Hafnað að ógilda sorpgjald sumarhúss í Jökulfjörðum

Horft yfir Höfðaströnd
Horft yfir Höfðaströnd

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað að ógilda ákvörðun Ísafjarðarbæjar um að leggja á sorpgjald vegna fasteignar í Jökulfjörðum.

 

Forsaga málsins er sú að í fyrsta sinn 2012 voru lögð á sorpförgunargjöld á sumarhús í hinum gömlu Sléttu- og Grunnavíkurhreppum. Eigendur sumarhús á Höfðaströnd í Jökulfjörðum sendu Ísafjarðarbæ bréf 15. febrúar 2013 og óskuðu rökstuðnings fyrir sorpförgunargjöldunum. Ísafjarðarbær svaraði 18. febrúar og vísaði til sorpsamþykktar Ísafjarðarbæjar. Þar segir að sumarhús skuli bera lágmarkssorpgjald. Einnig var því svarað til að ógjörningur sé að fylgjast með sorpmagni. Beiðni um lækkun á sorpförgunargjaldi var hafnað.

 

Eigandur Höfðastrandar sendu annað bréf 13. mars 2013 og óskuðu eftir því að vera undanþegin sorpförgunarkerfi Ísafjarðarbæjar og semja sjálf beint við sorpförgunarfyrirtæki eins og fyrirtæki í Ísafjarðarbæ gera. Var erindið tekið fyrir í bæjarráði og í bréfi 27. mars 2013 frá Ísafjarðarbæ var erindinu hafnað.

 

Eigendur Höfðastrandar sendu úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæru 2. maí 2013. Var farið fram á að ákvörðun Ísafjarðarbæjar um álagningu sorpgjalds yrði felld úr gildi.

 

Ísafjarðarbær svaraði kærunni og fór fram að henni yrði hafnað. Sorpförgunargjöld sumarhúsa væru aðeins helmingur af sorpförgunargjöldum húsa í dreifbýli. Áætlaðar tekjur Ísafjarðarbæjar vegna sorps 2014 næmu um 72,6 milljónum, þar af eru 687 þúsund vegna sumarhúsa á Hornströndum, en kostnaður væri áætlaður um 80,5 milljónir, því væri um 7,8 milljóna halli á sorpförgun og ekki um að ræða oftekin gjöld.

Niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dagsett 5. júní 2014, var sú að hafna kröfu um ógildingu ákvörðunar Ísafjarðarbæjar um að leggja á sorpgjald vegna Höfðastrandar:


„Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og er raunar skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis, sem og 9. gr. samþykktar nr. 1221/2011, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á kæranda vegna fasteignar hennar. Er fjárhæðin sem kærandi var krafinn um lægri en sú sem heimilt var að leggja á. Þá var heildarkostnaður sveitarfélagsins samkvæmt framlögðum gögnum hærri en heildarútgjöld þess. Í samræmi við framangreint verður kröfu kæranda hafnað.“