Skýrsla stjórnar LSG fyrir tímabilið 25.05.2009 – 30.05.2011.

Á fyrrgreindu tímabili voru haldnir 2 stjórnarfundir auk 2 funda í Hornstrandanefnd.

Aðalfundur LSG haldinn 25.05. 2009. 

Á síðasta aðalfundi LSG sem haldinn var 25. maí 2009 í húsi Nýherja hf., Borgartúni 37 voru eftirtaldir kjörnir til trúnaðarstarfa :

 • Erling Ásgeirsson, formaður
 • Sölvi Rúnar Sólbergsson, varaformaður
 • Matthildur Guðmundsdóttir, ritari
 • Ingvi Stígsson, gjaldkeri
 • Magnús Reynir Guðmundsson, meðstjórnandi
 • Guðmundur Halldórsson, varamaður
 • Jósef H Vernharðsson, varamaður
 • Sigríður Gunnarsdóttir, varamaður
 • Ingibjörg Ásgeirsdóttir, endurskoðandi
 • Kristján Guðmundsson, endurskoðandi
 • Jón Borgarsson, varaendurskoðandi
 • Anna Ásgeirsdóttir, varaendurskoðandi

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum var boðið upp á kaffiveitingar í boði félagsins.

 

1. Hornstrandanefnd


Hornstrandarnefnd heyrir undir Umhverfisstofnun.

Í Hornstrandanefnd sitja. Úr stjórn LSG Matthildur Guðmundsdóttir, Ingvi Stígsson og Erling Ásgeirsson. Frá Ísafjarðarbæ Halldór Halldórsson f.v. bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og Andrea Harðardóttir. Formaður nefndarinnar er Ólafur Arnar Jónsson deildarstjóri deildar náttúruvendar Umhverfisstofnunar og starfsmaður nefndarinnar er Jón Björnsson starfsmaður Umhverfisstofnunar og umsjónarmaður friðlandsins á Hornströndum. Á tímabilinu voru haldnir 2 fundir í Hornstrandanefnd.

Á fundinum 25. janúar 2010 var rætt um:

 1. Ósk um álit Hornstrandanefndar á tveimur byggingarumsóknum að Látrum í Aðalvík. Óvissa er um eignarhald á landi beggja húsanna sem sótt er um. Matthildur lagði fram skriflega bókun, annars vegar varðandi eignarhald lands í landi Látraness í Aðalvík og hinsvegar um eignarhald á Urðarhúsi. 
  Nefndin samþykkir fyrir sitt leyti umræddar byggingar enda skerðir útlit þeirra, efnisval og staðsetning ekki ákvæði friðlýsingar.
  Nefndin bendir þó á að leyfi landeigenda eða lóðarhafa þarf að liggja fyrir, áður en til framkvæmda kemur á byggingarstað
 2. Förgun sorps í friðlandinu
  Nefndinni barst ábending um að samhliða endurbygginu húss að Hesteyri hafi talsvert af efni og rusli verið brennt í grunni skammt ofan hússins. Nokkuð er um slíkar brennur í friðlandinu, jafnt vegna endurbóta eða nýbygginga húsa svo og venjulegt heimilissorp. Flestir húseigendur og nær allir gönguferðamenn taka þó rusl sitt með út úr firðlandinu. 
  Nefndin leggur til að Umhverfisstofnun sendi bréf til landeigenda og annarra sem málið varðar og kynni þær reglur sem lúta að frágangi sorps á svæðinu. Leggja þarf áherslu á að samkvæmt reglum friðlandsins er óheimilt að farga sorpi innan friðlandsins. 
 3. Önnur mál
  Rætt um umferð vélknúinna ökutækja í friðlandinu. Ökutæki eru víða heimil til flutnings á farangri frá lendingu að húsum. Hinsvegar ber nokkuð á skemmtiakstri slíkra farartækja oft með tjóni á landi.
  Nefndin leggur til að Umhverfisstofnun sendi bréf til landeigenda og annarra sem málið varðar og kynni þær reglur sem lúta að akstir vélknúinna ökutækja í friðlandinu. Lagt er til að mál 2 og mál 4 verði í sama bréfi.

Á fundinum 14. september 2010 var rætt um:

 1. Farið yfir gögn varðandi deiliskipulag í landi Geirmunda- og Atlastaða í Fljótavík. 
  Nefndi gerir ekki athugasemd við deiliskipulagið, enda séu framkvæmdir sem um ræðir samkvæmt aðalskipulagi. Nefndin áréttar að rask vegna framkvæmda verði haldið í lágmarki, frágangur við verkslok snyrtilegur, að framkvæmdir falli að landslagi og lágmarkað verði álag á náttúrun- og lífríki svæðisins
 2.  Rætt um nýtt neyðarskýli sem setja á niður í Hlöðuvík og farið yfir gögn þar af lútandi. 
  Nefndin setur sig ekki á móti framkvæmdinni eða staðarvali, en lýsir þó yfir óánægju með vinnuferlið, þ.e. að skýlið var flutt í friðlandið áður en leyfi til niðursetningar lá fyrir svo og að útlit og efnisvali skýlisins felllur ekki að byggingarstíl svæðisins.
 3.  Rætt um viðbyggingu við frístundahúsið Brekku í Fljótavík. 
  Nefndin gerir ekki athugasemdir við stækkunina. Bendir þó á að misræmi er í efnisvali milli teikninga og meðfylgjandi umsóknarbréfs
 4.  Önnur mál
  1. Fyrirspurn frá landeigendafélagi um stöðu mála varðandi framkvæmdir við stækkun Heimabæjar II á Hesteyri.
   Nefndin felur Ólafi að skoða stöðu umrædds máls og kynna fyrir nefndarmönnum.
  2. Rætt um utanvegarakstur léttra hjóla (fjór- og sexhjól) í friðlandinu.
   Nefndin telur brýnt að átak verði gert til að sporna við akstri utan merktara slóða í friðlandinu, jafnt með kynningum til landeigenda, dreifibréfi, merkingum o.s.frv. 
  3. Rætt um ferðamenn, umgengni og stöðu mála sumarið 2010. Jón Björnsson gerði grein fyrir helstu niðurstöðum

2. Stjórnarfundir

 

Stjórn LSG hélt tvo stjórnarfundi á tímabilinu. Þann fyrri 29. október 2009 og þann síðari 15. október 2010. Á fundinum þann 29. okt. 2009 var rætt um heimasíðu fyrir félagið í kjölfar umræðu á síðasta aðalfundi. Ákveðið var að falast eftir léninu hornstrandir.is.

Rætt var um framkvæmdir á Heimabæ II, Sölvi fór yfir gang málsins. Sölvi og Matthildur sýndu myndir af vettvangi. Málið er í höndum bygginganefndar, og lögreglu á Ísafirði.

Fram kom á fundinum að Aðalskipulag fyrir friðlandið hafi verið samþykkt í bæjarstjórn Ísafjarðar og verið sent til ráðherra til staðfestingar. Formanni falið að svara bréfi Ísafjarðarbæjar þar að lútandi og tilkynna að LSG sé tilbúið í samstarf um um nánari stefnumörkun.

Vatnssalerni eru komin upp í Hornvík og stefnt að viðlíka framkvæmdum á Hesteyri.

Á fundinum 15. okt. 2010 var rætt um innheimtu félagsgjalda og að hún þurfi að vera skilvirkari. Ákveðið að sækja um kennitölu fyrir félagið þannig að unnt sé að semja við banka um að senda greiðsluseðla rafrænt t.d. inn í heimabanka félagsmanna.

Einnig var rætt um efni frá síðasta fundi Hornstrandanefndar þar sem sótt var um leyfi til að setja upp vatnsrafstöð í Fljótavík. Rætt um umsókn Sölva til að nota litla gröfu við lagfæringar í kring um hús sitt á Hesteyri, en umsókninni var hafnað. Ritari sótti um heimild til að kaupa nýja fundargerðabók og var það heimilað.

 

 

3. Heimasíða og samstarf við Átthagafélag Sléttuhrepps.

 

Formanni Erling Ásgeirssyni var boðið á aðalfund Átthagafélags Sléttuhrepps þar sem hann sagði frá stofnun og starfsemi Landeigendafélags Séttu- og Grunnavíkurhepps (LSG). Eins og áður hefur komið fram í skýrslu þessari kom fram tillaga sem var samþykkt á síðasta aðalfundi LSG um að koma upp heimasíðu fyrir félagið. Einnig kom fram sú ósk að falast yrði eftir léninu hornstrandir is. Hjónin Jóna Benediktsdóttir og Henry Bæringsson á Ísafirði tóku þessari málaleitan af höfðingsskap og eftirlétu félaginu lénið og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir. Mál hafa nú skipast þannig að Átthagafélagið og Landeigendafélagið samnýta lénið hornstrandir.is og félögin eru síðan með sína lykkju á sameiginlegri forsíðu. Verður að segja að þetta er mjög viðeigandi og heppilegt fyrirkomulag sem gefur mikla möguleika í framtíðinni.

4. Skýrsla landvarða fyrir árið 2010


Umsjónarmaður friðlandsins og forstöðumaður Hornstrandastofu á Ísafirði Jón Björnsson mun vera á aðalfundinum þann 30. maí. Þar mun hann gera grein fyrir skýrslu sinni fyrir árið 2010. Hér eru settir inn nokkrir kaflar úr skýrslu Jóns til umhugsunar fyrir félagsmenn.

Hreinlætis- og sorpmál 

Ætlast er til að allir sem fara inn í friðlandið taki allt rusl með sér út aftur og skili á gámasvæði í komuhöfn. Flestir hlýða þeim fyrirmælum, en eitthvað ber þó á því að fólk vill brenna eða urða rusl í friðlandinu og eins er einhverju hent í kamra líkt og fyrr segir. Jafnvel eiga sumir það til að skilja rusl eftir við lendingarstaði báta í þeirri von að einhver fjarlægi það. Fremur er þá um landeigendur að ræða. Umræddir aðilar sýna þannig visst ábyrgðarleysi gagnvart eigin rusli. Þá er frárennsli frá rotþróm í óstandi frá stöku húsum, jafnvel er yfirfall þróa leitt út í næstu á eða læk og siturlagnakerfi er ófullnægjandi. Hvetja þarf til úrbóta og skoða umfang umrædds málaflokks. Fundað hefur verið með Ísafjarðarbæ um sorpmál á svæðinu, en þar sem ekki er tekið sérstakt gjald vegna þess hefur ekki verið farið út í kostnaðarsama sorphreinsun. Fremur er reynt að höfða til ábyrgðar þeirra sem ruslið eiga.

Vélknúin ökutæki innan friðlandsins

Áætla má að í friðlandinu séu milli tíu og tólf vélknúin ökutæki, flest þeirra fjórhjól. Tækin eru í eigu landeigenda og voru flest upphaflega flutt í friðlandið til þess að sjá um flutning farangurs frá lendingarstöðum í fjöru að húsum. Hinsvegar hafa einstaka landeigendur eða gestir þeirra einnig nýtt hjólin til almennra ferða um nærliggjandi svæði og þá oft utan slóða. Oftar en ekki er um veiðiferðir að ræða. Einstaka sinnum fara björgunarsveitir um á vélknúnum hjólum (sexhjólum) og nokkuð er um vélsleða- eða jeppaferðir á vetrum. 

Af og til sjást slóðir eftir slík tæki í grónu landi. Jafnframt eru í stöku tilfellum fleiri reglur brotnar s.s. akstur undir áhrifum áfengis og börn eða unglingar án leyfa á tækjum. Erfitt er að koma höndum á þetta, enda engin lögregla á svæðinu.

Höfða þarf til samvisku fólks vegna umræddra mála og halda úti kynningu um akstur vélknúinna ökutækja. Þá þarf að skilgreina betur akstur s.s. vélsleða í reglum svæðisins.

 

Veiðar 

Nokkuð er um að einstaklingar og hópar fari í friðlandið til veiða. Algengast er að sækja svartfugl undir björg og eins er nokkuð tekið af eggjum árlega, þó hefur eggjatínsla farið minnkandi hin síðari ár, enda jafnt erfitt um vik og hættulegt oft á tíðum. Svartfuglaveiði hefur hinsvegar aukist, jafnt með tilkomu handfærabáta svo og farþegabátar sem selja í veiðiferðir. Mest er skotið af fugli undan Ritnum.

Ávalt er eitthvað tekið af ref í friðlandinu þó hann sé alfriðaður. Ástæða veiðanna eru verðlaun sem greidd eru fyrir refaskott, en oft má ná nokkrum dýrum í einni ferð á svæðið, enda dýrin róleg og lítt vör um sig. Nokkuð er tekið í Hornvík, ekki síst við björgin og í Jökulfjörðum, þá helst Hesteyrarfirði og Veiðileysufirði. Erfitt er að meta umfang umræddra veiða, enda ólöglegar og lítt um frásagnir af þeim. Oftar má áætla veiðina út frá fjölda dýra á vissum stöðum og í góðum óðulum. Þannig hurfu óðalsdýr af nokkrum grenjum sumarið 2010. Af og til finnast skothylki á þekktum refaslóðum, sbr. Höfn, Hornvík. Hundar valda einnig óskunda á refaslóðum, en refir halda sig frekar frá stöðum þar sem margir hundar eru, sbr. Fljótavík. 

Eitthvað er skotið af gæs á haustin og smáræði af rjúpu. Nokkur silungaveiði er stunduð í friðlandinu, jafnt í net sem á stöng. Einstaka landeigendur hafa réttan hátt á varðandi netaveiðar og veiða samkvæmt reglu. Algengara er þó að menn sinni engum skyldum þar af lútandi. Enn eru til einstaklingar sem draga ósa og hrygningarhyli með netum, en slíkt er illa séð af öðrum landeigendum og fer fækkandi. Þá geta stundum stærri hópar yfirsetið ár, þ.e. ofveiða þær með mörgum stöngum.

Af og til heyrast sögur af skotveiðimönnum sem fara um eingöngu til þess að æfa skotfimi sína og sér til skemmtunar. Ábendingar hafa komið þess efnis frá ferðamönnum og húseigendum. Erfitt er um vik að eiga við slíka veiðimenn þar sem standa þarf þá að verki. Yfirleitt er lítið sem ekkert hirt af því sem skotið er og jafnvel alfriðaðar tegundir drepnar svo og tegundir utan veiðitímabila. Stórlega þarf að auka eftirlit með veiðum í friðlandinu. 

Flugsamgöngur

Nokkuð er um flugumferð í friðlandinu. Þrír lendingastaðir eru innan þess og nokkur umferð á tvo þeirra. Einn staðanna er aflagður flugvöllur að Látrum í Aðalvík, hinir eru utanvallar-lendingarstaðir í Hornvík og Fljótavík. Yfirleitt eru það landeigendur sem nýta sér flug á svæðið. Hinsvegar lenda af og til vélar í yfirflugi um svæðið. Nokkuð er um að flugvélar fljúgi nærri fuglabjörgum að sumri og er slíkt flug óheimilt. Talsvert af fugli er í framflugi við björgin og ávalt hætta á því að fugl lendi í skrúfu. Þá er ekki síður truflun á varpstöðum fugla. Fylgjast þarf með og skrá yfirflug, ekki síst lágflug. Einnig þarf að bregðast við ef mikil fjölgun verður á lendingu yfirflugsvéla á svæðinu. Slíkt veldur truflun og óánægju eða árekstrum við aðra gesti. Ná þarf samningum við landeigendur um að þeir lýsi lendingastaðina sem einkavelli.

Framkvæmdir í friðlandinu 2010

Nokkur hús eru í byggingu eða endurgerð í friðlandinu. Helstu framkvæmdir sumarsins 2010 eru í Fljótavík. Nokkuð hefur verið um það undanfarin ár að breytingar hafa verið gerðar á húsum í óleyfi og eru umræddir ferlar í skoðun hjá Ísafjarðarbæ í dag. Aðalskipulag var unnið fyrir svæðið árið 2008 og undirritað nýlega. Í skipulaginu kemur fram landnýtingaráætlun friðlandsins. Gert er ráð fyrir heimild til fjölgunar húsa. Nokkuð hefur borið á slæmri umgengni vegna endurgerða húsa. Þannig er gamalt járn og efni sem skipt hefur verið út, grafið og brennt t.d. í grunnum og jafnvel hent í sjóinn. 

Taka þarf á umræddum þætti og hvetja, ekki síst Ísafjarðarbæ og Hornstrandanefnd að setja frágang á fjarlægðu efni sem eitt skilyrða leyfisveitinga vegna endurgerða gamalla húsa. Leita þarf leiða til þess að ganga frá slíku efni sem er í friðlandinu í dag.

  

Niðurlag

Eins og áður hefur komið fram féll aðalfundur fyrir árið 2010 niður m.a. vegna mikilla anna hjá stjórnarmönnum , er beðist velvirðingar á því. Stjórnin starfaði áfram að þeim verkum sem lágu fyrir þannig að það er af og frá að hún hafi setið auðum höndum. Að vanda eru störf innan Hornstarandanefndar eitt helsta verkefni stjórnarinnar. Skráning félagsins á kennitölu og gerð heimasíðu eru þau verkefni sem standa upp úr á milli aðalfunda. Sérstaklega ber að þakka gjaldkera félagsins Ingva Stýgssyni fyrir hans framgöngu við að koma upp jafn glæsilegri heimasíðu og raun ber vitni um.

Mannabreytingar innan stjórnarinnar eru fremur fátíðar. Á síðasta aðalfundi tilkynnti Magnús Reynir Guðmundsson að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu eftir næsta aðalfund félagsins. Lét hann þess jafnframt getið að hann teldi Hörð Ingólfsson úr Fljótavík verðugan arftaka sinn. Það er mikill sjónarsviftir að Magnúsi Reyni hann hefur verið vara- og aðalmaður í stjórn LSG allt frá upphafi. Færir stjórnin honum bestu þakkir fyrir allt það sem hann hefur lagt að mörkum fyrir félagið. Stjórnin hefur ákveðið að fallast á tillögu Magnúsar og stinga upp á Herði Ingólfssyni til stjórnarkjörs á aðalfundinum þann 30. maí n.k. Að lokum færi ég stjórninni og sérstaklega Magnúsi mínar bestu þakkir fyrir samstarfið á undangengnu starfstímabili og félagsmönnum þakka ég auðsýnt traust og góð samskipti.

Reykjavík 30. maí 2011

Erling Ásgeirsson form. LSG