Ræða formanns Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík

Ræða Sigríðar Helgu Sigurðardóttur, formanns Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík, flutt í messuferð að Stað í Aðalvík, laugardaginn 17.júlí 2010.

Kæru kirkjugestir, Sigríður Helga Sigurðardóttir heiti ég og er formaður Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík, ég er gift Guðmundi Vernharðsyni og eigum við fjögur börn. Ég er dóttir hjónanna Sigurðar I Jónssonar og Dýrfinnu Sigurjónsdóttir. Ég er ein af sjö börnum þeirra og er ég næst yngst. Pabbi minn Sigurður er fæddur og uppalinn hér á Sæbóli og Læk. Afi minn hét Jón Sigfús Hermannsson og amma mín Elinóra Guðbjartsdóttir bændur á Sæbóli. Síðar fluttu þau fram á Læk og loks burt úr Aðalvík 1947 þegar pabbi minn var tvítugur. Í dag eru  63 ár síðan pabbi flutti héðan en hann er 83 ára. Jón afi minn var bóndi og útgerðamaður hér ásamt bróðir sínum Guðmundi. Jón afi var  meðhjálpari hér við kirkjuna.

Hér leitaði fólk skjóls í lífsbaráttu sinni fyrr á öldum. Fólk hefur gegnum aldirnar samaeinast í kirkjunni og trúnni, og enn sameinumst við hér. Fólk hefur safnast saman hér í kirkjunni bæði á gleði og sorgar sundum. Í dag erum við hér saman komin til að fagna. Við  erum að fagna því að kirkjan stendur hér í mun betra ástandi en áður og fegurri en nokkru sinni fyrr.

Þau kyngimögnuðu áhrif sem fólk verður fyrir við að koma í Aðalvík. Hvaðan koma þessi áhrif, veltum því aðeins fyrir okkur, koma þau frá forfeðrum okkar, náttúrunni, fjöllunum, vatninu, skýjunum, himninum, sólarlaginu, kirkjunni, húsunum, sjónum, einangrunni, friðsældinni. Eru þessi kyngimögnuð áhrif vegna þess að hér sameinast fólk eða hvað er það sem sameinar okkur hér öðruvísi en á öðrum stöðum. Hér gefur fólk sér meiri tíma til að kynnast hvort öðru spyr um ættir og uppruna, fer í fjöruna og tekur á móti fólki og/eða kveður fólk. Hér skiptir fólk máli, hér eru tengsl mynduð eða endurnýjuð gömul tengsl, jafnvel kynnist þú líka nýju fólki.

Ég var svo lánsöm að fá að fara í Aðalvík sem barn og náði þannig að kynnast föðursystkinum mínum í sinni heimasveit. Þá upplifði ég strax þá sterku tilfinningu sem hingað liggur sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Það að hafa fengið að vera hér með Jóni afa er alveg sérstakt.

Árið 1975 var ég hér í Aðalvík að sumarlagi  ásamt pabba, Jóni afa og Hermanni föðurbróðir mínum og fleira fólki. Þá voru pabbi og Hermann að gera við kirkjuturninn í þessari kirkju ásamt Hjálmari Gíslasyni. Margrét Guðmundsdóttir í Þverdal kona Hjálmars eldaði ofan í vinnufólkið. Svo þegar þurfti að klára smíðar og þeim seinkaði í mat þá var Hjálmar sendur af stað í Þverdal til að láta Möggu sína vita að vinnumönnunum seinkaði  og skilaboðin komu í vísuformi:

Þeir báðu mig að biðja þig
Að bíða með að hátta
Og segjast ætla að melda sig
Í matinn klukkan átta.

Já kæru kirkjugestir nú erum við saman komin hér í kirkjunni á Stað í Aðalvík, sem hefur verið lagfærð að miklum myndar brag. Og enn sameinar kirkjan okkur mig og þig eins og forfeður okkar sem háðu sína lífsbaráttu hér í sveitinni. Nú verður það í enn ríkarara mæli kynslóðir sem ekki eru fæddar og uppaldar hér sem rækta þennan stað og viðhalda þeirri minningu sem hér er.

Ég hvet ykkur sem hér eruð til að halda áfram að koma hér og efla tengslin við staðinn, og njóta hinna kyngimögnuðu áhrifa sem hér er að finna.

Guð gefi okkur öllum góðan dag.

Sigríður Helga Sigurðardóttir
Messa í Staðarkirkju í Aðalvík 17. júlí 2010