Gýgjarsporshamar
Á vestaverðri Skorarheiði er svonefnt Skorarvatn sem bændur á aðliggjandi jörðum veiddu í. Vestan við vatnið rís klettahamar sem heitir Gýgjarsporshamar, en í honum átti að vera stærsta álfabyggð í Hrafnsfirði. Taldi eldra fólk álfana hafa valið sér búsetu þar til að geta jafnt dregið að sér af Ströndum og úr Djúpi, auk þess sem vatnið gaf. Ein saga segir að stúlka nokkur hafi villst í vondu veðri á heiðinni, sest niður og búist við dauða sínum, en þá skyndilega fundist hún stödd í góðri hvílu og að sér væri hlynnt. Þegar upp birti rankaði stúlkan við sér hjá hamrinum og þökkuðu menn álfunum að hún varð ekki úti.
Í hamrinum var einnig kaupstaður álfanna og var líkt hjá þeim og mönnum, að flytja þurfti ýmsar nauðsynjar að. Var m.a. haft á orði, að þegar gufuskip Ásgeirsverslunar á Ísafirði kom með vörur frá Kaupmannahöfn hafi fylgst með því yfir hafið annað skip og skyldi þar vera skip álfanna í Gýgjarsporshamri. Sagði skipstjóri Ásgeirs, danskur maður, frá þessu og sagði að er hann hefði haldið inn Djúp og til Skutulsfjarðar, þá hafi hann séð hitt skipið hverfa inn Jökulfjörðu.