Loading...

Lög fyrir Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps 24. maí 2019

Lög fyrir Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps

 

  1. gr.

Félagið heitir Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
 

  1. gr.

Félagsmenn geta þeir orðið, sem eiga réttindi yfir fasteignum í fyrrum Sléttu- og Grunnavíkurhreppi, það er jörðum, einstökum lóðum og húsum. 

  1. gr.

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna varðandi réttindi þeirra í   skipulagsmálum, umgengnismálum og hvers konar nýtingu svæðis bæði til sjós og lands í ofangreindum hreppum.
 

  1. gr.

Félagsfundur er haldinn þegar stjórn ákveður að kalla þarf félagsmenn saman milli aðalfunda eða komi ósk um félagsfund frá a.m.k. 10 manns. Stjórn ákveður fundarstað, sem ekki er bundinn við heimili félagsins. Félagsfund skal boða með a.m.k. 14 daga fyrirvara með rafpósti, bréfi, SMS sendingu eða öðrum þeim aðferðum sem sannanlega komast til skila til viðkomandi félagsmanns á tilsettum tíma.

Félagsfundur er lögmætur, ef kvatt er til hans í samræmi við ákvæði laga þessara og fund sækja 10 félagsmenn hið fæsta og þar af meirihluti stjórnar. Nú verður fundur ólögmætur vegna annmarka um framangreind atriði, og skal þá kvatt til nýs fundar með 14 daga fyrirvara. Skal þess getið í fundarboði, að fundur þessi verði haldinn í stað fyrri fundar, er eigi varð lögmætur. Er hinn síðari fundur þá lögmætur til ályktana um þau mál, er ræða átti á fyrri fundi, ef hann sækja minnst 10 félagsmenn og þar af meirihluti stjórnar.

  1. gr.

Aðalfundur er æðsta vald um málefni félagsins. Aðalfund skal boða með saman hætti og félagsfund.

 

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok maí mánaðar ár hvert og skal dagskrá vera þessi:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar.
3. Lagabreytingar
4. Stjórnarkjör.
5. Kjör tveggja skoðunarmanna til 2ja ára í senn og tveggja til vara.
6. Tekin ákvörðun um árgjald til félagsins.
7. Önnur mál.

 

  1. gr.

Aðalfundur er lögmætur séu 15 félagsmenn mættir og þar af meirihluti stjórnar. Verði aðalfundur ólægmætur vegna ónógrar þátttöku skal boða nýjan fund með 14 daga fyrirvara og er hann lögmætur óháð mætingu. Nú hefur félagsstjórn eigi kvatt til aðalfundar innan 14 daga frá því að krafa barst og geta félagsmenn þá sjálfir annast kvaðningu.

  1. gr.

Á fundum félagsins skal kjörinn fundarstjóri, og kveður hann til fundarritara. 

Fundarstjóri kannar í fundarbyrjun hvort fundarboð og fundarsókn sé lögmæt og lýsir hvort svo sé.

Fundarstjóri ákveður á hvern hátt atkvæðagreiðsla og önnur málsmeðferð fer fram. Hver einstakur fundarmanna getur krafist skriflegrar atkvæðagreiðslu um málefni.


  1. gr.

Í öllum málum hefur hver félagsmaður eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti 
úrslitum, nema um lagabreytingar, sbr. 14. grein. 

  1. gr.

Eigi er hægt að skuldbinda félagsmann til þess að leggja fram fé eða annað í félagsþarfir umfram árgjald hans.

     10.gr.

Félagsmaður er ábyrgur fyrir að réttar upplýsingar séu aðgengilegar um heimilisfang, netfang og símanúmer til að fá tilkynningar frá félaginu.

  1. gr.

Fundargerðir skal rita í gerðabók. Fundargerðir skal að minnst 13 dögum liðnum frá fundi birta á heimasíðu félagsins. Hafi ekki borist athugasemdir 14 dögum frá fyrsta birtingadegi skoðast þær samþykktar og síðan undirritaðar af fundarstjóra og fundarritara.

  1. gr.

Félagsstjórn skal skipuð fimm félögum og tveimur til vara. Stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Kjósa skal formann og einn stjórnarmann á ári sem endar á oddatölu og þrjá stjórnarmenn, þ.e. varaformann og tvo aðra stjórnarmenn, á ári sem endar á jafnri tölu. Kjósa skal einn varamann á hverju ári. Stjórn skiptir með sér verkum.

Ef stjórnarmaður lætur af störfum skal það stjórnarsæti fara til þess varamanns sem kosinn var á sama aðalfundi og viðkomandi stjórnarmaður. Ef engir varamenn eru, skal stjórnin sjálf í sameiningu velja stjórnarmann. Stjórnarmaður valinn með þessum hætti skal sitja í stjórn það sem eftir lifir kjörtímabils þess stjórnarmanns sem lét af störfum.

Leitast skal við að stjórnarmenn séu frá mismunandi byggðasvæðum Sléttu- og Grunnavíkurhrepps.

Stjórnin ræður fundarstað sínum.

Stjórnin ræður félagsmálum milli funda og skuldbindur félagið fyrir þess hönd.

Formaður kveður með hæfilegum fyrirvara til stjórnarfundar, er hann telur þess þörf, svo og eftir kröfu eins stjórnarmanns. Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnar er viðstödd.

Ákvæði til bráðabirgða:

Á aðalfundi 2021 skal kjósa formann og stjórnarmann til tveggja ára auk varamanns. Varaformaður, tveir stjórnarmenn og varamaður skulu kosnir til eins árs.

  1. gr.

Stjórnin skal halda skrá um félaga.

  1. gr.

Lögum þessum verður því aðeins breytt að 2/3 fundarmanna gjaldi breytingunni jákvæði

  1. gr.

Ákvörðun um slit félagsins verður einungis tekin á aðalfundi félagsins og þarf samþykki ⅔ fundarmanna. Eignir félagsins við slit þess skulu renna til bygginga- og viðhaldssjóða átthagafélaga í Sléttu- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu með það að markmiði að viðhalda húsum, kirkjum og kirkjugörðum i þeirra eigu eða umsjá.

 

Samþykkt á aðalfundi 24. maí 2019.