Loading...

Þjóðsögur og sagnir úr Grunnavíkurhreppi

Dvergasteinn á Bolungarvíkurheiði

Dvergasteinn á Bolungarvíkurheiði
Dvergasteinn á Bolungarvíkurheiði

Bolungavíkurheiði liggur upp frá Bolungavík að Álfsstöðum í Hrafnsfirði og var fjölfarinn fjallvegur fyrr á öldum og sæmilega greiðfær. Skammt fyrir neðan heiðina Bolungavíkurmegin eru Vatnalautir, öldótt land með fjölmörgum smávötnum. Fyrir ofan þær eru tveir stórir steinar sem heita Dvergasteinar. Gamlir menn segja að til forna hafi dvergar búið þar.

Eitt sinn vildi svo til í Bolungavík að barn tók mikla sótt og einkennilega. Ekki var nokkur vegur að ná í lækni, fyrir hríð og veðurofsa. Faðir barnsins leitaði þá á náðir dverganna í Dvergasteinum. Gekk hann þangað í hríðarbylnum og bað dvergana að koma út og tala við sig. Ekkert fékk hann svarið en ákvað þó að doka við. Biðin varð ekki löng, fljótlega skaust dvergur út úr steininum. Með nokkrum eftirgangsmunum fékkst hann til að hjálpa bónda og fór með honum til Bolungavíkur.

Er dvergurinn hafði skoðað barnið og gefið því lyf og smyrsli, kvaddi hann og fékk gullpening og tvær flöskur af víni að launum. Barnið náði brátt bestu heilsu og urðu þeir kærir vinir upp frá því, bóndinn og dvergurinn, og áttu oft viðskipti. Smyrsl það sem dvergurinn skildi eftir var lengi varðveitt í Bolungavík og aðeins notað þegar mikið lá við. Þótti það öruggt við meiðslum og margvíslegum sjúkdómum.