Landvarsla að hefjast í Hornstrandafriðlandi

Hesteyri 8. júní 2012
Hesteyri 8. júní 2012

Nú styttist óðfluga í að ferðasumarið hefjist fyrir alvöru í Hornstrandafriðlandinu. Nokkrir erlendir göngumenn eru þegar lagstir út og margir sumarhúsaeigendur hafa heimsótt hús sín. Ástand friðlandsins er ágætt, en talsverður snjór er þó enn til fjalla og brattir skaflar í mörgum fjallaskörðum. Fremur hefur verið kalt í friðlandinu þrátt fyrir marga sólardaga og hefur því gengið hægt á snjóinn. Gott er að benda göngufólki á það og hvetja til varkárni á bröttum leiðum.

Landvarsla verður komin á fullan skrið í næstu viku. Jón Björnsson ásamt Jónasi Gunnlaugssyni þjóna svæðinu í sumar en einnig munu erlendir sjálfboðaliðar starfa þrjár vikur á svæðinu í júlí.

Í sumar er stefnt að því að gera tilraun í samvinnu við Upplýsingamiðstöðina á Ísafirði. Talstöð verður komið fyrir í Edinborgarhúsinu og ættu samskipti við landverði að ganga greiðlega með henni. Upplýsingamiðstöðin mun því geta komið upplýsingum til landvarða og kallað þá upp. Hingað til hafa samskipti verið erfið og stopul. Er von landvarða að bragabót verði á því í sumar. Fyrir utan talstöðina eru landverðir með beina síma (GSM) og hafa kveikt á þeim þar sem samband er (auk þess má leggja skilaboð á símana).

  • Jón 822 4056. 
  • Jónas 665 2810.
  • Upplýsingamiðstöðin á Ísafirði 450 8060.
  • Gervihnattasími í Hornvík 00881622456199 (ávalt kveikt á símanum á morgnana).

Ef hringt er í gervihnattasímann þarf stundum að hringja oftar en einu sinni og síminn getur dottið út í nokkrar mínútur svo það þarf þá að hringja aftur.