Fundargerð aðalfundar Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps 30. maí 2011

Aðalfundur LSG 30. maí 2011 í húsi Nýherja kl. 17.00 – 19.30

Fundinn sátu 19 manns, þar af allir stjórnarmenn, Erling, Ingvi, Magnús Reynir, Matthildur og Sölvi Rúnar.

Fundarstjóri: Magnús Reynir Guðmundsson og fundarritari Matthildur Guðný Guðmundsdóttir.

Fundurinn hófst með kaffiveitingum m.a. rjómapönnukökum og öðru ljúffengu meðlæti.

Dagskrá:

  1. Erling Ásgeirsson flutti skýrsla formanns sem síðar var dreift til allra fundarmanna. Hann baðst afsökunar fyrir hönd stjórnarinnar á því að aðalfundur síðasta árs þ.e. 2010 féll niður vegna óviðráðanlegra orsaka. Ein helsta nýjung í skýrslunni var að búið er að koma upp heimasíðu fyrir LSG sem Ingvi Stígsson hafði mestan veg af að vinna, en hjónin Jóna Benediktsdóttir og Henrý Bæringsson létu fálaginu eftir lén sem þau áttu í nafni „Hornstrandaferða“ Formaður flutti þeim sérstakar þakkir fyrir. Einnig kynnti Erling nokkur áhersluatriði úr nýútkominni skýrslu Jóns Björnssonar landvarðar og lagði áherslu á að stefna LSG væri virðing fyrir óspilltri náttúru og áhersla á að landeigendur hefðu frelsi til að viðhalda eignum sínum í friðlandinu og væru reiðubúnir til að veita upplýsinga um landið sitt og sögu frá fyrri tíð.
  2. Ingvi Stígsson flutti skýrslu gjaldkera, en þær voru tvær, sín fyrir hvort árið 2009 og 2010. Skýrslunum var dreift til fundarmanna. Ingvi benti á að greiðsla félagsgjalda myndi skila sér betur í gegnum heimabanka ef menn hefðu þá tækni. En að sjálfsögðu yrði öðrum gefinn kostur á að greiða eins og verið hefði.
    Umræður um skýrslur formanns og gjaldkera.
    Ingva var sérstaklega þakkað fyrir vinnu við heimasíðu og fundarstjóri gat þess að góð samvinna væri milli Átthagafélaganna á Ísafirði og Reykjavík við LSG.
    Ingibjörg Júlíusdóttir þakkar heimasíðuna og líst vel á hana.
    Þorvarður bendir á að aðalfundir eigi ekki að falla niður og að þeir hafi aldrei fallið niður í sinni stjórnartíð. (Innskot fundarritara: Aðalfundir voru annað hvert ár í stjórnartíð Þorvarðar, samkvæmt þágildandi lögum!).
  3.  Lagabreytingar: Ingvi útskýrði hvernig ósk um lagabreytingu er tilkomin. Sótt var um kennitölu fyrir LSG og þá gerði fyrirtækjaskrá athugasemd við lög LSG þar sem vantaði ákvæði um hverjir gætu slitið félaginu og hvað skyldi þá gert við eigur þess. Stjórnin leggur því til að 15. greininni verði bætt við lög félagsins og hljóði svo:
    Ákvörðun um slit félagsins verður tekin á aðalfundi félagsins og þarf samþykki 2/3 fundarmanna. Eignir félagsins við slit þess skulu renna til bygginga- og viðhaldssjóða átthagafélaga í Sléttu- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu með það að markmiði að viðhalda húsum, kirkjum og kirkjugörðum í þeirra eigu eða umsjá.
    Þessi lagagrein var samþykkt samhljóða.
  4. Stjórnarkjör: Magnús Reynir tilkynnti á síðasta aðalfundi að hann óskaði eftir að hætta stjórnarstörfum í félagi LSG, en hann hafði starfað í stjórn félagsins frá stofnun þess 1973. Hann stakk þá upp á að Hörður Ingólfsson frá Fljótavík kæmi í stjórnina í sinn stað.
    Hörður hefur gefið kost á sér og einnig hefur Jósef Vernharðsson boðið sig fram. Hörður var kosinn með öllum greiddum atkvæðum í aðalstjórnina og Jósef í varastjórn eins og áður.
  5. Skoðunarmenn voru endurkjörnir, en þeir eru Anna og Ingibjörg Ásgeirsdætur, Kristján Guðmundsson og Jón Borgarsson. Jón og Anna eru varamenn.
  6. Árgjald félagsins var samþykkt óbreytt, kr. 1000.-
  7. Önnur mál:
  • Jón Björnsson landvörður sagði að Jónas Gunnlaugsson væri ráðinn landvörður í 7 – 8 vikur og ætti að vera mest á Hesteyri og í Aðalvík, en Jón mest í Hornvík en annars munu þeir skiptast á að sinna öllu svæðinu. Skýrslu landvarðar frá 2010 verður dreift til fundargesta síðar en þar kemur fram að ferðamönnum fjölgar inn á svæðið og í skýrslunni eru ýmis áhersluatriði um kröfur til ferðamanna um viðeigandi útbúnað svo sem tæknilegri þekkingu á GPS eða áttavita, góðum skjólklæðnaði skóm og tjöldum. Vegna fjárskorts mun dragast að sett verði upp vatnssalerni á Hesteyri en unnið verður við að lagfæra göngustíga eftir því sem hægt er. Göngustígur frá Hornvík til Rekavíkur er erfiður og lagfæring á honum mun kosta mikið þar sem sjórinn er að brjóta landið upp að klettum. Einnig getur göngustígur milli Kjaransvíkur og Hlöðuvíkur orðið erfiður og leiðin við Posavog í Aðalvík. Á öllum þessum stöðum þarf miklar framkvæmdir sem ekki verður ráðist í að sinni.
    Vegna erfiðs aðgengis að friðlandinu er ekki stefnt að þjóðgarði þar. Neyðarlínan setur e.t.v. upp Tetrakerfi .
    Landvörður óskar eftir að Ísafjarðarbær hafi ruslagáma við höfnina.
    Verið er að vinna við endurbætur á korti yfir svæðið, þar sem reynt verður að hafa rétt örnefni samkvæmt þekkingu heimamanna. Kortunum á svo að dreifa til landeigenda og ferðamanna og Landmælinga.
  • Þorvarður Jónsson flutti greinagóða skýrslu um rétt sjávarjarða, en hann var fyrir 10 árum kjörinn til að fylgjast með því máli fyrir hönd LSG. Skýrslan fylgir með fundargerðinni. Hann sagði frá aðdraganda að því að stofnuð voru samtök eigenda sjávarjarða SES og að leitað var eftir samvinnu við LSG .
  • Matthildur þakkaði Magnúsi Reyni fyrir vel unnin störf í stjórn LSG í 38 ár.
  • Jón Freyr spyr um möguleika á að sérfélög innan landeigendafélagsins geti tengst heimasíðunni, svo sem félag Látramanna, Fljótamanna eða Hesteyringa.
  • Ólafur Stefánsson bendir á að það kosti peninga að halda úti heimasíðu og hvort ekki komi til greina að selja auglýsingar inn á síðuna frá aðilum sem séu að flytja farþega inn í friðlandið eða frá einhverjum öðrum sem eigi erindi við okkur.
  • Formaður segir að allar góðar ábendingar og fyrirspurnir verði teknar til athugunar.
  • Petrína Rósa Ágústsdóttir bendir á að varðandi greiðslu félagsgjalds hafi ekki allir heimabanka.
  • Formaður tók undir orð Matthildar með þakkir til Magnúsar Reynis fyrir farsæl stjórnarstörf og þakkaði fundarmönnum það traust að endurkjósa þá stjórnarmenn sem gáfu kost á sér til setu áfram og sleit fundi kl. 19.30

Matthildur Guðný Guðmundsdóttir fundarritari.