Hreinsunarátak á Hornströndum 2015

Frá Ísafjarðarbæ

Gert verður hreinsunarátak á Hornströndum laugardaginn 23. maí. Svipað átak var gert snemma sumars í fyrra og þótti takast með eindæmum vel. Aragrúi af plastrusli sem lent hefur í sjónum endar á þessum slóðum og er talsvert verk að vinna. Í fyrra var hreinsað í Hlöðuvík og Kjaransvík, en að þessu sinni verður farið fyrir Horn og hreinsað í Látravík við Hornbjargsvita og eins langt suður eftir og mannskapur og tími leyfa (Hrollaugsvík, Smiðjuvík, Barðsvík, Bolungarvík).

Lagt verður af stað snemma morguns til að nýta daginn vel. Siglt verður frá Ísafirði og tekur hver sjálfboðaliði með nesti yfir daginn en fær veglegt grill á þessum fallega stað áður en lagt verður af stað aftur heim.


Gjöldum til baka það sem landið hefur gefið okkur og fögnum 40 ára afmæli Hornstrandafriðlands með því að taka þátt í að hreinsa þennan afskekta og fallega stað. Margar hendur vinna létt verk og eru áhugasamir beðnir um að hafa samband sem fyrst á netfangið postur@isafjordur.is eða í síma 450-8038 og skrá sig í ferðina, en takmarkað sætaframboð er í bátunum.

http://isafjordur.is/tilkynningar/Hreinsunaratak_a_Hornstrondum/