Loading...

Þjóðsögur og sagnir úr Grunnavíkurhreppi

Að gefa Álku

Norðan undir Vébjarnarnúp er frálaus klettur er nefnist Álka, og var siður sjóróðramanna á árabátum fyrr á tíð að „gefa Álku“. Þegar þeir réru þar hjá köstuðu þeir einhverjum glaðningi í steininn,s.s. smásteinum,tóbakstuggu eða jafnvel peningum menn töldu víst stafa af því róðrarheill,eða með því gætu menn  aflað sér góðs gengis í sjóferðinni,siðurinn gæti verið leifar af ævafornri landvættatrú. Kletturinn lætur svo sem lítið yfir sér en margir sem til þekkja halda enn við þessum sið og „gefa Álku“ er þeir eiga leið þar hjá.

  

Álka

Undir Vébjarnarnúp                     Í vondum veðrum
rís sker úr sjó,                             rýkur sær á loft,
útvörður landsins                         og vindar skella
teygir koll sinn                            á haf og land.
úr sjávarlöðri.                             Ef Álka fær sitt
Vísar farendum veginn,                fá skip og menn
og gefur byr í segl                        laun erfiðisins.
þeim sem fórnir færa.           

Ása Ketilsdóttir

   







Huldufólk í Smiðjuvík

Úr Smiðjuvík
Úr Smiðjuvík

Um tíma bjuggu í Smiðjuvík hjónin Ingunn og Guðmundur. Eitt sinn að vorlagi er Guðmundur var í bjargi gekk Ingunn til kinda ásamt syni þeirra. Þegar þau eru komin upp í fjallið þar sem útsýni var gott sá Ingunn mann koma vestan að og rak hann fjárhóp en kona fylgdi honum á hesti að vaðinu á Drífandiá. Hundur Ingunnar ætlaði að rjúka í fé mannsins, hún afstýrði því en fylgdist með rekstrarfólkinu sem stefndi á klettaborg eina, svonefnda Rauðuborg. Átti þar að vera huldufólksbyggð.

Nóttina eftir dreymdi Ingunni mann sem þakkaði henni fyrir að stoppa hundinn af og sagðist vera orðinn nágranni hennar, í Rauðuborg. Kvaðst hann mundu launa greiðann síðar. Sonur hjónanna í Smiðjuvík fékk vont veður á heimleið frá róðrum fyrir jólin, en gat fylgt ljósi sem hann sá á hlið við sig í hríðarsortanum uns hann hann kannaðist við sig hjá Rauðuborg. Um jólin dreymdi húsfreyju aftur grannann í Rauðuborg og sagðist hann hafa látið piltinn njóta hennar; álfar vildu ætíð launa greiða.

Sækýr á Stað Grunnavík

Úr Staðarkirkju
Úr Staðarkirkju

Séra Halldór á Stað í Grunnavík komst að því að túnin þar voru bitin á nóttunni. Brá hann á það ráð að vaka til að sjá hverjir væru að verki. Um nóttina steig flokkur sægrárra kúa á land úr sjónum, leiddar af griðungi miklum. Presturinn gerði tilraun til að verja bithaga sína, en skorti afl gegn griðungnum. Þegar líkamsaflið brást leitaði hann til æðri máttarvalda og hét því að gefa Staðarkirkju dýrgrip ef hann öðlaðist aukinn kraft. Svo varð og prestur sigraði bola. Keypti prestur þá predikunarstól fyrir andvirði mörsins sem fékkst af skepnunni.

Sr. Halldór
Sr. Halldór

Stóllinn stendur enn í Staðarkirkju og er skreyttur myndum af guðspjallamönnunum og sr. Halldóri sjálfum

 

Björn í Bjarnarnesi

Bjarnarnes
Bjarnarnes

Geirmundur heljarskinn átti eitt útibú sitt á Ströndum,austan Horns. Ármaður hans,sá er bú það varðveitti,hét Björn. Tók bólstaðurinn nafn af honum og hét Bjarnarnes. Bjarnarnes var í seinni tíma,lítil jörð,en líklegt er að því hafi fylgt til forna Látravík og Almenningur á Hornbjargi,líkt og landamerki voru milli Horns og Látravíkur.


Munnmæli herma,að Björn hafi verið dæmdur sekur á Alþingi um  sauðatöku,nokkru eftir lát Geirmundar heljarskinns. Hafi Björn eignast búið,er Geirmundur lést og orðið uppgangsmaður,enda gengið fast á fé þeirra Hornstrendinga.


Sem skaðabætur fyrir sauðatökuna var land Björns dæmt almenningur,þ.e. almenningseign, og mun hafa náð yfir land Bjarnarness,Látravíkur og mestan part Hornsbjargs. Hélst það lengi síðan,að land þetta væri almenningur.  

Sviðinsstaðir

Frá Hrafnfjarðareyri,Sviðinsstaðir handan fjarðar
Frá Hrafnfjarðareyri,Sviðinsstaðir handan fjarðar

Hrafn nam Hrafnfjörð og bjó að Hrafnfjarðareyri. Hrafn féll fyrir Ingólfi Sviðin og fylgjurum hans. Segir sagan að með Hrafni hafi verið tveir menn,en fjórir með Ingólfi,er þeir áttust við. Kona Hrafns  var Sigurfljóð,sem getið er í Fósbræðrasögu. Sigurfljóð er jörðuð á Hrafnfjarðareyri,heitir þar Fljóðuhóll. Sviðinsstaðir,þar sem Ingólfur Sviðin  bjó,er þeir fóstbræður Þorgeir og Þormóður drápu, og sagt er frá í Fósbræðrasögu,eru í Hrafnfirði handan við Hrafnfjarðareyri í dalverpi nokkru utar en Álfstaðir voru. Við sjóin framundan er einstakur drangur,sem heitir Sviði. Hann er sléttur ofan og sér fyrir lítilli tóft uppi á drangnum.

Munnmæli herma að Ingólfur hafi átt sökótt mjög og haft virki á drangnum. Hefur hann því torsóttur verið. Líklegast er að Sigurfljóð húsfreyja hafi leynt með vist þeirra fóstbræðra og þeir gætt svo til,að fara að Ingólfi þegar hann var heima á bæ sínum.

Þrælavirki við Kollsá

Þrælavirkið
Þrælavirkið

Þrælavirki við Kollsá.


Kollur nam Kollsá. Kona hans var Hildur. Haugur hennar er á Seljafjalli,milli Staðardals og Höfðastrandardals. Kollur átti þræla marga. Heitir Þrælavirki innan við bæinn á Kollsá. Er það gamalt gerði  um 20 faðmar á hvorn veg eftir  mælingu sem gerð var 1936.

Munnmæli segja að Kollur hafi gefið þrælum sínum stykki þetta,og hafi þeir haft það til kornyrkju.

Maríuhorn- Maríualtari

Maríualtari-Maríuhorn
Maríualtari-Maríuhorn

Fremsti hnúkur Staðarfjalls heitir Maríuhorn. Í fyrndinni áttu að búa ung hjón í Hlössum,en það er hár sjávarbakki beint fyrir neðan hornið. Voru ungu hjónin iðin og sparsöm og komust fljótlega í álnir,en áttu engin börn. Hafði unga konan,sem var trúuð mjög,beðið til Guðs,en ekki fengið bænheyrslu. Dettur henni þá í hug að biðja Maríu mey.  En þar sem hún hafði heyrt,að því hærra,sem hún stæði,þegar hún segði bænir sínar,því fljótar kæmust þær til himna,klifrar hún upp á fjallstindinn. Hleður hún þar altari og hirðir ekki um,þó að hendur hennar verði blóðrisa,spennir svo blóðugar greipar sínar og biður Maríu Jesú móður að bænheyra sig.

Kemst María mey við af trú og fyrirhöfn konunnar,stígur niður úr hásæti sínu,laust altarið með gullsprota sínum og er það síðan heilagur staður. Og hver sá,sem biðst þar fyrir í sannri trú,fær bænheyrslu. Heitir það síðan Maríuhorn og Maríualtari. En unga konan varð þunguð og fæddi dóttur,sem María var skírð og varð hún mæt kona og formóðir margra merkra Grunnvíkinga.

Aðrar sagnir herma,að á Maríuhorni hafi mönnum verið blótað áður en kristni var lögtekin.  

Miðdalur

Miðdalur Staðarheiði
Miðdalur Staðarheiði

Á Staðarheiði milli Grunnavíkur og Sveitarinnar eru þrír smádalir,Litlidalur,Miðdalur og Hrafnabjargadalur.  Í Miðdal, er tjörn, sem sú sögn er um, að ungur maður hafi drukknað þar niður um ís og hafi unnustu hans fallið það svo illa, að hún lagði svo á að þar skyldi ekki framar sólin skína. Segir sagan að það þyki hafa orðið áhrínsorð, því aðeins um hæsta sólargang skíni sólin á hluta vatnsins. Ofan við vatnið er allbratt hamrabelti,í klettum þessum á að búa mikið af huldufólki. 

Gýgjarsporshamar

Gýgjarsporshamar
Gýgjarsporshamar

Á vestaverðri Skorarheiði er svonefnt Skorarvatn sem bændur á aðliggjandi jörðum veiddu í. Vestan við vatnið rís klettahamar sem heitir Gýgjarsporshamar, en í honum átti að vera stærsta álfabyggð í Hrafnsfirði. Taldi eldra fólk álfana hafa valið sér búsetu þar til að geta jafnt dregið að sér af Ströndum og úr Djúpi, auk þess sem vatnið gaf. Ein saga segir að stúlka nokkur hafi villst í vondu veðri á heiðinni, sest niður og búist við dauða sínum, en þá skyndilega fundist hún stödd í góðri hvílu og að sér væri hlynnt. Þegar upp birti rankaði stúlkan við sér hjá hamrinum og þökkuðu menn álfunum að hún varð ekki úti.


Í hamrinum var einnig kaupstaður álfanna og var líkt hjá þeim og mönnum, að flytja þurfti ýmsar nauðsynjar að. Var m.a. haft á orði, að þegar gufuskip Ásgeirsverslunar á Ísafirði kom með vörur frá Kaupmannahöfn hafi fylgst með því yfir hafið annað skip og skyldi þar vera skip álfanna í Gýgjarsporshamri. Sagði skipstjóri Ásgeirs, danskur maður, frá þessu og sagði að er hann hefði haldið inn Djúp og til Skutulsfjarðar, þá hafi hann séð hitt skipið hverfa inn Jökulfjörðu.

Náttúrusteinamóðirin í Þrengslavatni

Þrengslavatn
Þrengslavatn

Í skarðinu Þrengsli upp af Barðsvík er Þrengslavatn með klettahólma á miðju vatninu. Þarna í vatninu býr náttúrusteinamóðirin. Hún kemur upp úr vatninu hverja Jónsmessunótt og hristir af sér hina göfugustu steina - gimsteina, huliðshjálmssteina og óskasteina.


Tveir menn eru sagðir hafa reynt að ná þessum steinum en báðir misstu þeir vitið við þær tilraunir.

Dvergasteinn á Bolungarvíkurheiði

Dvergasteinn á Bolungarvíkurheiði
Dvergasteinn á Bolungarvíkurheiði

Bolungavíkurheiði liggur upp frá Bolungavík að Álfsstöðum í Hrafnsfirði og var fjölfarinn fjallvegur fyrr á öldum og sæmilega greiðfær. Skammt fyrir neðan heiðina Bolungavíkurmegin eru Vatnalautir, öldótt land með fjölmörgum smávötnum. Fyrir ofan þær eru tveir stórir steinar sem heita Dvergasteinar. Gamlir menn segja að til forna hafi dvergar búið þar.

Eitt sinn vildi svo til í Bolungavík að barn tók mikla sótt og einkennilega. Ekki var nokkur vegur að ná í lækni, fyrir hríð og veðurofsa. Faðir barnsins leitaði þá á náðir dverganna í Dvergasteinum. Gekk hann þangað í hríðarbylnum og bað dvergana að koma út og tala við sig. Ekkert fékk hann svarið en ákvað þó að doka við. Biðin varð ekki löng, fljótlega skaust dvergur út úr steininum. Með nokkrum eftirgangsmunum fékkst hann til að hjálpa bónda og fór með honum til Bolungavíkur.

Er dvergurinn hafði skoðað barnið og gefið því lyf og smyrsli, kvaddi hann og fékk gullpening og tvær flöskur af víni að launum. Barnið náði brátt bestu heilsu og urðu þeir kærir vinir upp frá því, bóndinn og dvergurinn, og áttu oft viðskipti. Smyrsl það sem dvergurinn skildi eftir var lengi varðveitt í Bolungavík og aðeins notað þegar mikið lá við. Þótti það öruggt við meiðslum og margvíslegum sjúkdómum.

Hildarhaugur á Seljafjalli

Hringurinn á kirkjuhurðinni á Stað
Hringurinn á kirkjuhurðinni á Stað


Sagan segir að í Hildarhaugi á Seljafjalli sé grafin fornkona og kista hennar full af gulli og gersemum. Einhverju sinni var gerð tilraun til að grafa í hauginn og fannst þar vegleg kista með eirhring í loki. Gröfumenn brugðu reipi undir hringinn og drógu kistuna upp. Þegar kistan var nærri því komin upp á bakkann varð einum þeirra að orði: „Upp skal nú, ef guð vill.“
Annar gröfumaður svaraði til: „Upp skal hún, hvort sem guð vill eða ekki.“ Við þetta féll kistan aftur niður í hauginn en hringurinn einn varð eftir í reipinu. Honum var komið fyrir í kirkjuhurðinni á Stað og er þar enn