þá varð að far' í sitt fínasta púss.

  Hæ faddi ri hæ faddi ra.

Þó fylgdi því smávegis umrót og stúss.

  Hæ faddi ri húrra

Krullujárn liðuðu lokka á snót

og lit fengu varir af bréfi af rót.

  Á Flæðareyri, Flæðareyri, Flæðareyri. Húrra.

En strákarnir sát' ekki heldur í ró.

  Hæ faddi ri hæ faddi ra.

Og drógu upp danska og támjóa skó.

  Hæ faddi ri húrra.

Það þætt' ekki í dag vera sérlega smart

skálmar á fermingabuxum treikvart.

  Á Flæðareyri, Flæðareyri, Flæðareyri. Húrra.

Þó vegleysur settu menn vandræði í.

  Hæ faddi ri hæ faddi ra.

Hann Ragnar á Rönkunni bjargaði því.

  Hæ faddi ri húrra.

Og dæmalaust fólkið þá dansaði dátt

er dragspilið þand'ann um liðlanga nátt.

  Á Flæðareyri, Flæðareyri, Flæðareyri. Húrra.

Ef sultur að dansgestum sverfa þar tók.

  Hæ faddi ri hæ faddi ra.

Þá var engin sjoppa með samloku og kók.

  Hæ faddi ri húrra.

En til þess að traktera dömuna vel

Einn rabbó með rjóma og njóttu nú vel.

  Á Flæðareyri, Flæðareyri, Flæðareyri. Húrra.

Já inni menn dönsuðu af krafti og móð.

  Hæ faddi ri hæ faddi ra.

Þá örar sló' hjörtu í augum skein glóð.

  Hæ faddi ri húrra.

En úti beið nóttin svo björt og svo blíð

hve blómstraði náttúran öll í þá tíð.

  Á Flæðareyri, Flæðareyri, Flæðareyri. Húrra.

Þá fiðringur ljúfur í loftinu lá.

  Hæ faddi ri hæ faddi ra.

Er rómantík fór sér að fjölga og sá.

  Hæ faddi ri húrra.

Þau flögrandi fræ urðu að fallegri rós

hjá Stínu á Dynjanda og Ragnari í Kjós.

  Á Flæðareyri, Flæðareyri, Flæðareyri. Húrra.

Við Flæðarhól áði oft ástfangið par.

  Hæ faddi ri hæ faddi ra.

En engum hann segir frá atvikum þar.

  Hæ faddi ri húrra.

Hann skjól veitti vinum sem frið vildu fá

og forðaði forvitnum augum að sjá.

  Á Flæðareyri, Flæðareyri, Flæðareyri. Húrra.

Þó tímarnir breytist og mennirnir með.

  Hæ faddi ri hæ faddi ra.

Og fleira er nú sem að kætir vort geð.

  Hæ faddi ri húrra.

Þá á þetta hús og allt umhverfi þess

í hjartanu stóran og unglegan sess.

  Á Flæðareyri, Flæðareyri, Flæðareyri. Húrra.

                Sjöfn Kristinsdóttir

 


7 Strollan Með sínu lagi

Ég vildi ég sæi strolluna

koma niður hólana.

Sillu, Dóru og Soffíu

Soffíu, Soffíu.

Gest, Kitta og Ólínu

Fríðu, Einar og Kristínu.

Gumma, Grím og Þóreyju

Jakob Fals og frú.

 

 

8. Lag: Í Hallormsstaðaskogi 

Í Flæðareyrarskógi

er angan engri lík

og alsæl þar við erum

hver stund er unaðsrík.

Þar blágresi og blóðberg

í brekkum líta má

og sjávarins niður

og söngfugla kliður

þar fylla loftin blá.

Í Flæðareyrarskógi

enn gerast ævintýr

og engan getur grunað

hvað undir trjánum býr.

Er sólin vermir vanga

og vetrarkuldinn dvín

þá lifnar allt aftur

og magnast sá kraftur

er laðar líf til sín.

                Hlíf Guðmunsdóttir

 


9. Lag: Alparós 

Sveitin kær. Sólin skær

sveipar þig dýrðarljóma.

Engi og völl faðma fjöll,

fegursta sveitin blóma.

Blómið sem óx þar innst í mér

á sér þar sterkar rætur.

Allt sem er, ilm þess ber.

Andi þess hlær og grætur.

Grunnavík gróðurrík.

Gnæfir þar fjallaprýði.

Maríuhorn helg og forn

hefjast þar listasmíði.

Brimið sem tíðum við sandinn svarf

er söngur í vitund okkar.

Yndisarf eiga þarf.

Eitthvað sem hugann lokkar.

Höfðaströnd. Hagleikshönd

hugljúfar rista myndir.

Jökulbrún bæir tún

í brekkunum niða lindir.

Kyrjar stormur við klettaskörð,

kaldur á Tröllafelli.

Lækkar jörð við Leirufjörð.

Lýsir þar máni á svelli.

Sigfús Kristjánsson

Prentvænt