Skýrsla stjórnar fyrir tímabilið 31.05.2011 – 30.05.2012.

Á fyrrgreindu  tímabili voru haldnir 2 stjórnarfundir auk 2 funda í Hornstrandanefnd.

1. Aðalfundur LSG haldinn 30.05. 2011.

Á síðasta aðalfundi LSG sem haldinn var 30. maí 2011 í húsi Nýherja hf., Borgartúni 37 voru eftirtaldir kjörnir til trúnaðarstarfa :

  • Erling Ásgeirsson formaður
  • Sölvi Rúnar Sólbergsson varaformaður
  • Matthildur Guðmundsdóttir ritari
  • Ingvi Stígsson gjaldkeri
  • Hörður Ingólfsson meðstjórnandi
  • Guðmundur Halldórsson varamaður
  • Jósef H. Vernharðsson varamaður
  • Sigríður Gunnarsdóttir varamaður
  • Ingibjörg Ásgeirsdóttir endurskoðandi
  • Kristján Guðmundsson endurskoðandi
  • Jón Borgarsson varaendurskoðandi
  • Anna Ásgeirsdóttir varaendurskoðandi

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum var boðið upp á kaffiveitingar í boði

félagsins.

 

2. Hornstrandanefnd

 Hornstrandarnefnd heyrir undir Umhverfisstofnun.

Í Hornstrandanefnd sitja.

Úr stjórn LSG: Matthildur Guðmundsdóttir,  Ingvi Stígsson og Erling Ásgeirsson.

Frá Ísafjarðarbæ:  Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, og Andrea Harðardóttir.

Formaður nefndarinnar er Ólafur Arnar Jónsson deildarstjóri deildar náttúruverndar Umhverfisstofnunar

Starfsmaður nefndarinnar er Jón Björnsson starfsmaður Umhverfisstofnunar og umsjónarmaður friðlandsins á Hornströndum.

Á tímabilinu voru haldnir 2 fundir í Hornstrandanefnd.

Fundur Hornstrandanefndar 6. júní 2012:

Fundarefni:

  1. Framkvæmdir við Prestsbústaðinn  á Stað í Aðalvík
  2. Upplýsingagögn til landeigenda/sumarhúsaeigenda 2011
  3. Yfirlit yfir sumarið 2011
  4. Önnur mál

Meðfylgjandi í fylgigögnum er erindi Guðmundar Lúthers Hafsteinssonar til Umhverfisstofnunar varðandi endurbætur á prestshúsinu á Stað í Aðalvík.

Hornstrandanefnd afgreiddi málið með jákvæðri umsögn.

Fundur Hornstrandanefndar 8.desember 2011.

Fundarefni

  1. Heimabær II Hesteyri, beiðni Ísafjarðarbæjar um umsögn Hornstrandanefndar á teikningum v/ lagfæringa á Heimabæ II.
  2. Fréttir frá landverði vegna starfsins í sumar (Jón Björnsson)
  3. Sævar Geirsson f.h. Heimabæjar I hefur óskað eftir því að fá að kynna sjónarmið Heimabæjar I vegna breytinga sem gerðar hafa verið á Heimabæ II

Afgreiðsla og sjónarmið Hornstrandanefndar koma fram í eftirfarandi fundargerð:

Fundargerð

Atriði nr.

Lýsing

Ábyrgð

1

UST20110600223

Sævar Geirsson og Guðmundur Jón Jónsson f.h. Heimabæjar I kynntu sjónarmið eigenda fyrrgreindrar eignar vegna breytinga sem gerðar hafa verið á Heimabæ II.  Húsið var stækkað, utanmál þess aukið, byggt yfir viðbyggingu og gluggum fjölgað og breytt.  Með framkvæmdunum var útsýni frá Heimabæ I skert, sólar nýtur mun skemur á palli við húsið og skuggatími hefur lengst.  Fjarlægð milli húsanna hefur styst og útsýni úr gaflglugga Heimabæjar I er beint inn um gaflglugga Heimabæjar II.  Telja húseigendur á Heimabæ I að á sér hafi verið brotið, enda hafi engin kynning farið fram vegna umræddra breytinga eða samráð haft við þá.  Jafnframt bentu þeir á að hús á Hesteyri séu gömul og óbreytt utan mikillar nútímavæðingar á Heimabæ II og hafi ríkjandi byggingastíl ekki verið fylgt.  Sýndu þeir myndir máli sínu til stuðnings og andmæltu breytingunum. 

Ath. Að því loknu viku þeir af fundi.

Kynning lá fyrir varðandi Heimabæ II þannig að bæði sjónarmið liggja nú fyrir.

Lagt fram til kynningar.    

Ólafur A Jónsson

2

Fjallað um beiðni Ísafjarðarbæjar um umsögn Hornstrandanefndar á teikningum vegna lagfæringa á Heimabæ II á Hesteyri.

Lagðar voru fram teikningar vegna umræddra breytinga.  Nefndin telur að erfitt sé að gefa umsögn um umrætt mál þar sem framkvæmdum er þegar lokið.

Í umræðum kom fram að nefndin telur að um miklar breytingar á húsinu sé að ræða.  Umfang þess er aukið, þ.e. hús stækkað, útliti breytt mikið s.s. gluggar, skorsteinn horfinn af húsinu og utanáliggjandi reykháfur kominn í hans stað svo og veltigluggar á þaki. Hefðbundnum byggingarstíl er ekki haldið og breytingin ekki í samræmi við önnur hús á svæðinu. Jafnvel má álykta að um nýbyggingu sé að ræða en ekki endurbætur og lagfæringu. 

Bent var á að þegar hafi beiðnum um breytingar á húsum í friðlandinu verið hafnað þar sem ekki var farið að ríkjandi byggingastíl, s.s. við efnisval o.fl.

Nefndin gerir athugasemdir við umræddar teikningar. Telur nefndin að teikningin sé ekki í samræmi við ríkjandi byggingastíl á Hesteyri. Sérstaklega eru gerðar athugasemdir við útlit glugga, veltiglugga á þaki,breytingar á skorstein, hækkun þaks yfir viðbygginu og stækkun húss Nefndin lýsir ánægju með endurbætur á húsum í friðlandinu þar sem húsin halda upprunalegu útliti en lýsir jafnframt áhyggjum af framkvæmdum sem unnar eru í friðlandinu án heimildar og telur að bragabót þurfi að vera þar á. Tryggja þarf að allar leyfiskyldar framkvæmdir í friðlandinu fari að settum lögum, s.s. breytingar á húsum, nýbyggingum o.fl. Jafnframt þarf að auka málshraða vegna afgreiðslu á framkvæmdabeiðnum og auðvelda fólki að sækja um. Til dæmis mætti gefa út að umsóknir þurfi að berast fyrir ákveðinn tíma að vetrinum ef svara sé vænst að vori, svo að hægt sé að hefjast handa um sumarið ef umsóknin er samþykkt. Einnig er spurning hvort Umhverfisstofnun ætti ekki að senda fulltrúum í Hornstrandanefnd strax í símbréfi, ef erindi berast sem varða nefndina svo að afgreiðsla tefjist sem minnst.

 

 

Ólafur A. Jónsson

3

Störf í friðlandinu sumarið 2011

Jón Björnsson fór yfir starfsemi liðins sumars, fjölda ferðamanna, umgengni, áherslur í starfi o.fl. Daníel upplýsti að unnið væri í úrlausn á sorpmálum á svæðinu.

Jón Björnsson
4

Önnur mál

a)      Rætt var um tíðni funda nefndarinnar. Áhersla er lögð á að funda tvisvar á ári.

Leggja ber áherslu á að flýta afgreiðslu mála og fjölga fundum ef fleiri erindi berast.  Jafnframt geta einstakir fundarmenn óskað eftir fundi hvenær sem er, ekki síst ef mál liggur fyrir sem þarf skjótrar úrlausnar.

b)      Ingvi spurði hvort mögulegt væri að halda fund nefndarinnar á Ísafirði.  Talið var að það gæti vel komið til greina, ekki síst ef nefndarmenn væru á annað borð staddir á Ísafirði.  Hinsvegar var talið óvíst að Umhverfisstofnun myndi greiða flug fyrir nefndarmenn, nema annað verkefni, tímamót eða tilefni lægi fyrir.

c)      Bréf til landeigenda liggur nú fyrir til dreifingar næsta sumar eða fyrr.  Rætt var um viðbætur í bréfið s.s. sorp- og framkvæmdarmál. 

d)     Vorfundur.  Haldin verður hefðbundinn fundur á vordögum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:20

Ólafur A. Jónsson

2. Stjórnarfundir 

Stjórn LSG hélt tvo stjórnarfundi á tímabilinu.

Stjórnarfundur 9. febrúar 2012:

  1. Rætt um að minnast þess að 40 ár eru liðin frá stofnum Landeigendafélags  Sléttu- og Grunnavíkurshrepps á árinu 2013 með því að tilnefna heiðursfélaga. Nánari útfærsla hugmyndarinnar verður unnin síðar á árinu.
  2. Samþykkt að greiða Þorvarði Jónssyni árgjald í Samtökum eigenda sjávarjarða. Alls kr. 36.000.
  3. Sævar Geirsson og Guðmundur Jón Jónsson  komu á fundinn og gerðu grein fyrir málefnum Heimabæjanna á Hesteyri. Viku þeir síðan af fundi.
  4. Málið rætt og formanni falið að rita bæjaryfirvöldum á Ísafirði bréf þar sem afstaða LSG kæmi fram með skýrum hætti.

Umhvefisnefnd Ísafjarðarbæjar,                          Garðabæ 15. febrúar 2012

400 Ísafjörður

Bæjarstjórinn á Ísafirði

Daníel Jakobsson

Stjórnarfundur í Landeigendafélagi  Sléttu- og Grunnavíkurhrepps LSG  9. febrúar 2012.

Varðar byggingarleyfi fyrir Heimabæ ll Hesteyri

Á fundinum sem var reglubundinn stjórnarfundur LSG mættu Sævar Geirsson og Guðmundur Jón Jónsson fulltrúar eigenda Heimabæjar I á Hesteyri.  Skýrðu þeir sjónarmið eiganda Heimabæjar I Bjargar Sigurðardóttur varðandi endurbyggingu Heimabæjar ll á Hesteyri.  Í framhaldinu gerði stjórnin eftirfarandi bókun:

Í mars 2004 undirrituðu Árni Bragason, forstöðumaður náttúru – og útivistarsviðs Umhverfisstofnunar, Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði og Erling Ásgeirsson formaður Landeigendafélags Sléttu - og Grunnavíkurhrepps  samkomulag varðandi byggingaleyfi í friðlandinu á Hornströndum. Samkomulag þetta og reglur þær sem það innifelur hafa æ síðan legið til grundvallar í umsögnum Hornstrandanefndar og við útgáfu  leyfa til endurbóta og nýbygginga í friðlandinu. Einkum eru það greinarnar um byggingarstíl, efnisval og meðeigendasamþykki sem hafa komið til álita hjá nefndinni. Dæmi er um að byggingarleyfi hafi verið hafnað þar sem ekki tókst að afla samþykkis meðeiganda. Reynslan af þessu þríhliða samkomulagi er góð að mati stjórnar LSG.

Þegar á árinu 2004 sendi stjórn LSG samkomulag þetta ásamt reglum um notkun fjórhjóla í friðlandinu til allra sinna félagsmanna í fréttabréfi, á aðalfundi félagsins 2004 kynnti formaður LSG reglurnar fyrir félagsmönnum,og hafa þær  jafnan legið frammi á aðalfundum félagsins. Einnig hafa þær verið aðgengilegar á vef Umhverfisstofnunnar um árabil og nú á vef félagsins Hornstrandir .is.

Verður að teljast afar óheppilegt, svo ekki sé meira sagt,  að hvorki byggingayfirvöld á Ísafirði né eigendur Heimabæjar II skuli hafa fylgt umræddum leiðbeiningum (reglum) þegar framkvæmdir á Hesteyri voru undirbúnar.Það vekur jafnframt furðu að eigendur Heimabæjar II hefja endurbyggingu hússins í 4 metra fjarlægð frá húsi næsta nágranna án þess að hafa við hann samband og samráð um fyrirhuguðaðar framkvæmdir.

Stjórnin áréttar  jafnfamt það sjónarmið er fram kemur í bókun Hornstrandanefndar frá 8. desember 2012 þar segir„Telur nefndin að teikningin sé ekki í samræmi við ríkjandi byggingastíl á Hesteyri. Sérstaklega eru gerðar athugasemdir við útlit glugga, veltiglugga á þaki, breytingar á skorsteini, hækkun þaks yfir viðbygginu og stækkun húss.“

Því sjónarmiði Umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar að breytt hús falli að byggingarhefð á Hesteyri er mótmælt. Á myndum má sjá að almenna reglan er að hús eru þar með skúrlaga viðbyggingu, eins og Heimabær ll var með fyrir breytingu, sem gefur byggðinni sértakan karakter.

Stjórn LSG telur frekari grenndarkynningar á Hesteyri óheppilegar vegna þess að fólk þar stendur frammi fyrir orðnum hlut og er ekki í mörgum tilfellum tilbúið til þess að tjá sig um málið á sama máta og það hefði gert við upphaf þess.

Mál þetta er komið í mikið óefni. Stjórn LSG leggur hart að Bæjaryfirvöldum á Ísafirði að leita sátta í málinu.

Virðingarfyllst,

F.h. Stjórnar Landeigendafélags Sléttu og Grunnavíkurhrepps

Erling Ásgeirsson

Meðfylgjandi:

Fundargerð Hornstrandanefndar 8. desember 2011

Samkomulag varðandi byggingaleyfi í friðlandinu á Hornströndum (af vef Umhverfisstofnunar)


Stjórnarfundur 9. maí 2012:

  1. Rætt um viðbrögð Umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar við bréfi formanns LSG til nefndarinnar vegan Heimabæjar II
  2. Rætt um stofnun veiðifélaga innan friðlandsins
  3. Tillaga Sölva Sólbergssonar um erindi til Ísafjarðarbæjar vegna deiliskipulagsvinnu á fjölförnum ferðamannastöðum í friðlandinu

Úr fundargerð umhverfisnefndar Ísafjararbæjar

1.

2009070034 - Heimabær II. - Hesteyri.

 

Lagt fram bréf dags. 15. maí sl. frá Arnari Þór Stefánssyni hrl. fh. eigendar Heimabæ II, Hesteyri, þar sem lögð er fram teikning af breytingum á húsinu Heimabæ II.

 

Umhverfisnefnd hafnar alfarið þakgluggum á húsinu enda ekki í samræmi við byggingarstíl á svæðinu.

2. Hlutverk veiðifélaga væri m.a. að stöðva veiðar í leyfisleysi.

3. Sölva Sólbergsyni ásamt formanni falið að gera drög að bréfi fyrir hönd félagsins um deiliskipulagsvinnu . Málið er í vinnslu og verður gerð grein fyrir því á næsta aðalfundi félagsins í maí 2013.

Niðurlag.

Helstu verkefni stjórna LSG  á liðnu starfsári voru á vettvangi Hornstrandanefndar. Bréfaskriftir til Ísafjarðarbæjar og eftirfylgni með málum er þar á meðal. Lýsa verður yfir vissum vonbrygðum með gang mála varðandi Heimabæina á Hesteyri einkum með tilliti til þess að málsmeðferðin var ekki af hálfu Ísafjarðarbæjar í samræmi við það samkomulag sem undirritað var í mars 2004 af  Árna Bragasyni, forstöðumanni náttúru – og útivistarsviðs Umhverfisstofnunar, Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra á Ísafirði og Erling Ásgeirssyni formanni Landeigendafélags Sléttu - og Grunnavíkurhrepps. Samkomulagið varðar byggingaleyfi í friðlandinu á Hornströndum og hefur nú að verulegu leiti verið tekið upp í nýju Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Málið er að vísu ekki til lykta leitt og er það eindregin skoðun stjórnar LSG að Ísafjarðarbæ beri að leita sátta í málinu og verði að bera þann kostnað sem af því kunni að hljótast. Núverandi staða á Hesteyri og víðar er m.a. til komin vegan ófullnægjandi byggingaeftirlits á svæðinu sem skapar oft mikinn vanda.

Sölvi Sólbergsson stjórnarmaður í LSG og húseigandi á Hesteyri hefur vakið athygli á brýnu hagsmunamáli fyrir hús- og landeigendur á fjölförnum áningarstöðum innan friðlandsins. Þeim skemmtiferðaskipum sem koma til Ísafjarðar fer stöðugt fjölgandi. Það sem dregur þau þangað er m.a. að æ vinsælla er að fara í skoðunarferðir norður í eyðibyggðir. Á komandi sumri er áætlað að 22 stór skemmtiferðaskip hafi viðkomu á Ísafirði og þar af leiðandi að mikill fjöldi  ferðamanna verða fluttir  í skoðunarferð norður að Hesteyri t.d. Á Hesteyri er takmörkuð aðstaða til að taka á móti slíkum fjölda og ekkert skipulag né áætlanir hafa verið gerðar í samvinnu við heimamenn um það hvernig þessum heimsóknum er hagað. Þetta leiðir til þess að ferðamennirnir  hafa ekki eins jákvæða upplifun af heimsókninni og efni standa til og húseigendur hafa nokkurn ama af þessum átroðningi. Stjórn LSG hefur nú í undirbúningi erindi til Ísafjarðarbæjar um þetta mál.

Nokkur umræða skapaðist um sorpmál í friðlandinu s.l. vetur í tengslum við sorphirðugjald sem lagt var á húseigendur. Síðar upplýstist að um sorpeyðingargjald er að ræða. Nokkur umræða hefur verið milli stjórnar LSG og bæjaryfirvalda á Ísafirði að undanförnu. Upplýst er að gjaldið er fyrst og fremst  hugsað af hálfu bæjaryfirvalda til þess að standa straum af  bryggjugámum á Ísafirði. Hvað með þá sem kjósa að ferðast til og frá Bolungarvík?

Á næsta ári verður þess minnst að 40 ár eru liðin frá stofnum Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps. Ekki er von til þess að mikið verði um hátíðahöld af þessu tilefni en frumherjanna verður minns með þakklæti og virðingu og til stendur að tilnefna heiðursfélaga sem virðingar og þakklætisvott. Megi okkur auðnast að halda merkinu á lofti næstu 40 árin, þó ekki væri nema, til þess að varðveita þá arfleifð er okkur hefur verið trúað fyrir.

Reykjavík 30. maí 2012

Erling Ásgeirsson form. LSG