Loading...

Staðarkirkja í Grunnavík

Staðarkirkja í Grunnavík



Staðarkirkja Grunnavík



Byggð 1891



Staðarkirkja Grunnavík
Staðarkirkja Grunnavík
 

Staðarkirkju í Grunnavík er fyrst getið um 1200. Í Wilchinsmáldögum 1397 er María Guðsmóðir nafndýrlingur hennar. Staðarkirkja er því Maríukirkja helguð henni, Mikael höfuðengli,Jóhannesi skírara og Ólafi Helga Noregskonungi,Þorláki helga og Maríu Magdalenu.

 

 

Í Staðarkirkju
Í Staðarkirkju

Kirkjan mun til forna hafa staðið frammi í Brekkum undir Seljafjalli,þar heitir Fornibær og sjást þar ennþá vel  grónar rústir. Síðan hefur hún færst neðar í Víkina. Forveri þessarar kirkju sem nú stendur,sem var aflögð 1892,var frammi á Kirkjuflöt og kirkjugarður aflagður 1893-94. Hann er nú merktur með krossi.


Þessi kirkja er byggð 1891 í tíð sr. Péturs Maack sóknarprests. Úttekin af kirkjusmiðnum Guðmundi Árnasyni 7.janúar 1892,þá er hún fullgerð en ólistuð utan og ómáluð. Því verki lauk Erlendur Kristjánsson málari og trésmiður á Ísafirði 1895. Í vísitasíu sr. Hallgríms Sveinssonar biskups 1896 segir svo: „ að kirkjan sé byggð 1892 vestast og neðst í túninu og nýr kirkjugarður upptekinn skammt frá.“


Kirkjan hefur átt marga góða gripi í gegnum aldir. Maríumynd og krossmark sendi prófasturinn sr. Þorvaldur Jónsson vini sínum Sigurði Viggóssyni forngripaverði í Reykjavík með „Thyru“ 1889. Þessir dýrgripir er á Þjóðminjasafni Íslands. Predikunarstóllinn er forn og merkisgripur,gefinn af sr. Halldóri Jónssyni presti á Stað 1678-1710 og sóknarbörnum. Hann er sexstrendur með máluðum myndum af fjallræðunni og Guðspjallamönnunum á hliðum,en mynd af gefandanum  í fullum messuskrúða sr. Halldóri,er á hurð stólsins. Tvær gamlar myndir af kvöldmáltíðinni eru í kirkjunni,önnur olíuborin,gefin af sr. Kjartani Kjartanssyni sóknapresti,hin er eldri og hafa verið hafðar sem altaristöflur.


Kirkjuklukkan var keypt „ný koparklukka“ með ártalinu 1892, Gamall ljósahjálmur er í kirkjunni og tveir koparstjakar á altarinu. Grænn hökull með ártalinu 1674 er notaður á hátíðum. Altaristaflan er máluð af þýskum málara fyrir prestfrú Guðrúnu Jónsdóttur 1926,gjöf frá henni. Orgel kom í kirkjuna 1928 sennilega úr Ísafjarðarkirkju,en þó óvíst,ennþá er leikið á það við messur. Ofn kom í kirkjuna um svipað leyti.


Á safnaðarfundi 28. Júlí 1928 innleiddi prófasturinn sr. Sigurgeir Sigurðsson umræður með vel völdum orðum og þakklætisviðurkenningu til safnaðarins fyrir áhuga hans á að auðga kirkjuna með munum t.d. með mjög fagurri altaristöflu og góðu hljóðfæri sem hlyti að verða til þess að auðga og efla kirkjurækni og kristindóms áhuga og hvatti til þess að stíga sporið til fulls og endurbæta og stækka kirkjuna. Þá er það 1932 sem kirkjan er endurbætt og byggt við hana forkirkja og turn með klukknaporti. Smíðar annaðist Þórður Guðmundsson trésmiður á Ísafirði ásamt sóknarpresti sr. Jónmundi Halldórssyni og sóknarnefnd. Máluð af Kristjáni Friðbjörnssyni málara á Ísafirði,ættaður úr Grunnavík. Stjörnum prýdd hvelfingin og vandað vel til verks,enda óbreytt til ársins 2000.


Í Staðarkirkju
Í Staðarkirkju

Í janúar 1933 var viðbyggingin vígð af biskupi Íslands hr. Jóni Helgasyni að viðstöddum prófasti sr. Sigurði Sigurgeirssyni,sóknarpresti sr. Jónmundi Halldórssyni og sr. Halldóri Kolbeins. Kirkjan var máluð utan 1973 af sonum Sólveigar Pálsdóttur og Friðbjarnar Helgasonar í minningu hans. Hann var forsöngvari og meðhjálpari í Staðarkirkju
í mörg ár. Krossinn hefur þurft að endurnýja.


Í ofsaveðri 1997 fauk kirkjuhurðin upp og gluggar spenntust upp. Furðu litlar skemmdir urðu þó og gekk vel að gera við muni og skipt var um glugga og tvöfaldað gler. Viðgerðir hefur Ingi Jóhannesson séð um og smiðirnir Óskar Kárason og Rúnar Eyjólfsson á Ísafirði. Árið 1998 var kirkjan máluð að utan af börnum Elísu Einarsdóttur og Guðmundar Pálssonar frá Oddsflöt í minningu þeirra. Árið 2001 var kirkjan máluð hátt og lágt að innan. Altaristaflan hreinsuð,ramminn gylltur á ný. Predikunarstóllinn var málaður og myndirnar hreinsaðar upp. Verkið önnuðust málarameistararnir Helgi Grétar Kristinsson,Páll H. Guðmundsson,Sigurður Karlsson og Halldór Páll Kr. Eydal málari. Reynt var að hafa málninguna,sem hún var í upphafi og tókst mjög vel. Styrki til endurbóta veittu Bolungarvíkurkaupstaður,Byggðastofnun,Héraðssjóður kirkna,Húsfriðunarnefnd,Jöfnunarsjóður sókna og Málningarverksmiðjan Harpa hf. Eru þessum aðilum færðar hugheilar
þakkir fyrir.

Í Staðarkirkju
Í Staðarkirkju

Prestakallið var lagt undir Hólasókn í Bolungarvík 1945 og sr. Þorbergur Kristjánsson þjónaði söfnuðinum þar til byggð lagðist af í Grunnavíkurhreppi 1962. Eftir það hefur kirkjunni verið þjónað á hátíðarstundum af Hólasóknarprestum,sr. Gunnari Björnssyni,sr. Jóni  Ragnarssyni,sr. Sigurði Ægissyni og sr. Agnesi M. Sigurðardóttur núverandi biskup. Sr. Jakob Hjálmarsson  Dómkirkjuprestur og fyrrverandi prestur á Ísafirði,hefur jafnframt messað á Stað í Grunnavík.

 

Tekið saman fyrir Staðarkirkju í Grunnavík


17. júlí 2005  Steinunn  María Guðmundsdóttir