Landvarsla hafin í Hornstrandafriðlandi

Horft inn í Miðkjós í Lónafirði 9. júní 2012.
Horft inn í Miðkjós í Lónafirði 9. júní 2012.

Landvarsla hófst í Hornstrandafriðlandinu þann 16. júní. Enn er talsverður snjór á svæðinu og leiðir margar erfiðar og seinfarnar. Í sumum fjallaskörðum eru brattir skaflar þannig að þau eru afar erfið yfirferðar. Aðstæður útheimta því að göngufólk sé í góðu formi og kunni vel til verka.

Einhver slæðingur af göngufólki er á svæðinu þessa dagana, en þó ekki ýkja margt. Þó hafa þegar komið upp tilfelli þar sem fólk hefur hreinlega ekki ráðið við þær aðstæður sem eru á svæðinu, verið að þrotum komið og gefist upp á göngunni. Það er því rétt að ítreka að þeir sem ætla að ganga um Hornstrandafriðlandið við þessar aðstæður þurfa að vera vel á sig komnir líkamlega, hafa reynslu af göngum í óbyggðum og vera með mjög góðan búnað. Veður hefur verið hið prýðilegasta á svæðinu undanfarið, bjart og fallegt, en lofthiti frekar lágur, eða á bilinu 2-10°C á daginn, en alla jafna farið undir 5°C á kvöldin.