Ályktun frá aðalfundi Landeigendafélags Sléttu – og Grunnavíkurhrepps (LSG)
Á aðalfundi Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps sem var haldinn 26. maí 2014 sl. var eftirfarandi ályktun samþykkt:
Aðalfundur Landeigendafélags Sléttu og Grunnavíkurhrepps (LSG) beinir því til Ísafjarðarbæjar að hann hlutist til um að hefja gerð deiliskipulags í samvinnu við LSG í þeim byggðakjörnum í Friðlandinu sem fjölsóttastir eru af ferðamönnum. Vinna þessi skal hefjast eins fljótt og við verður komið með það að markmiði að a.m.k. drög að skipulagi liggi fyrir vorið 2015. Kostnaður við verkið greiðist af Ísafjarðarbæ.
Greinargerð:
Það er kunnara en frá þurfi að segja að ferðir ferðamanna norður í Friðlandið á Hornströndum aukast stöðugt. Samkvæmt skýrslu landvarðar fyrir árið 2013 er einkum aukning í dagsferðum en fækkun er á ferðum sumarhúsageiganda að sama skapi. Það eru því augljósir hagsmunir ferðaþjónustunnar og heimamanna að ferðamenn hafi sem greiðastar gönguleiðir um svæðin sem tryggir jákvæða upplifun í fullri sátt við landeigendur. Fjöldi skemmtiferaskipa sem sækja Ísafjarðarbæ heim hefur tvöfaldast á s.l. 2-3 árum og ekkert lát er á þeirri þróun. Það gefur augaleið að álagið á Hesteyri t.d. verður gífurlegt af þeirri umferð ferðamanna sem þetta skapar til viðbótar hefðbundinni ferðamennsku. Ef ekki verður brugðist við með gerð skipulags og framkvæmdum í kjölfarið fer um þessa perlu í norðrinu eins og aðra fjölfarna ferðamannastaði sem hafa verið hvað mest í umræðunni í fjölmiðlum að undanförnu. Það verður að teljast sanngirnismál að Ísafjarðarbær beri kostnaðinn af verkinu vegna þess mikla ávinnings sem hlýst af ferðamennsku af þessu tagi fyrir samfélagið á norðanverðum Vestfjörðum.