Fundargerð Hornstrandanefndar 29. apríl 2013
Fundur var haldinn í Hornstrandanefnd 29. apríl 2013 kl. 14:30 í Umhverfisstofnun.
Fundarboðandi: Ólafur A Jónsson
Fundarritari: Jón Björnsson
Fundarmenn: Erling Ásgeirsson, Matthildur Guðmundsdóttir og Ingvi Stígsson frá Landeigendafélagi Sléttu- og Grunnavíkurhrepps, Andrea Harðardóttir og Jóhann Birkir Helgason (sem fulltrúi Daníels Jakobssonar) frá Ísafjarðarbæ, Ólafur Jónsson frá Umhverfisstofnun, og Jón Björnsson frá Hornstrandastofu sem jafnframt ritaði fundargerð. Andrea og Jóhann Birkir sátu fundinn gegnum síma.
Markmið fundar: Hornstrandamál
- Jón Björnsson sagði helstu tíðindi frá starfsemi friðlandsins þetta misseri og reifaði ýmiss mál s.s.:
- Gestastofa. Umhverfisstofnun hefur sótt um viðbótarfjármagn til Umhverfisráðuneytisins með það í huga að hefja starf Hornstrandastofu á Ísafirði. Ætlunin er að starfsemin verði á safnasvæði Ísafjarðarbæjar í Neðsta- Kaupstað.
- Rannsóknir í friðlandinu. Fjölmargir aðilar hafa stundað rannsóknir í friðlandinu á liðnum árum og ný verkefni í burðarliðnum. Þær helstu snúa að refnum og jarðfræði svæðisins. Þá hafa rannsóknir nemenda í meistaranámi aukist, ekki síst með tilkomu Háskólaseturs Vestfjarða. Ábendingar komu frá landeigendum vegna utanvegaaksturs samhliða rannsóknum í Rekavíkurvatni og mun landvörður kanna það.
- Kvíar í Lónafirði. Fyrirtækið Skútusiglingar ehf á Ísafirði, hefur leigt íbúðarhúsið á Kvíum í Lónafirði til einhverra ára og hyggst stunda ferðaþjónustu þar, ekki síst í formi gistingar.
- Sorpmál. Þau verða með svipuðu sniði og s.l. sumar og staðfesti Jóhann Birkir að sorpgámar yrðu settir niður á viðkomustöðum báta á brottfarastöðum á byggðasvæði.
Kynning og umræða - Verkefni komandi sumars
Jón reifaði helstu verkefni sem framundan eru í friðlandinu. - Ísbjarnarleit og frumskoðun á svæði. Landhelgisgæslan mun fljúga yfir svæðið tvisvar á komandi vikum ásamt landverði.
- Áætlunarferðir hefjast í byrjun júní og verður svæðið opnað samhliða. Fylgjast þarf með fjölda ferðamanna snemmsumars, ekki síst ef svæðið er blautt yfirferðar og viðkvæmt fyrir mikilli umferð.
- Pokasjóður. Styrkur fékkst frá Pokasjóði til þess að prenta og dreifa ruslapokum til ferðamanna með ábendingum um góða ferðahegðun í friðlandinu. Ætlunin er að fólk komi með rusl sitt til baka í umræddum pokum.
- Ferðamálastofa. Styrkur fékkst hjá Ferðamálastofu til lagfæringar á varðaðri gönguleið á Innri Hesteyrarbrúnum. Farið verður með hóp sjálfboðaliða ásamt sérfræðingi í vörðuhleðslum á svæðið er líða tekur á sumar til verksins. Áætlaður starfstími er hálfur mánuður og ef vel tekst verður vonandi framhald á verkefninu næstu ár.
Kynning og umræða - Aðstaða landvarða.
Farið var yfir reynsluna af núverandi landvarðarhúsi sem er mjög góð. Tími landvörslu í friðlandinu hefur lengst með tilkomu hússins svo og öryggi vegna viðveru og búnaðar sem í húsinu er.
Rætt var um uppbyggingu þjónustuhúss á komandi árum og staðsetningu þess. Fram kom að slíkt hús væri þegar í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar, með staðsetningu á Hesteyri. Ábending kom um að brýnt væri að koma upp smáaðstöðu fyrir landverði á helstu áfangastöðum í friðlandinu. Slíkt auðveldar störf landvarða, eykur yfirferð og dvöl á fleiri stöðum en nú eru undir (Hornvík og Hesteyri). Brýnt er að nýta og fara eftir aðalskipulagi við uppbygginu innviða í friðlandinu.
Kynning og umræða - Fræðsluskilti á Látrum í Aðalvík
Tekið var fyrir bréf frá Sólrúnu Þorsteinsdóttur, þar sem hún óska eftir heimild til þess að setja upp fræðsluskilti í landi Látra í Aðalvík, um starfsemi ratsjárstöðvarinnar á Straumnesfjalli. Umsækjandi hefur þegar fengið heimild landeigenda og Ísafjarðarbæjar fyrir framkvæmdinni.
Hornstrandanefnd fagnar framtakinu og gerir ekki athugasemd við það fyrir sitt leyti, enda verði staðsetning unnin í samráði við landeigendur. Landverði er falið að fylgjast með ástandi skiltisins og fjarlægja ef skemmdir eða óprýði verða af því, enda sé slíkt gert í samráði við Sólrúnu. - Hesteyri, afgreiðsla mála varðandi Heimabæ
Nokkur umræða var um málefni Heimabæjarhúsanna á Hesteyri í Jökulfjörðum. Jóhann Birkir kynnti stöðu málsins í dag og upplýsti að eigendur Heimabæjar II hafi fengið samþykkt byggingarleyfi 24. febrúar s.l. og væri málinu nú lokið af hálfu Ísafjarðarbæjar. Athugasemdir höfðu verið gerðar við útlit hússins og teikningar. Brugðist var við athugasemdunum með nýjum teikningum og samþykkti Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar þær og var byggingaleyfi gefið út í kjölfarið. Úrskurð sveitafélagsins má kæra og er kærufrestur enn í gildi.
Málið lagt fram til kynningar - Bréf til landeigenda
S.l. sumar hóf landvörður að dreifa bréfi með upplýsingum til landeigenda í friðlandinu. Bréfinu verður áfram dreift á þessu ári, en jafnframt var óskað eftir því að bréfið fengist birt á heimasíðu landeigendafélagsins, hornstrandir.is.
Erindið var samþykkt - Minkur í friðlandinu og leiðir til úrbóta
Erindi barst Umhverfisstofnun frá landeiganda í Fljótavik vegna fjölgunar minks á svæðinu og samstarf um að eyða honum. Umræddum aðila var komið í samband við Veiðistjórn Umhverfisstofnunar. Ólafur upplýsti að sá misskilningur væri í gangi að ekki mætti veiða mink í friðlandinu. Er það alrangt, enda telst minkur til framandi tegunda líkt og lúpína í friðlandinu sem ber að eyða. Upplýsti Ólafur jafnframt að stofnunin væri vakandi fyrir málinu og óskaði eftir samstarfi við landeigendur.
Ákveðið var að setja af stað vöktun á mink, þar sem landeigendur verða hvattir til að koma upplýsingum um fjölda og staðsetningu dýra í friðlandinu til Umhverfisstofnunar og landverði falið að kortleggja umrædda staði. Tilkynningu verður komið á vef landeigendafélagsins og landvörður mun jafnframt halda uppi fyrirspurnum. - Flug í friðlandinu. Gifting á Stað í Aðalvík og þyrluflug
Bréf barst frá Þyrluþjónustunni Helo, þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða lendingu þyrlu fyrirtækisins við Stað í Aðalvík, laugardaginn 21. júní [júlí?] og aftur sunnudagsmorguninn 22. júní [júlí?] vegna brúðkaups sem haldið veður í Staðarkirkju.
Nefndin lýsir ánægju sinni með að fá slíkar tilkynningar. - Verndaráætlun, staðan í dag
Undirbúningur að gerð verndaráætlunar hefur verið í gangi um nokkurt skeið, fyrst og fremst með söfnun bakgrunnsupplýsinga sem nýtast munu við áætlunargerðina. Með umræddum upplýsingum verður auðveldara að leggja mat á verndargildi svæðisins. Náttúrulegt gildi liggur þegar fyrir en unnið er að söfnun og greiningu menningalegra þátta (saga og minjar).
Kynning - Önnur mál
- Mathildur lagði fram fyrirspurn varðandi skúr sem byggður var við lendinguna að Látrum í Aðalvík. Engin heimild var fyrir skúrnum, hvorki frá landeigendum né sveitafélagi. Jóhann Birkir upplýsti að málið væri í ferli hjá Ísafjarðarbæ.
Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 16:30