Skýrsla stjórnar Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík fyrir árið 2018

flutt á aðalfundi 21. janúar 2018

Ágætu fundargestir

Skýrsla stjórnar nær frá síðasta aðalfundi, sem haldinn var 15. janúar 2017. Á aðalfundinum urðu ekki breytingar á stjórn. Sá sem hér stendur var endurkjörinn formaður, Jónína Kristinsdóttir var endurkjörin gjaldkeri, Unnar Hermannsson var endurkjörinn ritari. Meðstjórnendur voru jafnframt endurkjörin, þau Bjargey Gísladóttir, Stefán Betúelsson og Íris Kristjánsdóttir.

Starfsemi félagsins var með hefðbundnum hætti. Haldnir voru 7 stjórnarfundir á starfsárinu, auk þess sem skipst var á tölvupóstum og skilaboðum á Facebook.

Fyrsta verk stjórnar var að standa að þorrablótinu, 28. janúar. Þorrablótið var að þessu sinni haldið í veislusalnum Turninum í Firði í Hafnarfirði og sá Múlakaffi um þorramatinn. Baldur Trausti Hreinsson var veislustjóri og Matthildur Guðmundsdóttir var ræðumaður. Jóhanna Guðrún Sigurðardóttir frá Látrum og Sunna Karen Einarsdóttir frá Sæborg voru með tónlistaratriði. Kristín Völundardóttir og Þorleifur Finnsson fluttu minni karla og kvenna.  Þorrablótsgestir rúmuðust vel í salnum og velflestir ánægðir með sal, veitingar, skemmtiatriði og diskótek. Þó bar nokkurn skugga á að í lok þorrablótsins bilaði lyftan og einn gesta slasaðist við fall í stiganum á leiðinni niður.

Vorið var svo nýtt til að undirbúa messukaffi og vinnuferð.

Messukaffið var haldið í Áskirkju 14. maí. Var ágætis mæting og var ræðumaður Einar K. Guðfinnsson fyrrum forseti Alþingis. Var að lokinni messu boðið upp á kaffi og kökur og kann ég kaffinefnd bestu þakkir fyrir góðmetið sem borið var fram.

Vinnuferð í prestbústaðinn á Stað í Aðalvík var farin í lok júní. Að þessu sinni var áherslan á að mála eldhúsið, en það hafði verið hreinsað að innan og skipt um gólf sumarið áður. Litavalið kom vel út og hvet ég alla sem eiga kost á að skoða það við tækifæri. Sér í lagi fjólubláa litinn á búrinu sem heldur flugunni frá.

Síðustu vikur hafa svo farið í undirbúning aðalfundar og þorrablóts. Að þessu sinni munu því miður þorrablótið fyrir vestan og hér fyrir sunnan lenda á sama degi, 17. febrúar, og fyrir þá sem sótt hafa bæði þorrablótin verður erfitt val.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem komið hafa að starfi Átthagafélagsins síðasta árið, þeim sem sitja með mér í stjórn, bakstursfólki fyrir messukaffi, þeim sem hafa tekið þátt í vinnuferðum, öðrum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum í þágu félagsins.

Ég vil jafnframt hvetja aðra sem áhuga hafa á að leggja eitthvað af mörkum að hafa samband við stjórn og bjóða fram krafta sína. Á komandi starfsári verða hefðbundnir liðir, messukaffi, vinnuferð og undirbúningur þorrablóts og e.t.v. eitthvað fleira ef vilji og mannskapur er til.

Takk fyrir.
Ingvi Stígsson