Viðhaldsverkefni í Hornstrandafriðlandi 2014

Þorpið á Hesteyri
Þorpið á Hesteyri
1 af 4

Umhverfisstofnun mun standa fyrir tveimur stórum viðhaldsverkefnum í Hornstrandafriðlandi í sumar. Annars vegar verður unnið í stígum við og á Hesteyri, hins vegar verða vörður og stígur í Veiðileysufirði lagfærð.

 

Lagfærðir verða göngustígar í og við Hesteyri. Gönguleið umhverfis þorpið verður lagfærð og borið ofan í skurði eða smíðaðir göngupallar. Þrjár þjóðleiðir liggja frá Hesteyri, þ.e. til Sæbóls í Aðalvík, til Látra í Aðalvík og ein norður á Hornstrandir um Kjaransvíkurskarð. Hugað verður að stígunum næst Hesteyri, þeir lagfærðir og drenaðir og gert við vörður og ræsi. Markmiðið er að koma í veg fyrir nýmyndum slóða og stöðva eyðileggingu stíga í þorpinu og umhverfis það. Góðir stígar vernda umhverfið og auðvelda för ferðamanna og landeigenda um þorpið. Gert er ráð fyrir 6 sjálfboðaliðum ásamt sérfræðingi í viðhaldi varða og stíga.

 

Úr botni Veiðileysufjarðar liggur þjóðleið upp í Hafnarskarð og niður í Hornvík. Veiðileysufjarðarmegin eru vörður fallnar og stígur horfinn og myndun nýrra slóða farin af stað með tilheyrandi raski á náttúrunni. Með viðhaldi á vörðum mun öryggi ferðamanna aukast og með lagfæringum á stígum mun náttúrurask minnka. Göngleiðin er um 6-7 km. frá botni Veiðileysufjarðar upp í Hafnarskarðið. Drena þarf vatn frá stígum, bæta ræsi og endurbæta upphlaðna stíga. Er gert ráð fyrir 8 sjálfboðaliðum í verkið ásamt sérfræðingi í viðhaldi og endurhleðslu varða.