Aðalfundur Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík 15. janúar 2012

Fundargestir á aðalfundi Átthagafélags Sléttuhrepps 2012.
Fundargestir á aðalfundi Átthagafélags Sléttuhrepps 2012.
1 af 16

Aðalfundur Átthagafélags Sléttuhrepps

Haldinn sunnudaginn 15. janúar 2012.

Brautarholti 4A, 2. hæð

Sigríður formaður setti fundinn kl. 16.10.

Sigríður stakk upp á Matthildi Guðmundsdóttir sem fundarstjóra. Samþykkt með lófataki.

Fundarstjóri stakk upp á Ingva Stígssyni sem fundarritara. Samþykkt með lófataki.

  1. Skýrsla stjórnar
    Sigríður Helga Sigurðardóttir formaður gerði grein fyrir störfum stjórnar síðasta árið og kynnti stjórnarmenn. Kaffinefnd, bygginganefnd og öðrum sem hafa lagt hönd á plóg í þágu félagsins þakkaði hún fyrir. Vinnuferð var farin í prestbústaðinn í Aðalvík í júní þar sem gengið var frá rotþró. Næstu verkefni eru að endurgera bíslag og koma upp baðherbergi með sturtu. Í sömu vinnuferð var unnið í kirkjugarðinum á Stað. Formlega var gengið frá kaupum á prestbústaðnum á Stað í Aðalvík. Búið er að þinglýsa kaupsamningi og gera lóðaleigusamning til 50 ára og eru átthagafélögin á Ísafirði og í Reykjavík eigendur að prestbústaðnum. Einnig greindi Sigríður frá því að stjórn ynni nú að varðveislu ljósmynda frá fyrri tímum úr Sléttuhreppi.

    Fundarstjóri stakk upp á því að umræða um skýrslu formanns verði tekin saman með umræðum um reikninga félagsins. Var ekki gerð athugasemd við það.
     
  2. Reikningar félagsins
    Jónína Kristinsdóttir gjaldkeri gerði grein fyrir helstu tekjum og gjöldum félagsins á árinu. Heildartekjur voru 1.449.164 kr. en heildarútgjöld voru 1.403.611 kr. Afgangur var því 45.553 kr.
    Heildareignir voru 4.063.113 kr. og engar skuldir.
    Jónína gerði einnig grein fyrir kirkjugarðssjóði.

    Fundarstjóri baðst afsökunar fyrir hönd stjórnar á því að ekki sæist vel á glærur sem varpað var á vegg.
    Fundarstjóri þakkaði fyrir skýrslugjöfina og gaf orðið laust. Enginn bað um orðið. 

    Fundarstjóri lagði þá skýrslurnar undir fundinn til samþykktar og voru þær samþykktar samhljóða.
     
  3. Kosning formanns
    Sigríður Helga Sigurðardóttir var endurkjörinn formaður án mótframboðs.
     
  4. Kosning gjaldkera, ritara og 3 meðstjórnenda
    Gjaldkeri: Jónína V. Kristinsdóttir. Kosin með lófaklappi.
    Ritari: Ingvi Stígsson. Kosinn með lófaklappi.
    Meðstjórnendur: Smári Sveinsson og Þorsteinn J. Vilhjálmsson gáfu kost á sér áfram en Brynjar Valdimarsson gaf ekki kost á sér.
    Fundarstjóri óskað eftir tilnefningum til meðstjórnenda. Jón Freyr stakk upp á Bjargeyju Gísladóttur sem þriðja meðstjórnanda.
    Meðstjórnendur voru kosnir með lófaklappi.
     
  5. Kosning 2 skoðunarmanna reikninga félagsins
    Ólöf Björnsdóttir og Kristín Linda Sveinsdóttir gáfu kost á sér áfram.
    Samþykktar með lófaklappi.
     
  6. Ákvörðun um árgjald félagsins.
    Jónína gjaldkeri mælti fyrir árgjaldi 2012 og stakk upp á að árgjaldið yrði óbreytt frá síðasta ári, þ.e. 2.500 kr.
    Samþykkt með lófaklappi.
     
  7. Önnur mál.
    1. Kirkjugarðurinn á Stað í Aðalvík
      Oddur Hermannsson gerði grein fyrir störfum kirkjugarðsnefndar Staðarkirkju. Búið er að setja upp áætlun fyrir þau verk sem þarf að vinna og mun sú vinna taka 2-4 ár. Í því felst meðal annars endurgerð sáluhliðs, en unnið er að útfærslu. Finna og lagfæra minningarmerki, það var unnið mikið verk í þeim efnum sumarið 2011 Leggja göngustíg úr náttúrugrjóti milli kirkju og sáluhliðs, langt komið sumarið 2011. Laga þarf torfvegg.
      Oddur sýndi myndir af mælingum á staðsetningu leiða í kirkjugarðinum, legstaðaskrá og myndir úr vinnuferð sumarið 2011. Lagði hann áherslu á að kirkjugarðinum verði viðhaldið jafnt og þétt en ekki með því að fara í viðhaldsátök á áratuga fresti.
    2. Önnur mál úr sal
      Þorvarður Jónsson bað um orðið. Sagði frá því að hann hefði farið í kirkjugarðinn 10 árum og reist við stein forföður sins. Fann leifar af trégrindverki sem hafði fallið út frá leiðinu.
      Þorsteinn J. Vilhjálmsson bað um orðið. Fór hann yfir myndasöfnun félagsins og sýndi gamlar upptökur frá Aðalvík. Hvatti hann félaga til að koma myndefni á framfæri til stjórnar. En Átthagafélagið mun borga fyrir að koma því á stafrænt form. Sagt frá gömlum myndum og upptökum.
      Sigríður Gunnarsdóttir gerði grein fyrir bréfi sínu til Ísafjarðarbæjar út af sorpmálum.
      Ólöf Björnsdóttir sagði frá myndum Hjálmars Bárðarsonar sem nú eru í eigu Þjóðminjasafnsins.
      Rannveig Guðmundsdóttir þakkaði öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg í starfsemi félagsins.
      Bjargey Gísladóttir sagði frá myndum sem hún á frá 1930-40.
      Þorvarður Jónsson og Sigrún Þorvarðardóttir sýndu myndband úr ferð sem þau og ættingjar þeirra fóru slóðir forfeðrana í Neðri-Miðvík og kirkjugarðinn að Stað.
      Ingvi Stígsson greindi frá því að Sorpnefnd Ísafjarðarbæjar legði til að sorpgjald yrði lagt á sumarhús í Hornstrandafriðlandi, kr. 14.700 kr. Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps væri að fylgjast með málinu.

Kl. 17.30 þakkaði Matthildur fundarstjóri fyrir góðan fund og bað stjórn að taka við fundarstjórn því sjálf þyrfti hún að yfirgefa fundinn.

Boðið var upp á kaffiveitingar

Jón Björnson, landvörður Hornstrandafriðlands fékk orðið eftir kaffipásu.

Fyrst fór Jón yfir búsetuþróun og nefndi m.a. að lítil nútímavæðing áður en svæðið fór í eyði þýddi að fornleifar væru betur varðveittar. Ferðamennska fór vaxandi upp úr 1970 en oft var gengið frjálslega eða illa um. M.a. vegna þess var svæðið friðlýst 1975. Á árinu 2010 var áætlað að 6.300 manns hefðu farið inn á svæðið, en árið 2000 voru ferðmenn 3.500.

Jón ræddi nokkuð flokkun friðlandsins, en skv. alþjóðlegum stöðlum myndi friðlandið flokkast sem óbyggðasvæði eða „wilderness“ og að aðeins Þjórsárver féllu í sama flokk eins og staða mála er í dag.

Að lokinni yfirferð sinni bauð Jón upp á spurningar frá fundarmönnum og tók fyrst upp umræðuna um sorpmál. Jón vill viðræður milli Umhverfisstofnunar, Ísafjarðarbæjar og Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps um tilhögun sorpmála. Tryggja þarf að gámar á bryggjum séu aðgengilegir þegar fólk kemur frá dvöl í friðlandinu.

Að lokinni kynningu Jóns var boðið upp á fyrirspurnnir.

Sigríður Gunnarsdóttir spurði hvernig þessu yrði háttað með ferðafólk og svaraði Jón því til að ganga yrði betur eftir því að það gengi vel um og tæki rusl með sér að lokinni dvöl.

Hörður Benediktsson tók undir vandræði með sorp og benti á að síðasta sumar hefðu verið skildir eftir 8 sorppokkar á Látrum sem enginn hafi hirt um að taka. Jón tók undir að það væri slæmt mál. Hann nefndi að í Höfn í Hornvík væri allt rusl tekið til baka. Pappi væri þó brenndur í kabyssu, en áldósir og plastflöskur pressaðar og farið með þær í endurvinnslu. Þar forðuðust menn umbúðir úr gleri.

Guðmundur Vernharðsson spurði um afstöðu til moltugerðar. Jón tók vel í það og nefndi að slíkt væri gert á Höfn.

Guðný Hermannsdóttir nefndi salernismál og að of oft kæmi fyrir að ferðamenn nýttu sér aðstöðu við hús í óleyfi, m.a. vatnssalerni húsa við lendinguna á Látrum. Jón svaraði að finna þyrfti lausn á málinu.

Þórunn Hermannsdóttir gagnrýndi að ekkert gengi að finna viðunandi lausnir í sorp- og salernismálum. Þetta væri búið að vera vandamál síðustu 10 ár. Jón tók undir að það væri ekki gott mál. Ekki væri hins vegar hægt staðsetja kamra nálægt sumarhúsum vegna flugu og lyktar.

Hagerup Ísaksen spurði hvernig yrði með þjónustu báta á sumri komanda. Jón greindi frá því að Borea Adventure á Ísafirði væri búið að kaupa Bjarnarnes ehf. af Sigurði Hjartarsyni og hyggðist vera með sömu þjónustu áfram. Reimar væri hins vegar að öllum líkindum hættur með farþegaþjónustu. Einnig greindi hann frá því að Ferðafélag Íslands væri búið að taka yfir reksturinn á Hornbjargsvita. 

Jón greindi einnig frá því að til stæði að opna Hornstrandastofu við Byggðasafn Vestfjarða í Neðstakaupstað á Ísafirði.



Að loknum umræðum um friðlandið þakkaði Sigríður formaður fundarmönnum fyrir góðan fund, hvatti þá til að skrá sig og sína í félagið og að mæta á þorrablótið 28. janúar næstkomandi.

Fundi var slitið kl. 18.30