Aðalfundur Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík 13. janúar 2013

Frá aðalfundi 2013
Frá aðalfundi 2013
1 af 3

Aðalfundur Átthagafélags Sléttuhrepps

Haldinn sunnudaginn 13. janúar 2013 í fundarsal Samiðnar, Borgartúni 30.

Smári Sveinsson setti fundinn kl. 15:05 í forföllum formanns, Sigríðar Helgu Sigurðardóttur.
Smári stakk upp á Guðmundi Vernharðssyni sem fundarstjóra.
Það var samþykkt.
Fundarstjóri stakk upp á Ingva Stígssyni sem ritara aðalfundar.
Það var samþykkt.

1. Skýrsla stjórnar

Smári flutti skýrslu stjórnar í forföllum Sigríðar formanns. Smári kynnti fyrst meðstjórnendur sína og fór því næst yfir störf stjórnar. Farið var yfir viðburði síðasta árs m.a. þorrablótið, árleg messa og vinnuferð í prestbústaðinn að Stað í Aðalvík. Í vinnurferð 2012 var snyrting færð úr bíslagi inn í húsið. Eitt herbergi var hólfað upp í sturtu og klósett. Þá var farið yfir verkefni í prestbústaðnum næsta sumar, en þar er m.a. gert ráð fyrir endurnýjun bíslags. Kynnt var fyrirhuguð spurningakeppni átthagafélaga á höfuðborgarsvæðinu. Greint var frá upptökum frá ferð Sigurðar Sverris Pálssonar og Jökuls til Aðalvíkur á 8. áratug síðustu aldar. Fluttar voru þakkir til kaffinefndar, byggingarnefndar og sjálfboðaliða í vinnuferðum félagsins.
Fundarstjóri óskaði eftir spurningum eða athugasemdum, sem voru engar.


2. Endurskoðaðir reikningar félagsins

Jónína kynnti ársreikning félagsins, þ.e. rekstrarreikning og efnahagsreikning. Heildartekjur voru 1.506.039 kr. og heildarkostnaður var 1.407.011 kr., afgangur 99.028 kr. Heildareignir félagsins eru 3.879.141 kr.
Einnig var farið yfir reikninga kirkjugarðssjóðs. Sjóðurinn hafði tekjur upp á 30.916 kr. og útgjöld upp á 40.954 kr. Heildareignir 395.568 kr.
Jónína sagði frá að viðhaldssjóður prestbústaðarins eigi 251.930 kr. í eignum.
Fundarstjóri óskaði eftir spurningum eða athugasemdum, sem voru engar.
 

Skýrsla stjórnar og reikningar félagsins samþykkt með lófataki.

3. Kosning formanns

Sigríður Helga Sigurðardóttir var endurkjörin formaður án mótframboðs.


4. Kosning stjórnar

Fyrri stjórn gaf kost á sér áfram.
Gjaldkeri: Jónína Kristinsdóttir
Ritari: Ingvi Stígsson
Meðstjórnendur: Bjargey Gísladóttir, Smári Sveinsson og Þorsteinn J. Vilhjálmsson
Stjórn var endurkjörin án mótframboðs.
5. Kosning skoðunarmanna
Ólöf Björnsdóttir og Kristín Linda Sveinsdóttir voru endurkjörnar án mótframboðs.

6. Ákvörðun tekin um árgjald félagsins
Jónína gjaldkeri mælti fyrir óbreyttu árgjaldi.
Það var samþykkt.

7. Önnur mál
Þórunn Vernharðsdóttir sagði frá flugferð þar sem flogið var yfir Aðalvík og Fljótavík og þar hefði ekkert sést að.

 
Að loknum aðalfundarstörfum var gert kafflhlé.

Breytingar á lagaumhverfi friðlýstra svæða
Að loknu kaffihléi, kl. 15:50, hélt Guðríður Þorvarðardóttir sérfræðingur frá Umhverfisráðuneytinu erindi um hugsanlegar breytingar á lagaumhverfi friðlýstra svæða. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um náttúruvernd, sem þó á eftir að mæla fyrir.

Nýtt frumvarp liggur fyrir Alþingi. Unnið upp úr skýrslu, Náttúruvernd, hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Þar eru m.a. lagðar til breytingar á friðlýsingarflokkum. Flokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakana eru til viðmiðunar. Nýir flokkar byggðir á þeim. Hugsanlega þarf að endurskoða friðlýsingarákvæði svæða vegna þessa. Hús á hornströndum eru verðmætt menningarverðmæti.

Jón Björnsson landvörður hefur viðrað þá hugmynd að Hornstrandafriðland yrði flokkað í flokk Ib - óbyggð víðerni skv. 46. gr. en er í dag í flokki IV - friðlönd skv. 49. gr. frumvarps til náttúruverndar.

Flokkurinn óbyggð víðerni (Ib): Náttúran lítt eða ekki mótuð af manninum. Ekki varanleg eða umtalsverð búseta. Verndun miðar að varðveita náttúrlegt ástand þeirra.

Flokkurinn friðlönd (IV): Til verndar vistgerða og búsvæða. Fyrst og fremst verndun lífríkis. Getur kallað á reglubundna íhlutun, t.d. til að eyða minkum

Að loknu erindi Guðríðar var fundargestum boðið að varpa fram spurningum.

Hagerúp Isaksen spurði út í flokkunina, af hverju sé litið til flokks Ib. Guðrún sagði að friðlandið væri í meira jafnvægi en annars staðar á landinu. Ekki breyting á menningarminjum.

Spurt var hvort væri meiri hefting. Flokkun Ib kallar á strangari verndun og meiri ábyrgð stofnana. Aðgerðir til að grípa inn í ef hætta steðjar að.

Þórunn Vernharðsdóttir spurði út í aðgerðir gagnvart tófunni og eyðileggingu á fuglalífi. Guðrún svarað að ekkert í skilmálum friðlýsingar Hornstrandafriðlands beinlínis bannaði veiðar á tófu. Bannið væri að veiða tófu skv. lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerð byggða á þeim. Taka þyrfti upp viðræður við umhverfisráðuneytið ef vilji væri til að aflétta vernd á ref.

Finnbjörn A. Hermannsson spurði hvort þrengt yrði að notkun landeigenda á sínu landi, t.d. varðandi byggingar. Guðrún svaraði að aðalskipulag ræður hvað má byggja mikið.

Matthildur Guðmundsdóttir spurði um breytingar á lífríkinu, lækirnir eru að vaxa saman og móar breytist í mýrlendi, hvernig á að vernda mófuglinn?  Hvað með minkinn? Ef ekki er tekið á því í aðalskipulagi þarf að taka á því verndaráætlun fyrir svæðið. Unnið að verndaráætlun um Hornstrandafriðland af landverði, Jóni Björnssyni. Niðurstaða verndaráætlunar gæti orðið sú að endurskoða þyrfti friðlýsingarskilmála.

Jónína Kristinsdóttir benti á að endurskoðun laga gæfi tækifæri á að koma skoðunum og ábendingum á framfæri.

Guðríði var þakkað greinagott erindi með lófaklappi.
 
Fundargestir voru 24.
Fundi slitið kl.16:45.