Engin bjarndýr í friðlandinu en greinleg ummerki eftir snjósleða á auðri jörð
Hornstrandafriðland 7. maí 2012 - Frá landverði.
Í gær voru Hornstrandir yfirflognar með þyrlu Gæslunnar. M.a. var skimað eftir ummerkjum um hvítabirni, snjó og aðstæður á svæðinu og ástandi þess yfirleitt. Engin merki fundust um bjarndýr og áttum við síður von á því, enda nokkur umferð búin að vera um friðlandið. Hinsvegar var talsvert af sleðaförum og ummerki um utanvegaakstur slíkra tækja (farið á snjólausu). Óheimilt er að fara á sleðum um friðlandið. Þá er friðlandið mjög snjólítið, ekki síst að norðanverðu og ófært fyrir sleða, nema ekið sé að hluta á auðri jörð, sem sumir hika reyndar ekki við að gera. Landið er frekar blautt og því viðkvæmt fyrir hverskonar umferð. Áfram verður fylgst með umferð vélsleða og annarra sem um friðlandið fara.
Talsverðir skaflar eru í skörðum og t.d. er ófær gönguleiðin um Skálakamb austan Hlöðuvíkur og lítið vit í að fara gangandi um svæðið sem stendur nema fólk sé þess kunnugara. Nú er tilkynningaskylda ríkjandi á svæðinu, þ.e. allir þurfa að tilkynna um ferðir sínar til Umhverfisstofnunar, nema landeigendur. Best er að hafa samband beint við Hornstrandastofu á Ísafirði, en skrifstofan er á horninu á Mánagötu og Hafnarstrætis. Síminn þar er 534 7590 eða gsm 822 4056. Tilkynningaskyldan er frá 15. apríl til 15. júní. Einnig má senda tölvupóst á netfangið hornstrandir (hjá) umhverfisstofnun.is.
Í Fljótavík, nánar tiltekið í vatninu sjálfu rákumst við á hvalshræ langt ofan Atlastaða. Sennilega er um sama hval að ræða og rak að landi í Fljótavík í ágúst í fyrra.
Jón Björnsson