Aðalfundur
Aðalfundur félagsins var haldinn 28. maí s.l.
Auk venjulegra aðalfundastarfa var kosin nýr formaður, en Hlíf Guðmundsdóttir sem gegnt hefur stöðu formanns um langt skeið gaf ekki kost á sér. Í ávarpi sem Rannveig Pálsdóttir hélt að þessum tímamótum kom fram m.a; „Hlíf Guðmundsdóttir lætur nú af störfum sem formaður félagsins. Hún hefur gegnt formannsembættinu í 35 ár, þ.e. allt frá árinu 1979 er hún tók við af Kristjáni Guðjónssyni. Hlíf hefur unnið óeigingjarnt starf fyrir félagið og komið að ýmsum málum í þágu þess. Má þar nefna t.d. hve hún vann ötullega að útkomu Grunnavíkurbókar ásamt bókanefnd. Hlíf er úrræðagóð, samviskusöm, skipulögð, góður stjórnandi og framúr skarandi traustur félagi. Hlíf hefur alltaf haft veg og vanda af Flæðareyrarhátíðinni. Þar þarf góða skipulagningu og vinnu svo að vel til takist að halda svo stóra hátíð sem Flæðareyrarhátíðin er. Á meðan allir skemmtu sér á hátíðinni er hún vakin og sofin yfir henni. Hún er mætt allra fyrst og fer síðust af vettvangi.
Ég veit að hún hlakkar til að fá að sitja í brekkunni og horfa á skemmtiatriðin eins og við hin,en það hefur hún aldrei gert öll þessi ár. Hugsið ykkur það.
Við viljum fyrir hönd félagsins þakka Hlíf fyrir farsælt og óeigingjarnt starf að málefnum Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði sem formaður þess og þökkum samveruna í þessi 35 ánægjulegu ár. Við munum sakna þín Hlíf“
Nýr formaður var kostin Rannveig Pálsdóttir og aðrir í stjórn; Óskar Kárason, Brynjar Ingason, Elvar Ingason og ný í stjórn Salóme Elín Ingólfsdóttir.