Fréttir úr vinnuferð í prestbústaðnum í Aðalvík
Átta manna hópur vinnumanna sigldi með Bjarnarnesinu í Aðalvík fimmtudagskvöldið 21. júní. Hópurinn fór fyrst í Þverdal og fékk sér að snæða þar. Þar gistu þau Smári, Guðmunda, Andrea, Henry og Jóna, en Ingvi hélt áfram inn að Stað með kost og farangur. Þar voru fyrir þeir Stefán og Sindri sem höfðu kíkt við á Görðum áður en þeir gengu að Stað. Gerð var stutt vettfangskönnun á aðstæðum, en búið var að opna húsið og taka hlera frá gluggum áður. Á föstudegi bættust við í hópinn Inga smiður, Gunnar og Hilmar. Fyrir í Aðalvík var Jón Heimir, sem hafði undirbúið húsið og var hann fram á laugardag. Á sunnudegi yfirgáfu Ingvi, Smári, Guðmunda, Andrea, Jóna og Henrý víkina. En Jónína og Gylfi komu í þeirra stað.
Á hverjum morgni fór fólkið frá Þverdal yfir að Stað og þær Andrea og Jóna framreiddu morgunverð fyrir hópinn. Þær sáu einnig um kaffi, hádegismat og kvöldverð.
Hópurinn skipti með sér verkum. Hilmar málaði, Guðmunda og Sindri unnu í kirkjugarðinum, Andrea og Jóna mönnuðu eldhúsið og restin vann í snyrtingunni.
Prestbústaðurinn
Hópurinn vann í því að gera breytingar á snyrtiaðstöðunni í prestbústaðnum. Ákveðið hafði verið að taka „bláa herbergið“ undir snyrtiaðstöðu. Var byrjað á því að rífa upp gólfið í herberginu og tekið til við að jafna burðarbita til að minnka halla sem var á gólfinu, því næst var komið fyrir lögnum fyrir affall og skólp. Þá var nýtt gólf lagt. Var þetta gott dagsverk hjá hópnum. Daginn eftir voru lagðar vatnslagnir í herbergið, klósett og handlaug flutt úr bíslagi á sinn stað í nýju snyrtingunni. Klósettið var tengt við rotþró sem sett var niður síðasta sumar. Því næst var þiljuðum milliveggjum komið upp. Herbergið er því þrískipt, gengið er úr eldhúsi í lítinn gang og úr honum inn í snyrtingu eða sturtuaðstöðu. Gashitari var settur upp fyrir vatnið. Að auki var vatnslögnin sem fæðir húsið færð ofar í hlíðina fyrir ofan til að fá meiri þrýsting á vatnið. Gasinntak fyrir húsið var fært inn fyrir bíslagið.
Þegar búið var að tæma gamla bíslagið var það nýtt sem geymsla og þangað færðir bensínbrúsar, gluggahlerar og fleira dótt sem geymt var í gömlu skrifstofu prestsins.
Næsta sumar er stefnt að rífa bíslagið, hlaða undir nýtt og reisa nýtt bíslag.
Kirkjan
Hilmar vann í gluggum kirkjunnar. Nýir gluggar voru málaðir rauðir og hreinsaðir. Farið var yfir kirkjunna innan og utan og snurfussað við það sem betur mátti fara. Einnig reyndust vera komnir ryðblettir á þak kirkjunnar og var það pússað upp og varið.
Kirkjugarðurinn
Guðmunda og Sindri unnu hörðum höndum við að slá kirkjugarðinn. Mikil sina er í honum en hann hafði ekki verið sleginn fyrr en í fyrra. Augljóst er að slá þarf garðinn 2-3 sinnum yfir sumarið og er fólk sem dvelur í Aðalvík hvatt til að eyða dagsparti eða degi í kirkjugarðinum og slá hluta af honum - margar hendur vinna létt verk.
Næsta sumar verður vonandi komið sáluhlið á garðinn, en það gamla er löngu horfið.