Skýrsla Þorvarðs Jónssonar um Samtök eigenda sjávarjarða, SES

Skýrsla Þorvarðs Jónssonar til aðalfundar Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps 30.05.2011 um Samtök eigenda sjávarjarða, SES.

 

SES var stofnað 5. júlí 2001. Formaður er Ómar Antonsson eigandi sjávarjarðarinnar Horn í Nesjum, Hornafirði. Með honum í stjórn SES voru Björn Erlendsson, eigandi sjávarjarðanna Eiði á Langanesi og Selskarðs á Álftanesi og Sigurður Filippusson, Dvergasteini, Seyðisfirði.

Björn Erlendsson hafði samband við Matthildi Guðmundsdóttur skömmu fyrir jól 2000 og kynnti fyrir henni áhuga bænda sjávarjarða á að skoða rétt sinn til útræðis. Matthildur kynnti stjórn LSG málið í febrúar 2001. Fjallað var um þetta mál á aðalfundi LSG 6. júní 2001 undir lið 6. “Endurheimt á útræðisrétti jarða í fyrrum Sléttu- og Grunnavíkurhreppi.”

Á stjórnarfundi LSG 20. júní 2001 var Þorvarði Jónssyni, fyrrverandi formanni LSG falið SES verkefnið af stjórn LSG. Þorvarður gekk því í SES fyrir sjávarjörðina Látrar í Aðalvík í ársbyrjun 2002 og er þetta ár því tíunda ár hans í SES. Þorvarður hefur flutt skýrslur um gang mála hjá SES á öllum aðalfundum LSG á þessu tímabili.

Aðalbaráttumál SES var að fá þann rétt aftur sem felst í netlögunum, en hann var afnuminn með kvótalögunum. Netlögin eru skráð bæði í Grágás og Jónsbók, sem er frá 1281. Aðalákvæði netlaga er einkaréttur sjávarjarða á 60 föðmum = 115 metrum á sjó frá stórstraumsfjörumáli.

Eftir að SES hafði reynt án árangurs að semja við ríkisstjórnina um málið var samþykkt á aðalfundi SES í nóvember 2003 að stefna ríkinu. Í febrúar 2004 var samið við Ragnar Aðalsteinsson, hrl. að taka málið að sér. Viðræðum Ragnars við sjávarútvegsráðherra var hafnað og lagði hann fram kæru í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. desember 2006. Kæran var fyrir hönd formanns SES Ómars Antonssonar fyrir sjávarjörð hans Horn í Nesjum, Hornafirði um viðurkenningu á rétti hans yfir netlögum jarðarinnar.

  • 02.10.2007: Héraðsdómur Reykjavíkur vísar máli Ómars gegn íslenska ríkinu frá.
  • 15.10.2007: Frávísunarúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur kærður til Hæstaréttar.
  • 31.10.2007: Hæstréttur vísar málinu frá dómi.

Ragnar Aðalsteinsson, hrl. var með annað mál út af netlögum í gangi á sama tíma. Það var grásleppumál Björns Guðna Guðjónssonar (BGG). BGG veiddi grásleppu í apríl – maí 2003 samkvæmt netlögum jarðarinnar Bjarnarness í Kaldraðarneshreppi (í nágrenni Drangsness).

  • 08.03.2004: Sýslumaðurinn í Hólmavík kærir BGG fyrir brot á fiskveiðilögum.
  • 28.09.2004: BGG dæmdur sekur í Héraðsdómi Vestfjarða.
  • 28.04.2005: Hæstiréttur staðfestir héraðsdóm.
  • 27.10.2005: Málinu vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu (European court of human rights, ECHR) þar sem það var samþykkt til efnislegrar meðferðar. Aðalfundur SES samþykkti að styrkja þessi málaferli.
  • 15.02.2009: ECHR dæmdi kæruna (illa grundaða og) ótæka til meðferðar.

Í umfjöllun Mannréttindadómstóls Evrópu segir: “Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi myndað eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1.”

  • 24.10.2007: Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna úrskurðaði að íslenskum stjórnvöldum bæri að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið og greiða tveimur sjómönnum bætur fyrir að hafa ekki fengið úthlutað kvóta (mál 1306/2004). Íslenska ríkið er lagalega bundið niðurstöðum þessa dóms.

Ríkisstjórnin skipaði starfshóp til þess að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og var Guðbjartur Hannesson alþm. formaður hópsins. SES átti engan fulltrúa í starfshópnum og fór stjórn SES fram á fund með Guðbjarti um málið, sem haldinn var 23. nóvember 2009. Guðbjartur tók undir að eigendur sjávarjarða ættu rétt á að fá fulltrúa í starfshópnum en að sjávarútvegsráðherra yrði að taka ákvörðun um það. Guðbjartur taldi mikilvægt að stofnað yrði til nefndar til að komast að raun um hver réttindi sjávarjarða væru og skilgreina þau. Formaður SES bað margoft um fund með sjávarútvegsráðherra um þetta mál og var hann loks haldinn 20. janúar 2010 og þar samþykkti hann að SES fengi fulltrúa í starfshópinn og tók ritari stjórnar SES það að sér.

Stjórn SES fékk fund með Timo Summa, sendiherra Evrópska efnahagssvæðisins 3. febrúar 2010 og upplýstu hann um að íslensk stjórnvöld hefðu hvorki umboð né heimildir til að ráðstafa, með nokkrum hætti, eignarrétti sjávarjarða í sjávarauðlindinni.

  • 03.03.2011: Vigdís Hauksdóttir, alþm. sendi sjávarúvegsráðherra Jóni Bjarnasyni eftirfarandi fyrirspurnir:
    1. Er útræðisréttur sjávarjarða og eignarréttur innan netlaga tryggður í samningaviðræðum við Evrópusambandið?
    2.  Verður útræðisréttur sjávarjarða virtur og staðfestur við þá endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem núverandi ríkisstjórn hyggst ráðast í?
      Verða eignaréttindi sjávarjarða innan netlaga tryggð við endurskoðunina?

Í svari Jóns Bjarnasonar er málið reifað, farið yfir skýrslu starfshópsins um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. „Ráðherra hefur ekki skipað sérstaka nefnd samkvæmt ábendingum meiri hluta starfshópsins og að beiðni SES. Að því leyti sem endurskoðunin snertir skýrlega málefni eigenda sjávarjarða verður engu að síður leitast við að hlýða á sjónarmið þeirra og taka tillit til þeirra. Með vísan til framangreinds getur ráðuneytið ekki að svo stöddu gefið frekari svör um afstöðu til sjónarmiða þeirra.“

  • 29.04.2011: Stjórn SES sendi bréf til sjávarútvegsráðherra með tillögu að lausn málsins við setningu nýrra laga um stjórn fiskveiða. Lagt er til á þessu stigi, að allar sjávarjarðir fengju heimild til að gera út einn bát (12 metra langan að hámarki) frá hverri sjávarjörð á tímabilinu frá byrjun apríl til loka september. Að fjöldi manna á bát megi ekki vera fleiri en tveir. Að veiðarfæri skuli vera krókar. Handfæri miðist við tvær rúllur á mann og lína við 3200 króka. Afla skal landa á viðurkennda vigt. Að 2% af aflaverðmæti renni til SES.

Þorvarður Jónsson