Húsið að Kvíum verður gert upp
Skútusiglingar ehf. á Ísafirði (Borea) og eigendur Kvía í Jökulfjörðum hafa gert með sér samkomulag um að gera upp íbúðarhúsið í Kvíum. Verður boðið upp á ferðaþjónustu þar í framtíðinni þar sem hægt verður að kaupa sér m.a. gistingu. Í sumar er boðið upp á gönguferð frá Karlsstöðum í Veiðileysufirði upp á Kvíarfjall og þaðan niður Kvíardal að Kvíum þar sem snæddur er kvöldverður í gamla eldhúsinu. Á ferðaþjónustuhlutverkið vel við Kvíar því heimilið á Kvíum var rómað fyrir gestrisni á síðustu öld.
Kvíar taka nafn sitt af gróinni hvilft austan við Kvíarnúp, hvilft þessi heitir Kví. Kvíarfjall, Kvíarnúpur, Kvíardalur og bæjarnafnið Kvíar taka nafn sitt af þessar hvilft.
Fram eftir síðustu öld voru Kvíar eini bær í byggð frá Hesteyri til Hrafnfjarðar. Þrátt fyrir einangrun var þó oft fjölmennt í heimili. Samkvæmt manntölum var fjöldi heimilismanna á Kvíum þessi:
|
|
|
Bændur í Kvíum nýttu land í Lónafirði bæði til slægna og beitar. Borðeyri er yst í Lónarfirði að vestan, þar skammt innanvið kemur upp volgt vatn. Innar eru Gautastaðir og Gautstaðahlíð, þar hafa fundist elstu menjar um skóg á Íslandi, þ.e. för eftir trjáboli í hraunlagi. Austan í Lónafirði gengur hlíðin inn í fjalllendið og heita þar Lónbjarnastaðir. Tóttarústir eiga hafa sést þar áður fyrr og til er sögn um landnámsmanninn Lón-Björn sem bjó að Lónbjarnarstöðum. Á hann að hafa gefið Grunnavíkurkirkju jörð sína og skip. Í Sagnagrunn hafa verið skráðar sagnir um Björn í Lóni og Lón-Björn. Nokkru utar er Sauðungseyri, en þar á að hafa verið sauðhús Staðarklerks. Munu tröll hafa ásótt sauðamenn á hverjum jólum uns Dýra-Steinþór náði að höggva hönd af tröllkonu sem tekið hafði tvo sauði.
Elstu heimildir um jörðina Kvíar eru í máldögum Gísla Jónssonar biskups frá 1570 og er þá jörðin í eigu kirkjunnar að Stað í Grunnavík og hélst eignarhaldið fram á 20. öld. Ábúendur í Kvíum nýttu einnig land Lónbjarnastaða austan megin í Lónafirði.
Jón Jakobsson keypti Kvíar 1908 af kirkjusjóði. Hann reisti íbúðarhús 1923 sem nú á að gera upp. Því er svo lýst í matsgjörð sem finna má í Grunnvíkingabók:
„Húsið er úr steinsteypu 13x11 álnir að utanmáli, kjallir 3½ álnir undir loft í 4 herbergjum; milliveggir steyptir og allur af sléttaður, þar eldavél, vatnsleiðsla, frárennsli. Fyrstu hæð 3½ álnir undir loft í 4 herbergjum auk forstofu, öll panelklædd, sum betrekkt, sum olíuborin, brandplötur allar steyptar, 2 ofnar og kamína. Efri hæð einnig í 4 herbergjum auk gangs, allt innréttað með panel, gólfin bæði úr 5/4 tommu gaflborðum, þak úr áunnum borðum, pappalagt, bikað og sandborið og þar yfir járnþak.“
Sonur Jóns, Jón E. Jónsson tók við búi föður síns 1940. Jón og kona hans Gíslína Eyjólfsdóttir gáfu hálfa jörðina til skógræktar 1959, sbr. Þjóðviljanum og Vísi.
Jakob Falsson úr Barðsvík fluttist að Kvíum 1906. Hann kvæntist Guðbjörgu Jónsdóttur frá Kvíum og hóf búskap þar 1925 og bjó til 1948. Jakob þótti smiður góður og kom að smíði húsa í hreppnum og smíðaði báta. Jakob og Guðbjörg voru síðustu ábúendur á Kvíum.
Eftir að Jakob flutti frá Kvíum hefur íbúðarhúsið fengið lítið viðhald. Það er þó í furðugóðu standi. Reynt hefur verið að koma í veg fyrir að regn og vindur leiki um það innanhús og 2005 fór Björgunarfélag Ísafjarðar og negldi fyrir glugga en einhver hafði af óskiljanlegum ástæðum brotið allar rúður í húsinu. Húsið á eftir að sóma sér vel að endurbótum loknum.
Lýsingin á Kvíum er fengin úr Grunnvíkingabók.