Loading...

Grunnavíkurhreppur

Grunnavíkurhreppur

Úr Grunnvíkingabók, höfundur: Guðrún  Ása Grímsdóttir.

Farið vestur með fisk á Skrauta árið 1939. Á myndinni í aftari röð frá vinstri: Ragúel Hagalínsson, Dagbjartur  Majasson, Jakob Hagalínsson, Georg Guðmundsson. Fremri röð: Sveinn Friðbjarnarson, Sigríður Tómasdóttir, Aðalheiður Guðmundsdóttir. Úr Grunnvíkingabók.
Farið vestur með fisk á Skrauta árið 1939. Á myndinni í aftari röð frá vinstri: Ragúel Hagalínsson, Dagbjartur Majasson, Jakob Hagalínsson, Georg Guðmundsson. Fremri röð: Sveinn Friðbjarnarson, Sigríður Tómasdóttir, Aðalheiður Guðmundsdóttir. Úr Grunnvíkingabók.

Grunnavíkurhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu náði yfir fjóra Jökulfirði og strandlengjuna norðan frá Horni að Geirólfsgnúp. Hreppurinn er nú óbyggður og er raunar ekki til, hefir verið sameinaður Snæfjallahreppi, (1. janúar 1964 og síðar Ísafjarðarbæ 1994).

Grunnavíkurhreppur náði að sunnanverðu á Bjarnarnúp (Núp,Vébjarnarnúp) miðjan, þar sem lækurinn Mígandi fellur í fossum í sjó fram og skildi að Grunnavíkurhrepp og Snæfjallaströnd. Þaðan fylgdu hreppamörkin vatnaskilum yfir fjallgarðinn milli Ísafjarðardjúps og Jökulfjarða og í hábungu Drangajökuls og þaðan enn á vatnaskilum norðaustur á  Geirólfsgnúp; voru þar hreppamörk milli Grunnavíkurhrepps og Árneshrepps í Strandasýslu. Að vestan verðu lágu mörk Grunnavíkurhrepps frá Lás, þverhníptum núp milli Hesteyrarfjarðar og Veiðileysufjarðar, voru þar hreppaskil milli Grunnavíkurhrepps og Sléttuhrepps og lágu norður frá Lás á vatnaskilum austur í Almenningaskarð á Hornbjargi norðan Látravíkur.

Bryggjan í Grunnavík 1943. Árabáturinn, Gamli tíminn, er lítill við hliðina á Sæfara bát þeirra Friðbjarnar og Páls Friðbjarnarson frá Sútarabúðum. Fjær er Mummi en Selma við bryggjuhausinn. Úr Grunnvíkingabók.
Bryggjan í Grunnavík 1943. Árabáturinn, Gamli tíminn, er lítill við hliðina á Sæfara bát þeirra Friðbjarnar og Páls Friðbjarnarson frá Sútarabúðum. Fjær er Mummi en Selma við bryggjuhausinn. Úr Grunnvíkingabók.

Vesturhluti byggðarinnar náði yfir Grunnavík sjálfa, litla vík er horfir norðvestur til sjávar yst við Jökulfirði að sunnan. Jörðin Nes (Ytra-Nes í eyði 1954, Innra-Nes 1962) er við víkina sunnanverða en kirkjustaðurinn Staður í Grunnavík  (í eyði 1962) á undirlendi er gengur framaf víkinni og þar voru kirkjujarðirnar; Faxastaðir (1942), Kerlingarstaðir, Sútarabúðir (1962), Sætún (1962). Byggðin við Jökulfirði sunnanverða frá Staðarhlíð norðan Grunnavíkur og innan Dynjanda vestvert við Leirufjörð var kölluð Sveitin. Ysti bær í Sveitinni var Kollsá (1957), þá Höfðaströnd (1959), Höfði (1957) og Dynjandi  (Neðri-bær 1948 Fremri-bær  1952).

Á myndinni sést róið frammí póstbátinn með fólk og flutning frá Hrafnfjarðareyri. Íbúðarhúsið reist um 1930. Þarna bjuggu hjónin Líkafrón Sigurgarðsson og Bjarney Solveig Guðmundsdóttir, mynd úr Grunnvíkingabók, ljósmynd; Þorsteinn Jósepsson.
Á myndinni sést róið frammí póstbátinn með fólk og flutning frá Hrafnfjarðareyri. Íbúðarhúsið reist um 1930. Þarna bjuggu hjónin Líkafrón Sigurgarðsson og Bjarney Solveig Guðmundsdóttir, mynd úr Grunnvíkingabók, ljósmynd; Þorsteinn Jósepsson.
 

Grunnavíkurhreppi tilheyrðu Jökulfirðir fjórir; Leirufjörður er syðstur, þar stóð bærinn Leira (1926) undir fjalli, þá er Hrafnfjörður og veit út á opið hafið nær í vestur, sunnanvert við hann eru jarðirnar Kjós (1952) og Hrafnfjarðareyri (1943) en Álfstaðir (1903) norðan megin.

Norðan Hrafnfjarðar er Lónafjörður sem líklega hefir ætíð verið óbyggður. Fjalllendið stóra á nesinu milli Veiðileysufjarðar og Lónafjaðrar heitir Kvíarfjall. Eftir Kvíardal rennur Bæjará, í daglegu tali nefnd Áin, ofan af fjalli, fellur hún í hyljum og fossum fjórum en næst sjó fer hún í gili. Vestan megin við mynni hennar stóð bærinn í Kvíum í lítilli hvilft niður við sjó, rómað heimili fyrir gestrisni á þessari öld og setið kappsömum sjósóknurum.

Heimilisfólkið í Kvíum um 1940. Að ofan frá vinstri: Kristín Alexandersdóttir, Jakob Falsson, Finnbogi Jakobsson, Guðbjörg Jónsdóttir, Rebekka Stígsdóttir, Siggeir Falsson, Margrét Guðmundsdóttir. Sitjandi frá vinstri: Jónína Jakobsdóttir, Guðrún Jakobsdóttir, Lilja Jakobsdóttir,Helgi Vigfússon. Jakobssynir sem standa: t.h. Óli, Hörður t.v. Úr Grunnvíkingabók, ljósmynd: Vigfús Jóhannesson.
Heimilisfólkið í Kvíum um 1940. Að ofan frá vinstri: Kristín Alexandersdóttir, Jakob Falsson, Finnbogi Jakobsson, Guðbjörg Jónsdóttir, Rebekka Stígsdóttir, Siggeir Falsson, Margrét Guðmundsdóttir. Sitjandi frá vinstri: Jónína Jakobsdóttir, Guðrún Jakobsdóttir, Lilja Jakobsdóttir,Helgi Vigfússon. Jakobssynir sem standa: t.h. Óli, Hörður t.v. Úr Grunnvíkingabók, ljósmynd: Vigfús Jóhannesson.

Vestan hans er Veiðileysufjörður og horfa þar hvor gegn annarri  jarðirnar Steig (1910) að austan og Marðareyri (1907) að vestan. Innar í firðinum eru Steinólfsstaðir (1921). Austurhluti byggðarinnar var í víkum og fjörðum fyrir opnu landnorðurs hafi á strandlengjunni frá Almenningum og austur á Geirólfsgnúp; Látravík (2000) nyrst þá Bjarnarnes (1902), austan þess Smiðjuvík (1934), þá Barðsvík (1911), Bolungarvík (1949), Furufjörður (1950), Þaralátursfjörður (1946) og Reykjafjörður (1959); að honum heldur Geirólfsgnúpur að austan.

Ullarþvottur í Furufirði. Hér skolar Salóme Guðmundsdóttir ull Árna bónda og Elínar húsfreyju,
móður sinnar. Á hlóðum er pottur fullur með ull og kynnt undir með reka. 
 Úr Grunnvíkingabók, ljósmynd; Hans Kuhn 1927
Ullarþvottur í Furufirði. Hér skolar Salóme Guðmundsdóttir ull Árna bónda og Elínar húsfreyju, móður sinnar. Á hlóðum er pottur fullur með ull og kynnt undir með reka. Úr Grunnvíkingabók, ljósmynd; Hans Kuhn 1927

Eyðingu byggðarinnar má skýra með því að féminna fólk; leiguliðar, vinnufólk og uppkomin börn bænda sem ekki áttu staðfestu, leitaði í aðra staði að menntun og arðbærari atvinnu,sumt sökum þess að ekki tókst að hrinda í framkvæmd ráðagerðum um frekari lendingabætur og ræktunarframkvæmdir í Grunnavík. Til þess þurfti  vinnuafl, en bændum lánaðist ekki að halda vinnufólki né uppkomnum börnum sínum kyrrum við störf í byggðarlaginu. Verkfært, eignalaust fólk úr hreppnum leitaðist við að fá atvinnu annarstaðar til þess að geta staðið á eigin fótum og þegar verkafólk fór burtu var stoðum kippt undan búskap og sjósókn; bændur fylgdu verkafólki og skildu eigur sínar eftir verðlausar; hús og jarðir. Sjálfræðislöngun dró fólk burtu, löngun til þess að standa á eigin fótum og njóta arðs verka sinna í léttbýlli byggðum þar sem tækniframfarir urðu örar. Öldum saman reisti hið kyrrstæða samfélag í fjörðum norðan við Djúp og fyrir opnu hafi á Ströndum skorður við að slík löngun næði að slíta eigin rætur.