Loading...

Örnefni í Grunnavíkurhreppi

Staður í Grunnavík

Staður
Staður

Nokkur örnefni.  Tekið saman eftir upplýsingum Jakobs Hagalínssonar auk þess, sem sá, er þetta skrifar, þekkti til.
Staður í Grunnavík var talinn vera, og var vafalaust, bezta bújörðin í Grunnavíkurhreppi, enda kirkjustaður og prestsetur.
Staðará skiptir þannig löndum í Grunnavík að Staður á allt land norðan árinnar, en að sunnan eru það, talin frá sjó, Sútarabúðir, Oddsflöt og Faxastaðir.  Á hina hlið eiga Staður og Kollsá landamerki saman, þau liggja um Kálfhamar niðri við sjó, þaðan upp hlíðina og sjónhending í Hildarhaug , sem er á brún Seljafjalls milli Miðdals og Litladals .
Í landi Staðar er Sætún niðri við sjó.  Þar var búið allt þar til Grunnavíkin fór í eyði.  Sætún hét áður Kot , en ekki veit ég, hvenær nafnaskiptin urðu.  Áður fyrr var búið á Eyjólfshóli , sem er innan túngirðingar á Stað, og Bjarnarhóli á móti Faxastöðum.  Enn fyrr er sagt, að búið hafi verið á Fornabæ , sem er fram við Stekká.  Á Staðareyrum voru verbúðir og útræði, meðan róið var á árabátum, allt fram undir 1930.

 

Verða nú talin upp nokkur örnefni á Stað og byrjað innan túngirðingar: Hjallatún liggur frá núverandi húsum á Stað (áður voru þau lengra fram á túni) í áttina fram með hlíðinni.  Það er grýtt og ógreiðfært til heyskapar.  Fjósatunga er fram með Bæjarlæknum fjær húsunum.  Kirkjuflöt er lengra fram á túni.  Undirtún er niðri við Staðará.  Eyjólfshóll er framarlega á túninu, sömuleiðis Laufatunga og Magáll .

 

Utan túngirðingar:  Skammt fyrir framan túnið er Lambhagi ármegin við veginn, en Laugamýrar fyrir ofan veg.  Djúpagil og Bjarnarhóll eru á móts við Faxastaði.  Nokkru framar taka við Nesin og ofan við þau Fornibær.  Langholt er fyrir framan Stekká.  Þá taka við Eyrar fram með ánni, Illakelda og Helgutjörn .  Upp undir hlíðinni eru Hvammar og Seljahlíð hlíðin þar fram eftir.  Þetta er í mynni Staðardals .  Horn heitir þar, sem dalurinn byrjar, og Geirnýjarhjalli (eða Girnýjarhjalli) liggur ofan við hlíðina fram í dalinn.  Lengra frammi í dalnum veit ég ekki um afstöðu kennileita, en þar eru Axlarhjalli , Hrútaborgir , Lambavötn , Lambavatnahlíðar, Ártungur , Grænavatn , Þröskuldur og Tindaskörð.  Þau eru milli Staðardals og Höfðastrandardals.

 

Verður nú aftur byrjað framan við túngirðingu lengra frá ánni. Þar er Steinsleiti og Steinsleitispartur .  Lengra fram í engjunum er Miðpartur .  Þar sem fer að halla upp á heiðina, heitir Brekkur , innan við þær Gvendarflói og síðan Skeiðisvötn .  Upp af Skeiðisvötnum er Litlidalur og uppi á brúninni milli hans og Miðdals er Hildarhaugur, sem áður er nefndur.

 

Enn verður byrjað heima á Stað.  Hlíðin upp af Hjallatúninu var í daglegu tali kölluð Hlíðin .  Fram af henni eru Katlar.  Þegar lengra kemur, eru Hjallar .  Um þá var farið, þegar farin var Kollsárheiði, sem venjulega var farin að vetrinum, því hún var snjóléttari en Höfðastrandarheiði og þar að auki vörðuð.  Þessi þrjú nöfn, Staðarheiði , Kollsárheiði og Höfðastrandarheiði, ná öll yfir sama landsvæðið, og þar á Höfðaströnd ekkert land að heitið geti.  Upp af Hjöllunum er Húsadalur og Húsadalsvatn.  Þá kemur Ytrafell og Innrafell.

 

Nú verða talin örnefni frá Stað í áttina til sjávar og síðan með sjó alla leið að landamerkjum Staðar og Kollsár:  Sjávarvegur heitir leiðin frá Stað niður í Sætún.  Þingholt er skammt fyrir neðan Stað við Staðará.  Þar stóð eitt sinn þinghús hreppsins. Seinna var þinghús á Höfða, en eftir að ungmennafélagið byggði samkomuhús í Flæðareyri, var þingstaður hreppsins þar.  Árdalur er á móts við Oddsflöt.  Stórholt er um miðja vegu milli Staðar og Sætúns.  Breiðiteigur er uppi í hlíðinni og Torfateigur nær Sætúni.  Þessir teigar eru grasgeirar upp eftir hlíðinni.  Út með sjónum eru Bakkar.  Aðalsteinsvík er rétt utan við það, sem bryggjan er nú.  Meyjaklöpp er nokkru utar.  Hlassi er stór steinn frammi í sjó og Hlöss yzt.  Þar næst liggur landið til hægri inn Staðarhlíð .  Upp af Hlössunum er Maríuhorn .  Í því er stallur, sem heitir Hófnef , og efst uppi   er Maríualtari, það er upp af Harðavallargili.  Niðri við sjóinn, stuttu fyrir innan Hlöss, er stakur klettur, sem heitir Töluklettur.  Um það bil miðja vegu milli Hlassa og Ófæru er Harðavallargil (Hafravallargil?).  Ófæran er klettur, sem gengur fram í sjó, og gegnum hana eru tvö göt.  Um það, sem er nær hlíðinni, var farið, ef ekki var hásjávað, annars varð að fara uppi yfir Ófæruna.  Nokkru innar með hlíðinni eru Eyrnabakkar, síðan Ytrieyri og svo Staðareyrar.  Innan við Staðareyrar      er Urðin og innan við hana Kálfhamar.  Upp af Staðareyrum er Pantagil og Brúnir upp af allri Staðarhlíðinni.  Í klettunum upp af Staðarhlíðinni er Ganghilla .

                                                Skrifað í nóvember 1982,
                                                Dagbjartur Majasson

 

 

 

 

Leira

 

Leira
Leira

Leirufjörður gengur til suðausturs og er ásamt Hrafnfirði, sem liggur til austurs, innstur fjarða í Jökulfjörðum.  Fyrir botni hans eru leirar, framburður jökulár og mikið útfiri.  Inn af Leirunum eru Leirueyrar , slétt graslendi að mestu vaxið smágerðri stör.  Sums staðar er votlent svo sem í Vöðlunum , sem eru nálægt sjónum að suðvestanverðu á Eyrunum og í Flóðunum norðaustan til á þeim.  Í Flóðunum var góð torfrista, og var m.a. rist þar mikið af torfi til einangrunar í fyrstu frystihúsunum á Vestfjörðum.  Sums staðar á Eyrunum er þurrlent eins og á Landeyrinni fram með Landánni og á Krókeyrinni á móts við bæinn.  Eyrarnar ná fram að Jökulgarði, sem er malarhryggur að mestu þvert yfir láglendið.  Fyrir framan Jökulgarðinn taka við Hraunin, að mestu gróðurlaust land með malarhryggjum hér og þar, að líkindum ruðningar undan jöklinum á ýmsum tímum.  Hraunin ná fram undir það, sem landið fer að hækka, og er þá skammt upp að Drangajökli .  Að suðvestan við Eyrarnar og Hraunin er Dynjandisfjall.  Það er mestallt í landareign Leiru.  Dynjandisfjall er bratt og fremur gróðurlítið, einkum framan til.  Að norðaustanverðu er Leirufjall, það er vel gróið og grösugt hátt upp eftir.

 

Mun ég nú lýsa kennileitum þeim megin, þ.e.a.s. bæjarmegin, eftir því sem ég þekki til.  Landamerki Leiru og Dynjanda eru Skógarlækir, utarlega í Dynjandisfjalli.  Landamerki Leiru og Kjósar eru Vegalækur, lítill lækur, sem rennur niður Hvamminn og í Landána, frá Vegalæk í Gasaklett, stakan klett efst í Hvamminum, þaðan í Litladal, yfir Hellismúla og upp Geimrönd.  Eyrarnar á Leira til sjávar.  Niður með Dynjandisfjalli rennur Fjörðurinn, jökulá undan Drangajökli.  Áin kemur á tveim stöðum undan jöklinum, Austari- og Vestari-Jökulár.  Þær renna saman fremst á Hraununum.  Leirumegin eða þeim megin, sem bærinn stóð, er Landáin mynduð af lækjum, sem koma af Leirufjalli, og Kvíslin, sem rennur framan til við Jökulgarðinn og síðan skáhallt yfir Eyrarnar og í Landána skammt fyrir neðan bæinn.  Kvíslin er mynduð af Litlá og Stórá, sem báðar koma af Leirufjalli.  Bærinn stóð í brekku upp frá Eyrunum efst í Miðtúninu.  Fyrir utan hann, að norðvestan, er Bæjarlækurinn, en fyrir framan, að suðaustan, Bæjaráin.  Fyrir utan Bæjarlækinn er Ytratúnið, en fyrir framan Bæjarána Fremratúnið.  Niður af Fremratúninu heitir Húsavað á Landánni, en út og niður af Ytratúninu Klampavað.  Er það rétt fyrir neðan það, sem Landáin og Kvíslin hafa sameinazt.  Stutt fyrir utan túnið eru Börðin.  Þar sést fyrst til mannaferða þeirra, sem koma neðan úr Kjós.  Efst á Börðunum er Stekkurinn, þar fyrir utan Nasabreiðan og upp af henni Nasinn, klettabelti á brún Lægrafjallsins utan til.  Niður af Börðunum er Vörðuholtið, rétt ofan við Landána.  Út og upp frá því eru Hvammabrekkur og síðan Hvammurinn, en um hann liggja landamerki Kjósar og Leiru, eins og áður er sagt.  Rétt fyrir ofan bæinn var Kvíin, þar sem ærnar voru mjólkaðar að sumrinu.  Þá tekur við Bólið, upp af því Bollarnir og utar Stúfhjalli.  Upp af honum heitir brúnin á Lægrafjallinu Stúfhjallabrún.  Þar upp lá hestagata, sem hey var reitt um af Lægrafjallinu utan til.  Fyrir framan bæinn eru Lægribali og Hærribali og upp af Hærribala Slakkinn.  Um Lægribala og Hærribala lá hestagata upp á fjall og fram á Engihjalla.  Lengra fyrir framan bæinn er Langholtið og upp af því Bergið.  

 

Þar fyrir framan Hryggirnir, þeir eru að mig minnir þrír, þá Flesið og fyrir framan það Svaðin.  Þar fyrir framan er Litlá og síðan Stórá.  Fyrir framan Stórá eru Jökulhjalli og Svartihjalli, en Hraunahlíðin neðar og fram að Hvítá , og er þá stutt fram að Austari-Jökulám.  Upp af Bollunum og Stúfhjalla er Lægrafjallið.  Utarlega á því er Stórholt, en Lægrafjallið endar á Hellismúla, og er þá komið í Kjósarlandareign.  Efst á Lægrafjallinu er Eyvindarhóll, að sögn kenndur við Fjalla-Eyvind.  Framarlega á Lægrafjallinu eru mógrafirnar.  Í framhaldi af þessu er Lyngholtið upp af Berginu og síðan Engihjalli, sem endar í Engihjallahaus.  Þar fyrir framan er Bletturinn, og var hann stundum sleginn.  Fyrir neðan brúnina milli Engihjallahauss og Blettsins er Svaðinn, sem áður er nefndur.  

 

Það, sem er fyrir ofan Lægrafjall og Engihjalla, er einu nafni kallað Hærrafjall.  Þar heitir Sauðahlíð upp af Lægrafjallinu, grasi gróinn hjalli.  Á brún Sauðahlíðar er lítið holt með vörðubroti á, þar heitir [g]ja.  Hún sést frá bænum yfir brún Lægrafjallsins.  Upp af Engihjalla er Grafarhjalli og fyrir ofan hann Lækjarbrekka , lítill hjalli.  Milli Grafarhjalla og Lækjarbrekku annars vegar og Sauðahlíðar hins vegar er Sauðahlíðarslakki.  Fram af Grafarhjalla eru Nautahjallar og síðan Fosshjallar fram að Stórá.  Þar er foss í ánni, Stórárfoss, og Stórárnef (74) framan til við fossinn.  Upp af Sauðahlíð og Lækjarbrekku er Hæðin.  Sauðahlíð og Hæðin enda á Geimrönd, og er þá komið að landamerkjum Kjósar.  Fram af Hæðinni eru Nautahjallar og Fosshjallar, sem áður eru nefndir.  Allir þessir hjallar, sem nú hafa verið nefndir, eru grasi vaxnir að ofan, og var þar engjaland Leiru.  Fyrir ofan Hæðina eru Smáfellin og fram af þeim Pálssteinshjalli.  Á honum er stór steinn, svartur að ofan af geitnaskóf, hann heitir Pálssteinn.  Þar fyrir ofan er Langihjalli, að mestu gróðurlaus, og efst Kjölur.  Fyrir framan Fosshjalla er Lægribunga og Hærribunga ofar.  Landið þar fyrir framan var einu nafni kallað fyrir framan Bungur“ og þar fremst og efst Skot, og tekur þá við Drangajökull.  

 

Frá Leirubænum blasir Dynjandisfjallið við.  Efst á því Krubbuhorn, hattlaga frá Leiru að sjá.  Hádegi var talið, þegar sól var yfir Öldugilsám, nón á stórum steini á brún fjallsins vestar og miðaftann á Sauðahlíð upp af Dynjanda.  Í framhaldi af þessu sjást fjöllin út með Sveitinni og ber þar mest á Seljafjalli upp af Höfðaströnd.  Lengst til vesturs eða norðvesturs sjást Aðalvíkurfjöll.  Frá Leirubænum sást aðeins einn bær, þ.e. Dynjandi.  Jörðin Leira fór í eyði árið 1926.
Leirufjörður, jökuláin, hefur oft breytt um farveg.  Þegar ég þekkti þar til, rann hann niður með Dynjandisfjalli.  Áður hafði mikill hluti hans runnið í Krókána, um það bil á miðjum Eyrunum, en eftir 1960 var hann búinn að brjóta sér leið sniðhallt yfir Eyrarnar og í Landána.

Málvenja um áttir:
Stuttar vegalengdir var ekki venja að miða við höfuðáttir.  Það var talað um að fara upp á Leirufjall, fram á Hraun, yfir í Dynjandisfjall, út að Dynjanda, ofan í Kjós og inn að Hrafnfjarðareyri.  Aftur á móti var sagt norður á Strandir, austur í Reykjarfjörð, vestur á Ísafjörð og suður í Reykjavík.

                                                Reykjavík, 24. febrúar 1976,
                                                Dagbjartur Majasson

 

 

 

 

Dynjandi

 

Dynjandi
Dynjandi

Jörðin Dynjandi þótti mjög vel í sveit sett á meðan byggð hélst í Grunnavíkurhreppi. Þar bjuggu frá um 1888- 1935 tveir mágar, Benedikt Kr. Benediktsson og Einar Bæringsson, umsvifamiklir og framtakssamir athafnamenn sem gerðu garðinn

frægan.
Jörðin Dynjandi liggur í Leirufirði milli jarðanna Höfða og Leiru. Áin Fossadalsá þar sem hún fellur af fjallsbrún beina línu í Flæðarhól , skilur lönd Dynjanda og Höfða. Skulu nú greind þau örnefni er ég man frá vestri til austurs.
Smáklettafjall suðvestur frá bænum nefnist Högg . Sunnan við það hallandi engi er nefnast Hvilftir en efsta brúnin frá þeim nefnist Ból með niðurskornu dragi er nefnist Bólvatnsskarð , og dregur það nafn af smástöðutjörn er þar liggur en þornar oft upp í þurrkasumrum. Mófjall að vestan; er það lítið fjall ofan við svo-kölluð Högg. Þar næst tekur við fjall er neðar liggur er nefnist Lyngheiði . Er það allt kjarri vaxið að sunnan en lyngmóar græða það að vestan. Það er allbreitt efst og nefnast þar Steinslægðir, Efri- og Neðri . Steinn er þar allmikill er gnæfir við himin heiman að sjá er nefnist Miðmundi og sagði til um klukkuna á hverjum degi.
Þá er dregur suður fyrir umrædda heiði skerast tveir dalir alllangt inn í fjallgarðinn og vísar annar í suðvestur, hinn í suður. Sá vestari nefnist Múladalur og eru kennileiti þau helstu í honum þessi: Sauðahlíð að vestan, fyrir botni hans Helgubrekkur og að austan Gæsisfell sem er allstór klettastapi, gróðurlaus. Tröllafell aðskilur Múla- og Dynjandisdal . Er það allhátt og hrikalegt og gróðursnautt, umvafið skriðum og hellugrjóti og nær það skammt fram í dalinn, en niður af því eru allmikil slægjulönd, t.d. Tröllafellsengi . Stundum var það leið búsmalanna að ganga af Helgubrekkum bak við Tröllafell og suður í Dynjandisdalinn og var þá allvíðsýnt yfir að líta, ef veður var heiðskírt, af Tröllafelli.
Þá er kom niður í Dynjandisdalinn taka við kennileiti (gilskorningar) er Gjótur heita, en fyrir botni dalsins eru grasi grónir hjallar er nefnast Gunnuhjallar . Upp úr Dynjandisdal lá alfaraleið til forna frá Dynjanda til Unaðsdals á Snæfjallaströnd (er nefnist Dalsheiði). Gægishlíð nefnist austasta hlíð dalsins og dregur hún heiti af allstórum steini er þar stendur niður á lægsta hjalla og nefnist Gægir . Neðsti hjalli dalsins nefnist Hornhjalli .
Tvær ár allmiklar falla sín frá hvorum dal. Flatneskja er mikil á milli þeirra er nefnist Ártungur . Saman falla árnar í einn farveg í mynni dalsins og nefnist þá Dynjandisá sem bæjarheitið dregur nafn af því allstór foss prýðir ána skömmu áður en [hún] fellur til sjávar.
Brattihjalli nefnist sá hjalli er tekur við af Hornhjalla og beygir hann til suðurs inn í Leirufjörðinn. Hádegisfjall , efsta fjallið með sínum Hádegishnjúk sem sagði til um hvenær klukkan væri 12 á hádegi. Á Brattahjalla voru þessi örnefni: Neðan við Brattahjallahausinn   lá smáhjalli er nefndist Stúfhjalli . Hrútshöfði var eitt stórt klettanef og Skógarlækjanef á láglendi. Arnarstapi . Skógarlækir , en um þá voru landamerki Leiru og Dynjanda.
Þá farið er inn fjörðinn eru þessi örnefni helst: Þinghóll ; Bæjarnes ; Steinslækur ; Sel eða Selbakkar ; Bringur , Hlíð að Skógarlækjum, en utan byggðar Börð , Fuglstapaþúfa að Flæðarhól, en þar skilur lönd eins og áður segir.

Dagsmörk:
Dagmál:         Leirubungur.
      Hádegi:         Hádegishnúk[ur].

Nón:                 Mófjall.
Miðaftann:         Hestur.

Náttmál:         Lás.
Miðnætti:        Kvíarbaula.
Ótta:                Framanvert Kjósarnes.
Rismál:        Selvík.  

 

 

 

 

 

 

Kjós

Kjós
Kjós

Nokkur örnefni og lýsing á staðháttum, að svo miklu leyti, sem ég þekki til.  Örnefnin tók ég saman með Ragnari Maríassyni í júlí 1978, en skrifa lýsinguna nú í okt. 1978.
Kjós og Leira eiga sameiginleg landamerki frá fjöru til fjalls.  Ef byrjað er að telja frá sjó skiptir Landáin fram að Vegalæk, lítilli lækjarsprænu, sem rennur í Landána.  Þaðan í Gasaklett, stakan klett ofarlega í Hvamminum.  Síðan áfram til fjalls upp yfir Nasann, framan til við Litladal, yfir Hellismúla og upp Geimrönd.  Að norðanverðu á Kjós sameiginleg landamerki með Hrafnfjarðareyri.  Verða nú rakin örnefni frá Vegalæk til sjávar og síðan áfram meðfram sjónum.

 

Rétt um það bil, sem sjór fellur hæst, er Þormóðsnaust.  Er það rétt framan til við Innrihlein , smáklettabrík, sem gengur niður að Landánni, þar sem hún rennur í sjóinn.  Þá taka við Tangar og utan við þá Selvík .  Ef dregin er lína úr Selvík yfir í Kjós, þá heitir einu nafni Kjósarnes það, sem er sjávarmegin við þá línu.  Ef haldið er út með sjónum, er skammt út að Ytrihlein.  Suðvesturströnd Kjósarness liggur að Leirufirði, en norðurströnd þess að Hrafnfirði og Kjós, smávík, sem bærinn stóð við.  Næsta kennileiti, sem ég þekki fyrir utan Ytrihlein er Breiðanes og Breiðaneseyri, dálítil eyri fram í sjóinn.  Þegar ég kom þangað s. l. sumar, var hávaxið gras fyrir ofan fjöruborðið á eyrinni, ég held að það sé melgresi.  Mun það óvíða vera til í Jökulfjörðum.  Næst við Breiðanes eru Skammteigar og yzt Nesendi.  Nokkru innar að norðanverðu er Hlað, enn innar Stekkur, þá Naust og Naustaleiti og Grund.  Er þá komið inn í botn á víkinni.  Í víkurbotninn rennur Bæjaráin.  Út með að norðanverðu eru Bakkar, Skeið (eða Skeiði), Hólar yzt við víkina og nokkru innar með Hrafnfirði Björnshryggur, en þar eru landamerki.

Uppi á Kjósarnesinu þekki ég ekki örnefni, nema efsta brúnin heitir Kjölur.  Upp af Selvíkinni er Selvíkurflói, og fleiri flóar eru þar í nágrenninu, sem hafa nöfn.
Nú skal aftur vikið fram að Vegalæk.  Svæðið þar upp frá Landánni heitir Hvammur.  Hef ég áður nefnt hann.  Neðarlega í Hvamminum er Bóndaholt.  Kjósarháls heitir leiðin úr Hvamminum yfir í Kjós.  Fyrir ofan Hvamminn er Lægra-Beitiholt og Hærra-Beitiholt ofar.  Nokkru ofar er smákvos, sem heitir Litlidalur, hann hef ég áður nefnt, síðan Hellismúli og enn ofar Geimur.  Hann aðskilur Leirufjall og Kjósarnúp.  Niður undan Geimnum er svæði, sem heitir Skógar; þar er slægjuland, en enginn skógur.  Upp af bænum er Kjósarnúpur, sem ég áður nefndi.  Rétt fyrir neðan brún á honum er dæld, sem heitir Skál.  Beinateigur held ég, að sé niður undan Skálinni.  Hólamýri er ofan og heiman við Hóla.  Í túninu er Torfahóll og Frónahóll.  Kriki heitir fremst í túninu í átt að Kjósarhálsi.
Kjós var talin dágóð bújörð, túnið að vísu lítið og þar að auki bæði þýft og grýtt, en engjaland nokkuð gott og sauðfjárbeit góð á Nesinu, einkum að haustinu.  Hross voru þar létt á fóðrum.

                                                Reykjavík, 26. október 1978,
                                                Dagbjartur Majasson