Loading...

Flæðareyri og Höfði sumarhús

Flæðareyri – Höfði  sumarhús

Mætar, ljúfar minningar

mannlífs vors af fundum

þá farið var um Fjörðurnar

að Flæðareyri stundum                    

Sýnishorn af stemmingunni á Flæðareyri:

Í Flæðareyri stendur samkomuhús ungmennafélagsins  sem var í Grunnavíkurhreppi,byggt á fjórða áratug síðustu aldar. Halldór B. Halldórsson á Ísafirði gaf Ungmennafélaginu Glað í Grunnavíkurhreppi lóð undir húsið með gjafabréfi dagsettu á Ísafirði 14. ágúst 1933,en hann var eigandi jarðarinnar Höfða. Segir hann í bréfinu að lóðin sé 2500 fermetrar á svo nefndri Flæðareyri,og að þess utan hafi félagið frían fimm metra breiðan veg til sjávar frá lóðinni. Segir og að félagið beri „ábyrgð á spjöllum ef verða kunni utan lóðatakmarkanna gagnvart ábúendum jarðarinnar af félagsins völdum“. Að sögn gaf Halldór að auki tuttugu poka af sementi til byggingar samkomuhússins og hver bóndi í hreppnum gaf lamb til þess að standa undir efniskostnaði en sameiginlega unnu hreppsbúar að því að reisa húsið.

Halldór B. Halldórsson
Halldór B. Halldórsson

Á síðustu árum byggðar í hreppnum kom unga fólkið alstaðar að úr sveitinni í Flæðareyri tvisvar eða þrisvar á vetri en oftar á sumri til þess að skemmta sér,dansaði þar heillastundir,keypti heitan rabarbaragraut með rjóma og snæddi saman við langborð í eldhúsinu í kjallaranum. Hóf sín dagsverk heima á bæjunum að morgni ósofið. Í Flæðareyri halda burt fluttir Grunnvíkingar enn gleði á sumri á fjögurra ára fresti; liggja við í tjöldum,stíga þróttmikinn dans um nætur;kvika æskunnar vakir í augum og hreyfingum þegar rakin eru gömlu sporin í Flæðareyri.

Úr Grunnvíkingabók Guðrún Ása Grímsdóttir.


Blaðið Vesturland 30.júní 1934

Skemmtisamkomu heldur U. M. F. Glaður í  Grunnavíkurhreppi 8. júlí í samkomuhúsi sínu á Flæðareyri. Til skemmtunar hlutavelta og dans.


Blaðið Vesturland 14.janúar 1939:

Ungmennafélagið Glaður í Grunnavíkurhreppi hélt 10 ára afmælisfagnað i samkomuhúsi sínu að Flæðareyri 21. des. síðastl., og var þangað boðið öllum hreppsbúum. Formaður félagsins, Jón E. Jónsson í Kvíum, setti skemmtunina og bauð gesti velkomna. Var  síðan sest að kaffidrykkju og voru margar ræður  fluttar undir borðum, og fögnuður mikill, en alls voru viðstaddir um 80 manns. Helstu verkefni félagsins hafa verið bygging samkomuhúss á Flæðareyri.


Blaðið Skutull  2. ágúst  1947

Ljósmæður heiðraðar. Sunnudaginn 29. júní héldu Grunnvíkingar og aðrir hreppsbúar ljósmæðrunum Ragnheiði  Jónsdóttur í Kjós og Kristínu Benediktsdóttur á Dynjanda  samsæti á Flæðareyri. Samsætið var haldið í tilefni af 50 ára ljósmóðurafmæli Ragnheiðar og 25 ára ljósmóðurafmæli Kristínar í hreppnum. Frú Rebekka Pálsdóttir á Dynjanda setti samkvæmið fyrir hönd undirbúningsnefndarinnar en séra Jónmundur Halldórsson flutti aðalræðuna fyrir minni heiðursgestanna. Afhenti hann Ragnheiði í Kjós vandaðan hægindastól að gjöf frá konunum í hreppnum en Kristínu á Dynjanda matarstell. Ungfrú Guðrún Jakobsdóttir í Reykjarfirði flutti heiðursgestunum frumort kvæði. Þá flutti Sigurður Bjarnason alþingismaður, sem þarna var staddur á leiðarþingaferðalagi, ræðu. Þegar staðið var upp frá borðum hófst söngur og dans. Var samsætið bæði fjölmennt,skemmtilegt og  myndarlegt.


Þegar fólki fór að fækka og Ungmennafélagið hætti störfum var enginn sem hugsaði um húsið.


Árið 1967 fékk Grunnvíkingafélagið á Ísafirði  húsið að gjöf og var þá farið norður og ástand þess kannað. Einhverjir töluðu um að þetta væri hefndargjöf því ástand hússins var þannig að menn sáu ekki fyrir sér að það yrði nokkurn tímann nothæft. Gluggarnir ónýtir, gólfið fallið niður og snjóskafl í eldhúsinu.


Árið 1968 var fyrsta viðgerðarferðin farin og síðan hefur verið farið á hverju ári til að gera húsinu til góða. Þegar menn koma hingað í viðgerðarferðirnar þarf að hafa með sér öll hugsanleg verkfæri. Þegar menn komu hér í fyrstu viðgerðina hafði engum ekki dottið í hug að það þyrfti að hafa með sér hallamál, en auðvitað þurfti hallamál til þess að gólfið yrði rétt. Þá voru kallarnir svo stálheppnir að finna á milli þilja brennivínspela sem Jón í Kvíum hafði gleymt þar þegar húsið var byggt, en Jón í Kvíum var formaður ungmennafélagsins um þær mundir. Þeir gátu því notað pelann til að taka halla af gólfinu meðan hann entist. Það er því gleymsku Jóns í Kvíum að þakka að við getum dansað á hallalausu gólfi.


Árið 1969 var fyrsta Flæðareyrarhátíðin sem  svo eru kallaðar í dag og haldnar hafa verið á fjögurra ári fresti.  Og síðan árið 1972 var haldin næsta hátíð, var hún mjög fjölmenn eða ríflega  400 manns,margt af því fólki mjög langt að komið. Flestir fóru með Fagranesinu en aðrir smærri bátum og voru t.d. 17 bátar á legunni  við Flæðareyri þegar  flest var. Hundrað tjöld voru talin og hafði áreiðanlega aldrei fyrr sést slík tjaldborg í Jökulfjörðum. Veður var hið besta hátíðardagana. Síðan hefur Flæðareyrarhátíð verin haldinn á fjögurra ára fresti og sú næsta, sú tólfta því sumarið 2012.

Höfði  sumarhús Grunnvíkinga

Guðrún Pálsdóttir Höfða
Guðrún Pálsdóttir Höfða

Þann 23 mars 2002 lést Guðrún Pálsdóttir frá Höfða á Höfðaströnd. Við andlát sitt arfleiddi hún Grunnvíkingafélögin á Ísafirði og í Reykjavík af öllum veraldlegum eigum sínum. Að hennar ósk var fyrir andvirði þess keypt sumarhús, húsið er í landi Ytri-Skeljabrekku í Borgarfirði. Félögin á Ísafirði og Reykjavík reka sumarhúsið í sameiningu og eru allir Grunnvíkingar hvattir til að nota sér þetta stórglæsilega sumarhús.Umsjónarmaður Höfða er Ægir Ólason, sér hann um úthlutun og gefur upplýsingar um húsið í síma  561-1687 eða 847-8180. Einnig er hægt að senda honum póst á netfangið aegirogthora@simnet.is. Við hvetjum fólk til að nota húsið, hvort sem um viku eða helgarleigu er að ræða.

Höfði sumarhús
Höfði sumarhús