Huldufólk í Smiðjuvík
Um tíma bjuggu í Smiðjuvík hjónin Ingunn og Guðmundur. Eitt sinn að vorlagi er Guðmundur var í bjargi gekk Ingunn til kinda ásamt syni þeirra. Þegar þau eru komin upp í fjallið þar sem útsýni var gott sá Ingunn mann koma vestan að og rak hann fjárhóp en kona fylgdi honum á hesti að vaðinu á Drífandiá. Hundur Ingunnar ætlaði að rjúka í fé mannsins, hún afstýrði því en fylgdist með rekstrarfólkinu sem stefndi á klettaborg eina, svonefnda Rauðuborg. Átti þar að vera huldufólksbyggð.
Nóttina eftir dreymdi Ingunni mann sem þakkaði henni fyrir að stoppa hundinn af og sagðist vera orðinn nágranni hennar, í Rauðuborg. Kvaðst hann mundu launa greiðann síðar. Sonur hjónanna í Smiðjuvík fékk vont veður á heimleið frá róðrum fyrir jólin, en gat fylgt ljósi sem hann sá á hlið við sig í hríðarsortanum uns hann hann kannaðist við sig hjá Rauðuborg. Um jólin dreymdi húsfreyju aftur grannann í Rauðuborg og sagðist hann hafa látið piltinn njóta hennar; álfar vildu ætíð launa greiða.