Fundir um stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hornstrandafriðland

Opinn fundur um stjórnunar- og verndaráætlun  fyrir friðlandið á Hornströndum

Samstarfshópur um gerð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum býður til opins fundar um áætlunargerðina miðvikudaginn 15. nóvember klukkan 17:00 - 19:00, í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði.

Markmið fundarins er að upplýsa íbúa, hagsmunaaðila og landeigendur um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Hornstrandafriðlandið og kalla eftir skoðunum heimamanna um þau málefni sem fjallað verður um í áætluninni.

Stjórnunar- og verndaráætlunin er unnin skv. 81. gr. laga um náttúruvernd 60/2013 en þar segir m.a.

„Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjallað um landnýtingu, landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir og aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks. Ef ekki hafa verið settar sérstakar reglur um umferð manna og dvöl á viðkomandi svæði í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að setja slíkar reglur í stjórnunar- og verndaráætlun svo og reglur um önnur atriði er greinir í IV. Kafla”

Frekari upplýsingar um vinnslu áætlunarinnar má finna á vef Umhverfisstofnunnar

Jafnframt verður fundur fyrir landeigendur o.fl. haldinn í Reykjavík þann 23. nóvember, kl. 17:00-19:00 í húsnæði Umhverfisstofnunar að Suðurlandsbraut 24.

Landeigendur, hagsmunaaðilar og aðrir þeir sem hafa áhuga á svæðinu eru hvattir til þátttöku í fundunum.

Dagskrá:
17.00 Fundur settur
17.00-17.15 Hvað er stjórnunar- og verndaráætlun?
Linda Guðmundsdóttir, Umhverfisstofnun

17.15-17.30 Hvernig nýtist stjórnunar- og verndaráætlun friðlandi á Hornströndum?
Jón Smári Jónsson, Umhverfisstofnun

17.30-18.30 Umræður
Umræðum verður skipt upp í fjögur þemu:

  • Hvert er ágangsþol friðlandsins?
  • Framtíðarsýn
  • Hvernig viðhöldum við verndargildi svæðisins?
  • Þjónusta, umsjón og fræðsla

18.30-19.00 Samantekt borðstjóra