Vegna fyrirætlana um fiskeldi í Jökulfjörðum
Samþykkt á aðalfundi Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps 24. maí 2016:
„LSG skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra að sjá til þess að óheimilt verði að stunda fiskeldi í Jökulfjörðum og Hornstrandafriðlandi.“
Greinargerð stjórnar LSG
Á fundi stjórnar með félagsmönnum á Ísafirði og á aðalfundi félagsins í Reykjavík urðu miklar umræður um umsóknir um að staðsetja eldiskvíar í Jökulfjörðum. Höfðu fundarmenn áhyggjur af því að kvíar í Jökulfjörðum og í fjörðum og víkum Hornstrandafriðlands myndu skerða upplifum þeirra sem um svæðið fara. Sem dæmi bentu landeigendur á kvíar sem sem hafa verið á Aðalvík sem dæmi um það sem þarf að varast.
Sléttuhreppur og hluti Grunnavíkurhrepps var friðlýstur 1975. Friðlandið ber þess merki að ágangur manna og búfénaðs er takmarkaður. Dýralíf og gróður þrífst fyrst og fremst á eigin forsendum. Truflanir af mannvirkjum og vélknúnum farartækjum eru lítil og þeir sem fara um eyðibyggðir hinna gömlu hreppa geta notið að vera einir með náttúrunni. Með því að setja inn í eldiskvíar í víkum og fjörðum við friðlandið er hætt við því að þessi upplifun verði ekki eins og áður. Vélarniður getur borist langt í kyrrðinni sem ferðamenn og heimamenn eru að leita að á svæðinu.
Friðlandið á Hornströndum er ein af verðmætustu náttúruperlunum landsins. Mikil ábyrgð er fólgin í því að taka að sér að varðveita hana fyrir komandi kynslóðir. Látum náttúruna njóta vafans og stöndum vörð um kyrrðina og óspillta náttúru um aldur og ævi.