Loading...

Ungmennafélagið Glaður

Tilurð Ungmennafélagsins Glaður

Þann 25. desember 1928 að aflokinni messugjörð sem fór fram á venjulegum stað og tíma var all margt ungt  fólk þar saman komið sem ætlaði jafnframt að skemmta sér um kveldið,eftir að dansað hafði verið dálítinn tíma gat dansstjórinn, Halldór Jónmundsson frá Stað þess að Jón E. Jónsson frá Kvíum hefði mælst til þess við sig að fá að tala nokkur orð um Ungmennafélagsskapinn og hvort að honum yrði ekki leyft það og var því máli vel tekið.
Síðan fór hann um þetta atriði nokkrum orðum og eftir ósk tilheyrenda las hann upp lög eins slíks félags er hann hafði með sér og gat þess að við gætum haft þau við samningu laga ef til kæmi. Þar næst bar hann upp þá spurningu hvort nokkrir er viðstaddir væru vildu hjálpa sér og bindast samtökum og stofna Ungmennafélag og fékk hann góðar undirtektir. Að því búnu var tilnefnd bráðabrigðastjórn, og Halldór Jónmundsson sem formaður. Ákveðið var að halda næsta fund að Dynjanda þann 1. janúar 1929. Vegna þess að tími var naumur var fleira ekki tekið fyrir til umræðu,frummælandi þakkaði fyrir góðar undirtektir.

Stað 26-12-1928   Benjamín Eiríksson (ritari)

Jón E. Jónsson  Kvíum
Jón E. Jónsson Kvíum

1. fundargerð

1. janúar 1929 var fundur haldinn að Dynjanda í Ungmennafélaginu Árvakur samkvæmt áður gengnu fundarboði. Formaður setti fundinn með nokkrum orðum,þar næst voru lög félagsins  tekin til yfirvegunar og samþykkt.

1.gr. félagið heitir Árvakur

5.gr. Inntökugjald fyrir fullorðna 1. króna,fyrir börn innan fimmtán ára 50. aurar. Árstillag fyrir fullorðna 4. kr.  fyrir börn 2.kr.
þá var ákveðið að halda fund aftur 10 febrúar n.k. að Stað. Þessir voru kosnir til að sjá um skemmtun næsta fundar; Halldór Jónmundsson,Sesselja Jónmundsdóttir,Indriði  Friðbjörnsson,Rósa Falsdóttir,fleira ekki til umræðu,sungið og fundi slitið.

Benjamín Eiríksson (ritari)


Fundargjörð 1929 10. febrúar var haldinn fundur að Stað samkvæmt áðurgengnu fundarboði.

1. fundurinn hófst kl. 4 e.h. og var settur með söng (saung) að því búnu tók Jón E. Jónsson fundarstjóri til máls um álit manna er áttu tal við hann um þetta nýstofnaða  Ungmennafélag,sögðu þeir að tilgangurinn félagsins væri aðeins til að koma af stað dansi og gátu þess að réttnefni félagsins væri Ballvakur en ekki Árvakur og komst  Jón þannig að orði; Ég sem frummælandi þessa félags ber þá ósk,von og trú til ykkar kæru félagar að þetta verði  rangnefni og vona að þetta félag verði sem ljós og lýsi okkur á óförnum lífsleiðum.

2. Halldór Jónmundsson gat þess að hann vildi að nafni félagsins verði breytt vegna þess að annað félag væri með þetta nafn á Ísafirði og væri það mikið eldra og ætti því rétt á að halda nafni. Var það síðan borið undir fundinn hvort að nafni félagsins yrði breytt og féllst meiri hluti á það og var félagið nefnt Glaður.

3. Húsbygging. Framsögumaður Halldór Jónmundsson,byrjaði hann á að lýsa því að nauðsynlegt væri að félagið ætti  hús til þess að halda í fundi og aðrar samkomur,og að húsbyggingarmál yrði efst á dagskrá félagsins. Sömuleiðis var rætt um hvar heppilegast myndi vera að reisa húsið ef til kæmi og var það álit fundarins að yrði reist í miðjum hreppnum, t.d. að Höfða eða Dynjanda. Urðu um það talsverðar umræður,þessir tóku til máls auk framsögumanns; Hans Bjarnarson,Jóhann Pálsson,Indriði Friðbjörnsson,Benjamín Eiríksson ,Jón E. Jónsson og Vagn Guðmundsson sem var boðinn sem gestur fundarins.

Þá bar Jón E. Jónsson upp þá tillögu að kosinn yrði nefnd til að undirbúa húsbyggingarmálið og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þessir hlutu kosningu; Halldór Jónmundsson,Jón E. Jónsson,Benjamín Eiríksson,Indriði Friðbjörnsson og Helga Pálsdóttir.

Fleira ekki tekið fyrir til umræðu,sungið og fundi slitið.

Benjamín Eiríksson (ritari)

Fundargerð

Sunnudaginn þann 17.mars 1929 var fundur haldinn í Ungmennafélaginu Glaður.

1.Fundarstjóri setti fundinn með nokkrum orðum og óskaði eftir að sungið yrði; Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,og var svo gert.

2. Bindindi,framsögumaður Jón E. Jónsson,tók hann fyrst fyrir nautn áfengisdrykkju og skaðsemi hennar,þar næst tóbaksbindindi,sérstaklega sígarettur og síðast kaffibindindi. Fór hann um þessi atriði nokkrum orðum og benti á skaðsemi og fjárhagslegt tjón sem af þessum nautnameðulum leiddi og vísaði hann málinu síðan til fundarins og urðu um það talverðar umræður,þessir tóku til máls auk framsögumanns; Halldór Jónumdsson,Hans Bjarnason,Jón Þorbjörnsson, Hallgrímur Jónsson sem var gestur fundarins,Ragnheiður Jónsdóttir,Sesselja Jónmundsdóttir,Jónas Guðjónsson,Rósa Falsdóttir og Benjamín Eiríksson.

3. Upplestur.

1. Halldór Jónmundsson

2. Sesselja Jónmundsdóttir: Bónorðið

3. Rósa Falsdóttir : Ávarp til Ungmennafélaga

4. Hans Bjarnason : Glettur málarans

5. Jóhann Pálsson

6. Helga Pálsdóttir : Spegillinn

7. Jón E. Jónsson :  Íslenskt þjóðerni

4. Söngur:  Jónína Kristjánsdóttir og Rósa Falsdóttir o.fl. skemmtu með söng.

Fyrstu 3 greinar Laga Ungmennafélagsins Glaður:

1.gr. Félagið heitir Ungmennafélagið Glaður.

2. gr. Tilgangur félagsins er að auka samheldni félaga,þjóðrækni,vekja frjálsar og göfgandi skoðanir og stiðja að siðferðislegum og andlegum þroska félaga eftir megni.

3. gr. Til þess að vinna að markmiði sínu hefur félagið fyrst og fremst þessar aðferðir;

a. Fundarhöld til að ræða og álikta um framkvæmdir.

b. Líkamlegar og andlegar íþróttaiðkanir svo sem glímu, sund, fimleika, knattspyrnu, skautahlaup, skíðaskrið, söng, skáktafl, æfingar í ræðulist, ritsmíðum o.fl.

c. Upplestra og fyrirlestra.


Þá gat fundarstjóri Jón E. Jónsson þess að á einhvern hátt yrðum við að vinna að auka tekjur félagsins til þess að geta bætt úr hússkorti og hefði sér dottið í hug hvort ekki myndi vera hægt að hafa bögglauppboð í sumar og var því máli vel tekið,að því búnu var kosin nefnd til að undirbúa væntanlega skemmtun og taka á móti bögglunum,þessir hlutu kosningu; Sesselja Jónmundsdóttir,Rósa Falsdóttir,Kristín Árnadóttir,Helga Pálsdóttir,Ragnheiður Jónsdóttir,fleira ekki tekið til umræðu, sungið,fundi slitið.

Dynjanda 17. Mars 1929,  Benjamín Eiríksson (ritari)

Benjamín Eiríksson ritari
Benjamín Eiríksson ritari

Sunnudagurinn 7. Desember 1929

Fundur haldinn í Ungmennafélaginu Glaður,fundurinn var haldinn að Dynjanda samkvæmt áður gengnu fundarboði og var settur með söng.

Þar næst tók Jón E. Jónsson til máls um húsbygginguna.

Enn fremur voru teknir inn fimm nýir félagar.

Þar næst var borið undir fundinn hvort að félagar væru ekki fúsir til að leggja fram fé til byggingarinnar og var þeim ummælum vel tekið,félagar hafa lofað 53 dagsverkum í vinnu við húsið og 233 kr. og 50 aurum í peningum á næstkomandi ári.

Bar Jón E. Jónsson upp þá spurningu hvort félagar vildu ekki ákveða einhvern vissan gjalddaga sem peninga upphæð  þessi skildi greiðast fyrir, t.d. 8. júní 1930 og féllst meirihluti á það.

Til skemmtunar; söngur og upplestur,fleira ekki tekið fyrir,fundir slitið,

Benjamín Eiríksson


Sunnudagurinn 10. janúar 1932

Fundur haldinn í Ungmennafélaginu Glaður,fundurinn hófst í Kjós samkvæmt áðurgengnu fundarboði.

Fundurinn var settur með söng.

Fyrst tók til máls Jón E. Jónsson fundarstjóri og gat þess að hvers vegna hann boðaði fundinn,formaður hefði  beðist þess  sökum fjarveru sinnar. Kvaðst hann hafa heyrt raddir um það að stofnendur þessa félags hefði átt að leiða æskulýðinn á rétta braut,enn fremur kvaðst hann vilja að Ungmennafélagið Glaður hefði á stefnuskrá sinni,;Áfengis og  tóbaksbindindi og legðu til grundvallar skaðsemi þessara tveggja nautnameðala.

Því næst var kosin stjórn félagsins; Formaður Jón E. Jónsson,til vara Halldór Jónmundsson,ritari; Benjamín Eiríksson til vara Kristín Árnadóttir,gjaldkeri;Rósa Falsdóttir til vara Kristín Árnadóttir og fundarstjóri; Halldór Pálsson og til vara Guðfinnur Einarsson.

Fundurinn lítur svo á að hver félagi sem eigi ógreitt ársgjald yfir 2 ár geti ekki talist lengur meðlimur þessa ungmennafélags,nema um sérstök atriði sé að ræða t.d. veikindi eða fjarvera.

Lagabreytingar.

Því næst tók til máls Sigríður Jónsdóttir um siðferðislegt menningarstarf og að ungmennafélagið ætti að starfa í samfélagi
við kirkjuna.

Þá var tekið fyrir Vínbindindi og Tóbaksbindindi,urðu umræður allmiklar,tóku þessir til máls; Jón E. Jónsson,Sigríður Jónsdóttir,Kári Samúelsson,Benjamín Eiríksson,Guðmundur Árnason,Kristín Árnadóttir, Jakob Einarsson,Helga Pálsdóttir,Stefán Guðmundsson og Gestur Loftsson. Því næst var málið borið undir atkvæði og voru því 18 meðfylgjandi en 5 á móti.

Fundurinn sér sér ekki fært að taka ákveðnar ályktanir í Vínbindindismálinu en skora hins vegar á félaga að enginn þeirra megi sjást ölvaður á fundum eða skemmtunum innan félagsins.

Skipulagsskrá. Tillaga frá Jóni E. Jónssyni um að stofnaður verði sjóður handa efnilegum og duglegum unglingum til náms og skuli sjóður þessi heita Menntunarsjóður Ungmennafélagsins Glaður.

Tilgangur sjóðsins er að veita fátækum en efnilegum unglingum innan félagsins (jafnt körlum sem konum)styrk til bóklegs eða verklegs náms,enda sanni umsækjandi með vottorði barnakennara síns að hann hafi áhuga fyrir námi að afloknu venjulegum barnalærdómi.

Þá tók til máls Rósa Falsdóttir,þakkaði félögum fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og óskaði eftir að það yrði meira á þessu ári sem væri að byrja,fleira var þá ekki tekið fyrir,fundarstjóri sagði fundi slitið.

Benjamín Eiríksson ritari

Við samkomuhúsið á Flæðareyri
Við samkomuhúsið á Flæðareyri

Laugardaginn 11. mars 1933 var aðalfundur haldinn í Ungmennafélaginu Glaður í Flæðareyri í húsi félagsins, samkvæmt áður gengnu fundarboði.

Aldursforseti sem var Ragnheiður Jónsdóttir stýrði fundi þar til kosningar fóru fram.

Fyrst tók til máls formaður félagsins  Jón E. Jónsson,bauð hann félaga alla velkomna á fund þennan sem væri fyrsti  fundurinn í húsi þess og minntist hann þess hve stórt spor félagið hefði stígið í framfaraátt einmitt nú á þeim erfiðu tímum ,ennfremur skírði hann málefnalega frá fjárhag félagsins og ræddi það mál á víð og dreif. Að því loknu færðu félagsmenn honum einróma hlýjar  þakkaróskir fyrir hans ötula og dugandi starf í húsbyggingarmálinu og allri sinni framkomu á vegum félagsins.

Kristján Guðjónsson hvatti félagsmenn til betri fundarsóknar hér eftir en hefði verið.

Þá var kosinn stjórn félagsins,formaður Jón E. Jónsson endurkosinn í einu hljóði,til vara Jónas Guðjónsson,gjaldkeri Rósa Falsdóttir endurkosin til vara Dagbjartur Majasson,endurskoðendur Halldór Jónmundsson og Jóhann Pálsson.

Lagt var fyrir fundinn bréf frá Hallgrími Jónssyni hreppsnefndarmanni,þess efnis að sér ásamt formanni félagsins hefði verið falið að leita leigutilboðs á húsi því er félagið ætti,til almennra fundarhalda fyrir hreppinn og óskaði eftir að samkomulag næðist á milli þessara aðila. Eftir að bréfið hafði verið lesið upp á fundinum var málið ítarlega rætt og var tekin svohljóðandi ákvörðun; Fundurinn álítur að lágmarksleiga fyrir húsið yfir árið geti ekki verið minni en 100 krónur til almennra fundarhalda hreppsins,auk þess ræsting að afloknum hverjum fundi og skal gilda til 5 ára.

Kosin var 5 manna nefnd til að undirbúa og stjórna væntanlegri skemmtun sem ákveðið var að halda skildi á komandi sumri,þessi hlutu kosningu; Kristín Árnadóttir,Guðrún Pálsdóttir,Ragnheiður Jónsdóttir,Halldór Jónmundsson og Jónas Guðjónsson.

Fleira var ekki til umræðu,fundarstjóri sagði fundi litið,að endingu var stigin dans.

Flæðareyri 11. mars 1933    Benjamín iríksson ritari 

Sunnudagurinn 25. feb. 1934 var fundur haldinn í Ungmennafélaginu Glaður að Flæðareyri,fundurinn var aðalfundur félagsins samkvæmt áður  gengnu fundarboði. Í byrjun var Halldór Jónmundsson kosinn fundarstjóri.

Fyrsta mál á dagskrá var að kjósa stjórn félagsins,gjaldkera og ritara. Gjaldkeri var kosinn Dagbjartur Majasson í einu ljóði og ritari Benjamín Eiríksson með öllum greiddum atkvæðum.

Annað mál á dagskrá;tveir nýir félagar voru innritaðar í félagið, Jakob Falsson og Jakob Hagalínsson.

Þriðja mál; reikningar félagsins lagðir fram endurskoðaðir.

Því næst tók til máls Halldór Jónmundsson um bindindismál og hvatti félaga til að vera vel á verði gegn Bakkusi og ennfremur beindi hann þeirri fyrirspurn til félagsmanna hvort að Ungmennafélagið Glaður ætti að ganga í Ungmennafélag Íslands. Um þetta mál spunnust nokkrar umræður en engin fullnaðarákvörðun tekin í því máli. Að þessu loknu las formaður Jón E. Jónsson upp erindi,mjög fróðlegt og eftirtektarvert.

Fleiri mál voru ekki til umræðu og fundarstjóri sagði fundi slitið.

Benjamín Eiríksson ritari.

Á Flæðareyri
Á Flæðareyri

Mánudagurinn 2. apríl 1934 var haldinn  fundur í Ungmennafélaginu Glaður að undan gengnu fundarboði.

Fyrst var tekið fyrir að kjósa í Tombólunefnd og hlutu þessir kosningu; Gestur Loftsson,Benjamín Eiríksson,Guðmundur Árnason,Eiríkur Guðjónsson og Jakob Einarsson, varamenn Halldór Jónmundsson og Helga Pálsdóttir.

Kosið var í skemmtinefnd; Halldór Jónmundsson,Sigrún Einarsdóttir og Gestur Loftsson.

Fundurinn felur stjórninni að taka víxillán fyrir  járni  á þak og gafl hússins.

Einn félagi samþykkur í félagið sem er Kristín Alexandersdóttir Dynjanda.

Fleira ekki tekið fyrir,fundargerðin upplesin og samþykkt,fundi slitið.

Dagbjartur Majasson ritari og Jakob Falsson fundarstjóri.


Blaðið Vesturland 30.júní 1934

Skemmtisamkomu heldur U. M. F. Glaður í Grunnavíkurhreppi 8. júlí í samkomuhúsi sínu á Flæðareyri. Til skemmtunar hlutavelta og dans.


Sunnudagurinn 20. okt. 1935.

Fundur haldinn í Ungmennafélaginu Glaður á Flæðareyri samkvæmt áður gengnu fundarboði.

Formaður félagsins setti fundinn að því loknu var kosinn fundarstjóri, Eiríkur Guðjónsson,þá  fór formaður félagsins nokkrum orðum um 2.gr. félagsins um að styðja að andlegum þroska félagsins eftir megni.

Þá flutti Eiríkur Guðjónsson tölu um útgáfu félagsblaðs og urðu um það mál nokkrar umræður og að lokum flutti formælandi svohljóðandi tillögu ; Fundurinn samþykkir að kjósa fimm menn til að semja reglugerð fyrir útgáfu handritaðs félagsblaðs og sjá um útgáfu þess þegar á næsta ári. Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Til þess að undirbúa málefnið og semja reglugerð voru kosnir Eiríkur Guðjónsson formaður,Dagbjartur Majasson,Benjamín Eiríksson,Jón E. Jónsson og Guðmundur Árnason.

Þá kom fram málefni frá formanni um skiptingu á bókum Lestrarfélags  Grunnavíkurhrepps og að lokum var samþykkt svo hljóðandi tillaga; Ungmennafélagið Glaður mælist til þess við stjórn Lestrarfélagsins að hún boði til fundar næstkomandi laugardag og verði þá tekið til meðferðar skipting á bókum félagsins o.fl.  Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Fundurinn samþykkti að fela stjórn Glaðs að verja fyrir næstu áramót allt að 10-12 kr. fyrir Grammófónsplötum eða öðru Músikki handa félaginu. Fundurinn mælir einróma með því að Inngangseyrir ef einhver verður renni í sjóð sem verja skuli fyrir hljóðfæri eða músikki í framtíðinni.

Benjamín Eiríksson ritari og Eiríkur Guðjónsson fundarstjóri.

Ungir menn á samkomu á Flæðareyri
Ungir menn á samkomu á Flæðareyri

Blaðið Vesturland 14.janúar 1939:

Ungmennafélagið Glaður í Grunnavíkurhreppi hélt 10 ára afmælisfagnað i samkomuhúsi sínu að Flæðareyri 21. des. síðastl., og var þangað boðið öllum hreppsbúum. Formaður félagsins, Jón E. Jónsson í Kvíum, setti skemmtunina og bauð gesti velkomna.
Var síðan sest að kaffidrykkju og voru margar ræður fluttar undir borðum, og fögnuður mikill, en alls voru viðstaddir um 80 manns. Helstu verkefni félagsins hafa verið bygging samkomuhúss á Flæðareyri.