Endurskoðun á sérreglum Hornstrandafriðlands
Áform um endurskoðun á tveimur sérreglum í stjórnunar- og verndaráætlun Hornstranda
Umhverfisstofnun áformar að leggja fram tillögur að breytingum á tveimur af 15 sérreglum sem settar eru fram í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið Hornstrandir sem kom út árið 2019.
Sérregla númer 2
Fyrri reglan sem áformað er að breyta er regla númer 2 sem hljóðar svo núna:
Kvikmyndataka og ljósmyndun skal ekki trufla dýralíf innan friðlandsins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Kvikmyndataka og ljósmyndun sem getur haft áhrif á náttúru svæðisins og upplifun gesta er háð leyfi Umhverfisstofnunar. Stofnuninni er heimilt að setja skilyrði þegar slík leyfi eru veitt. Sótt skal um leyfi til kvikmyndatöku innan friðlandsins ekki seinna en 30. maí ár hvert.
Ástæða þess að áformað er að leggja til breytingar á reglunni er að fjöldi aðila sem hafa áhuga og áform um að kvik- eða ljósmynda hefur aukist samhliða því að viðkoma refs hefur ekki verið sem skyldi á undanförnum árum. Það er mat þeirra sérfræðinga sem stundað hafa rannsóknir á lífríki svæðisins að takmarka skuli fjölda veittra leyfa á þeim tíma sem refurinn er viðkvæmastur fyrir truflun og að aðeins skuli veita tvö leyfi til myndatöku við greni í Hornvík. Truflun umfram það auk hefðbundinnar umferðar um svæðið er líkleg til að hafa neikvæð áhrif á afkomu refastofnsins á svæðinu.
Umhverfisstofnun áformar einnig að leggja til breytingu þess efnis að sækja skuli um leyfi til drónaflugs og kvikmyndatöku innan friðlandsins fyrir tímabilið 1. maí – 31. ágúst fyrir 30. mars ár hvert í stað 30. maí. Með þessari breytingu er tryggt að sérfræðingur á svæðinu sé ekki farinn inn á svæði og hafi því tök á að gera áhrifamat fyrir hverja umsókn. Með þessum hætti munu umsækjendur einnig fá svar við sinni umsókn fyrr og því rýmri tími til undirbúnings ef leyfi er veitt.
Umhverfisstofnun áformar að leggja til að regla númer 2 muni hljóða svo:
Kvikmyndataka og ljósmyndun skal ekki trufla dýralíf innan friðlandsins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Kvikmyndataka og ljósmyndun sem getur haft áhrif á náttúru svæðisins og upplifun gesta er háð leyfi Umhverfisstofnunar. Stofnuninni er heimilt að setja skilyrði þegar slík leyfi eru veitt. Sótt skal um leyfi til drónaflugs/kvikmyndatöku innan friðlandsins fyrir tímabilið 1. maí til 31. ágúst ekki seinna en 30. mars ár hvert. Vegna lífríkisverndar er fjöldi leyfa til myndatöku við greni í Hornvík takmarkaður við tvö leyfi á tímabilinu 1. maí -31. ágúst.
Sérregla númer 10
Seinni reglan sem Umhverfisstofnun áformar að breyta er regla númer 10 sem hljóðar svo
núna:
Óheimilt er að lenda flugvélum innan friðlandsins utan lendingarstaða sem skilgreindir eru samkvæmt aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020, nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Landeigendum er heimilt að lenda á sínu landi. Undanskilið banninu eru leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar, sbr. reglugerð nr. 60/1998 og reglugerð nr. 1185/2012, sbr. kafla 3.12.
Ástæða þess að áformað er að leggja til breytingar á reglunni er að ósk hefur borist frá
landeiganda í Höfn um að heimilt verði fyrir þá að heimila lendingar á landi sínu þegar
um er að ræða ferðir á þeirra vegum vegna eftirlits og viðhalds.
Umhverfisstofnun áformar því að leggja til að regla númer 10 muni hljóða svo:
Óheimilt er að lenda flugvélum innan friðlandsins utan lendingarstaða sem skilgreindir eru samkvæmt aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020. Undanskilið banninu eru ferðir landeiganda sem lenda á sínu landi eða eða aðila á þeirra vegum sem sinna eftirliti og viðhaldi eigna eða flutningi á vistum og birgðum vegna nýtingar og viðhalds eigna. Undanskilið banninu eru leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar, sbr. reglugerð nr. 60/1998 og reglugerð nr. 1185/2012, sbr. kafla 3.12.
Umhverfisstofnun óskar hér með eftir ábendingum og athugasemdum frá landeigendum á svæðinu. Þess er óskað að athugasemdirnar berist eigi síðar en 18. febrúar 2021. Þegar unnið hefur verið úr ábendingum landeigenda mun Umhverfisstofnun auglýsa opinberlega tillögur að breytingum á framangreindum reglum þar sem öllum gefst kostur á að senda inn ábendingar og athugasemdir.