Loading...

Þorrablót Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga 2018

Sameiginlegt þorrablót Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga verður haldið í Félagsheimilinu í Hnífsdal laugardaginn 17. febrúar n.k. 

Grunnavíkurferð á jeppum árið 1975

GRUNNAVÍKURFERÐIN 1975

Garðar Sigurðsson skráði.

Hornstrandir og  næsta nágrenni hafði lengi verið eitt minnst kannaða landsvæði Íslands.
Þar var þá þegar orðið friðland þ.e.a.s. allt svæðið norðan og vestan Skorarheiðar sem liggur á milli Hrafnsfjarðar og Furufjarðar þar sem engin umferð véldrifinna farartækja var heimil. En þar fyrir sunnan og austan voru enn stór svæði sem hingað til höfðu verið frí af véldrifnum faratækjum nema í Jökulfjörðum, þar sem einn eða tveir landbúnaðarjeppar höfðu verið staðsettir um 1955 þar til byggðin var yfirgefin 1962. Vegna þess hafði verið gerður ökufær vegur frá Grunnavík og inn með Jökulfjörðum sunnanmegin og allt að bænum Dynjanda.
Á leið upp Rjúkandisdal
Á leið upp Rjúkandisdal

        Dag einn hitti ég Sigfús Kristjánsson tollvörð sem búið hafði þá í Keflavík um áraraðir, en hann er ættaður úr Jökulfjörðum og hafði búið lengi í Grunnavík áður hann flutti á Suðurnesin. Við tókum tal saman og fórum að ræða um æskuslóðir hans sem svo mikill  ævintýrablær ríkti yfir. Sigfúsi var vel kunnugt um að ég og félagar mínir höfðu undanfarin ár ferðast mikið um hálendi Íslands, sem þá hafði verið og var enn tiltölulega lítt kannað. Færði hann þá í tal við mig hvort að við hefðum ekki áhuga á að reyna að verða fyrstir manna til að komast á bílum til Grunnavíkur.          Við ræddum þetta fram og til baka og þegar Sigfús bauðst til þess að koma með sem leiðsögumaður  fór þetta að hljóma afar freistandi.  

Hann sagði jafnframt að þetta yrði erfitt því að heiðar sem þyrfti að fara yfir væri mjög grýttar og grófar yfirferðar. Ég sagði honum að ég myndi kanna þetta nánar og þá einnig hvort að einhver eða einhverjir ferðafélaga minna hefðu áhuga á að gera þessa tilraun  með mér.

Á leið upp Rjúkandisdal
Á leið upp Rjúkandisdal

        Hugsunin um þetta sótti mjög á mig næstu daga og færði ég þessa hugmynd í tal við nokkra félaga mína en mönnum sýndist mjög misjafnt um hana. Þetta hafði ekki áður verið reynt eftir því sem við best vissum en það jók aðeins á spennuna hjá mér og gerði hugmyndina enn eftirsóknarverðari. Á þessum tíma átti ég fjórhjóladrifinn Chevrolet Suburban bíl af árgerð 1970. Hann var frekar langur og var á dekkjum af stærðinni 750x16 og voru þau á þeim tíma með stærstu jeppadekkjum sem völ var á. Í honum var 8 strokka bensínvél, auka eldsneytisgeymir og einnig var á honum dráttarspil. Fjarskifti voru þá eingöngu í gegnum SSB talstöðvar en með þeim mátti ná sambandi við allar strandstöðvar landsins ásamt Gufunes radio í Reykjavík. Var minn bíll búinn slíkri talstöð.

Á leið upp Rjúkandisdal
Á leið upp Rjúkandisdal

Eftir nokkrar umræður við ferðafélaga mína ákváðu þrír þeirra að slá til og gera þessa tilraun. Þeir voru, Ragnar Eðvaldsson bakarameistari ásamt eiginkonu sinni Ásdísi Þorsteinsdóttur og voru þau einnig á Chevrolet Suburban en af árgerð 1974, en sú bifreið var einnig búin SSB talstöð.  

Stefán Björnsson slökkviliðsmaður og hans kona Anna Steina Þorsteinsdóttir en þeirra farartæki var Chevrolet  Blazer af árgerð 1972 og Gunnar Garðarsson útgerðarmaður ásamt Sveini Jakobssyni smið sem var hans aðstoðarmaður, en þeir óku einnig á Chevrolet Blazer en af árgerð 1970.

Með mér í bifreið voru félagi minn Hrafn Sveinbjörnsson og Sigfús Kristjánsson, leiðsögumaður okkar. Allar bifreiðarnar voru á sömu dekkjastærð og ég, 750x16.  Allt voru þetta kraftmiklir og vel útbúnir bílar á þessa tíma mælikvarða og þetta fólk allt harðduglegt og vant ferðafólk.      

Ákveðið var að leggja skyldi upp eftir vinnu á miðvikudegi og miða að því að vera komin til baka til Keflavíkur ekki síðar en á mánudagsmorgni.

Þann  20 ágúst  1975 lögðum við svo af stað og ókum sem leið liggur  vestur í Bjarkarlund þar sem við eyddum fyrstu nóttinni.

Stefán rennir inn á grjótið á Dalsheiðinni
Stefán rennir inn á grjótið á Dalsheiðinni
Daginn eftir var haldið rakleiðis yfir Þorskafjarðarheiði og niður í Langadal í Ísafjarðardjúpi að bænum Kirkjubóli, því að þar var síðasti staður til að taka eldsneyti eftir því sem við best vissum.

Til gamans má geta þess að skömmu eftir að dæling eldsneytis á bílana hófst fór rafmagnið af bensíndælunum og var þá ekki um annað að ræða en að dæla með handafli það sem eftir var og það tók nú sinn tíma.Þaðan var haldið að bænum Bæjum á Snjaæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi og heilsað upp á bóndann þar, Pál Jóhannesson sem Sigfús þekkti að sjálfsögðu persónulega. Hann var mjög forvitinn um ferð okkar og bauðst til að fara með okkur fyrsta spölin upp á fjallið til að sjá hvernig okkur gengi.Upp Unaðdsdalinn þaðan sem við lögðum upp lá jeppaslóð sem beygði fljótlega inn í annan dal sem heitir Rjúkandisdalur, en hvarf svo allt í einu snögglega ofarlega í dalnum.Upphaflega hafði verið hugmynd um að hún næði lengra inn á Öldugilsheiðina og jafnvel alla leið upp að Drangajökli, en þarna var hún komin bara hluta af leiðinni.  Þetta hjálpaði okkur nokkuð vel í fyrstu en þegar slóðinni lauk var ekki um annað að ræða en að leita fyrir sér um færa leið og það var einungis hægt fótgangandi.

Á leið um Dalsheiði
Á leið um Dalsheiði

Sigfús og Páll á Bæjum  fóru í fyrstu fyrir okkur enda manna kunnugastir á þessum slóðum. Smám saman bættust fleiri í hóp leiðakönnuða og ekki löngu síðar þurfti Páll að yfirgefa hópinn og fór hann með þeim ummælum að við kæmumst hvort eð er ekki langt. Yfirferðin var mjög hæg því að við þurftum fljótlega að sneiða inn á Dalsheiðina sem er mjög grýtt, morandi í eggjagrjóti og gróf. Sigfús sagði okkur að að setja stefnuna á skarð sem heitir Dynjandisskarð því að það væri sú leið sem væri líklegust til að komast niður af fjallinu og niður í Dynjandisdalinn, norðan heiðarinnar.

Á leið um Dalsheiði
Á leið um Dalsheiði

Talsverður snjór var þarna ennþá frá síðasta vetri og fljótlega fundum við út að best var að færa okkur inn á snjóskafla sem lágu utan í hlíðarslökkunum og þræða þá, því að með því móti miðaði okkur alltaf eitthvað áfram og svo var minni hætta á að skemma dekk. Við settum einnig keðjur á suma bílana og  með þessu móti gátum við silast áfram þó með mörgum stoppum, vegna þess að dekkin skáru sig niður í snjóinn enda voru um 30 punda loftþrýstingur  í þeim,  sem að á þessum tíma var það talin besta vörnin gegn því að skera og skemma dekkin. Einnig var það að  í snjósköflunum var talsverður hliðarhalli svo að bílarnir skriðu alltaf út á hlið.  Allir bílarninr voru með tregðulæsingum í afturdrifum en ekki gerðum við okkur almennilega grein fyrir hvort að þær hefðu áhrif til hins verra eða betra í þessu tilfelli.

Á leið um Dalsheiði
Á leið um Dalsheiði

Eitt sinn er ég var að fara yfir eina snjóbrúnna þá brotnaði hún allt í einu undan hægra afturhjólinu en við það kom snöggur og mikill slynkur á bílinnn. Hægra framhjólið lyftist snöggt upp með þeim afleiðingum að augablaðið í framfjöðrinni small í sundur. Þarna undir reyndist vera holklaki.  Nú voru góð ráð dýr og enginn leið til að lagfæra þetta á staðnum. Var því slegið upp fundi og komist að þeirri niðurstöðu að best væri að ná sambandi í gegnum Ísafjarðar radio við Chevrolet umboðið í Reykjavík sem þá var Samband Íslenskra Samvinnufélaga og vita hvort augablaðið væri til og síðan að fá það sent með flugvél til okkar.

Brotin framfjöður í Ö-657 á Dalsheiði
Brotin framfjöður í Ö-657 á Dalsheiði

Er þarna var komið var farið að kvölda og snérum við okkur því strax í  ná sambandi við Ísafjarðar radio sem gat gefið okkur símasamband við bifreiðaumboðið. Sem betur fer var þá komin þar bakvakt, einskonar neyðarvakt eins og hjá sumum umboðunum og fengum við samband við þann aðila hjá SÍS.

Hann lofaði að kanna málið og hafði svo samband til baka um að fjaðrablaðið væri til og við gátum þá sagt honum hverngi ætti að koma því til okkar og hvernig skyldi búið um það. Meðan við biðum aftir svari frá bakvaktarmanninum höfðum við náð í félaga okkar á Suðurnesjum, Magnús Brimar Jóhannsson sem var þá áhugaflugmaður og meðeigandi Stefáns Björnssonar í lítilli einkaflugvél og  lofað hann okkur að fljúga með varahlutinn til okkar.

Flugvélin birtist
Flugvélin birtist

Eflaust hefur misjafnlega farið um fólkið sem hreiðraði um sig í bílunum, en enginn kvartaði og öll gengum ánægð til hvílu. Daginn eftir var risið árla úr rekkju og eftir að fólk hafði nært sig var aftur tekið til við að huga að framhaldi ferðarinnar. Það var ágætis veður,  þurrt en skýjað og skyggni gott.

 Við fórum strax handa við að ná brotnu fjöðrinni undan bílnum og taka hana í sundur og var ekki að sökum að spyrja að þar reyndist Hrafn vinur minn Sveinbjörnsson okkur manna drýgstur eins og oft áður er slík vandamál bar að höndum. Þetta  tók allt sinn tíma og ekki gátu allir komist að þessari framkvæmd. Því notuður aðrir tímann í að fara fótgangandi í könnunarleiðangra um svæðið til að flýta fyrir okkur þegar komist yrði aftur af stað. Svenni Jakobs, Gunni Garðars og Sigfús voru óþreytandi að skokka um urðina í kring og voru búnir að allt að því kortleggja leiðina fyrir okkur þegar þeir komu til baka.

Skift um framfjöðrina í Ö-657
Skift um framfjöðrina í Ö-657

Strax um morguninn fengum fréttir í Ísafjarðar radio að flugvélin væri að fara í loftið og væri væntanleg fyrripart dagsins. Við fórum því að undirbúa okkur undir komu hennar því að við vissum að erfitt gæti verið að sjá, ekki stærri hluti en bíla úr lofti á svona stórri heiði. Ekki var staðsetningarbúnaði fyrir að fara og urðum við því að notast við kort og áttavita til að gefa upp staðsetningu okkar til flugmannsins.

Veður hélst enn ágætt, skýjað en skyggni gott og  svo kom að því að við heyrðum í flugvélinni en sáum ekkert til hennar strax. Hljóðið nálgaðist okkur og svo sáum við til hennar en flugmennirnir voru greinilega ekki búnir að koma auga á okkur því að hún flaug framhjá, nokkuð fyrir vestan  okkur.

Við tjarnir á Dalsheiði
Við tjarnir á Dalsheiði

Við reyndum að koma boðum til hennar í gegnum Ísafjarðarradio og sennilega hefur það tekist því að hún snéri fljótlega við og stefndi nú beint á okkur og hafði lækkað nokkuð flugið. Er hún nálgaðist var greinilegt að þeir höfðu séð okkur því að þeir flugu beint yfir og rugguðu vélinni til merkis um það. Síðan flaug vélin í stóran sveig og kom svo í beinni stefnu til okkar og lét sendinguna falla niður. Pakkinn lenti skammt frá bílunum og þeir félagar vinkuðu okkur um leið og þeir hækkuðu flugið og tóku stefnuna í vesturátt. 

Við vorum hinir kátustu og hófumst strax handa um að setja nýja augablaðið í fjöðrina og koma henni síðan undir bílinn. Þegar því var lokið var haldið aftur af stað. Leiðin frá Unaðsdal og yfir  að Dynjanda er ekki nema um 10 kílómetrar svo að ekki var yfirferðin mikil hjá okkur. Að vísu tafði óhappið með framfjöðrina okkur ansi mikið svo að vorum orðin í vafa um hvort að sá tími sem við höfðum ætlað okkur í ferðina fram og til baka nægði. Því var aftur haft samband við Ísafjörð og skrifstofu Djúpbátsins til að kanna hvort sá möguleiki væri fyrir hendi að fá Fagranesið til að sækja okkur til Grunnavíkur. Það kom í ljós að það yrði ekkert vandamál svo að við ákváðum að halda áfram.

Gunnar og Stefán komnir yfir dýpstu tjörnina, Hrafn stendur út í tjörninni
Gunnar og Stefán komnir yfir dýpstu tjörnina, Hrafn stendur út í tjörninni

Við höfðum þegar þarna var komið fært okkur niður á hjalla ekki mjög langt frá klettabrúninni við efstu drög Dynjandisdalsins og stefndum beint, eins og hægt var, á Dynjandisskarðið sem okkar ágætu landkönnuðir höfðu verið búnir að finna daginn áður.

Við flæktumst þarna um urð, grjót og snjó, stundum ansi nálægt klettabrúninni og leist satt að segja ekkert of vel á að ná því að komast þar niður fyrir því að mjög hátt var fram af brúninni og snarbrött hlíð þar fyrir neðan. Öðru hvoru komu við að tjörnum sem myndast höfðu úr leysingavatni og fundum fljótlega út að skárra var að fara yfir þær en að brölta framhjá. Svo kom líka stundum fyrir að ekki var önnur leið fær en að fara yfir tjarnirnar. Þegar komið var undir kvöld komum við tjörn þar sem engin leið fannst fram hjá og var því farið að kanna dýpið með því að vaða hana.

Garðar í einni tjörninni
Garðar í einni tjörninni

Kom í ljós að hún var þó nokkuð djúp en botn góður. Gunni Garðars fór fyrstur yfir og gekk allvel en samt fannst okkur ástæða til að hafa spotta á milli bíla þegar við hinir komu yfir. Þegar þessum áfanga lauk var farið að dimma allmjög svo að við ákváðum að taka okkur þarna næturstað og hafast aftur við í bílunum.

Enn einu sinni risum við kát og glöð úr rekkju tilbúin til að takast á við hver þau vandamál er kynnu að bíða okkar.

 Við náðum loks að skarðinu og vorum svo sannarlega ekki mjög bjartsýn því að skarðið var þröngt og botninn mjög stórgrýttur og ójafn og ekki bætti úr skák að þegar því lauk tók við brattur alllangur snjóskafl sem náði alla leið niður á malarhjalla þar fyrir neðan.

Stefán prófar skarðið
Stefán prófar skarðið
                                 

Eftir heilmiklar lagfæringar og grjótburð var bíllinn hans Stebba mátaður í skarðið og virtist okkur ekki leyfa mikið af breiddinni fyrir bíla okkar Ragga sem voru eitthvað örlítið breiðari. Stebbi læddist eins hægt og hann gat niður skarðið með góðri leiðsögn á alla vegu og slapp óskaddaður í gegn en svó tók skaflinn við.

Ekki var um annað ræða en að taka stefnuna beint niður skaflinn, keyra á fullum snúning í frekar lágum gír til að halda stjórn á bílnum og reyna að ná mjúkri lendingu á hjallanum fyrir neðan.

Ragnar gerir sig kláran í skarðið
Ragnar gerir sig kláran í skarðið

Við krosslögðum alla fingur og tærnar líka þegar Stebbi lagði í hann. Þetta gekk mikið betur en á horfðist og hann náði að halda stjórn á bílnum í nokkuð beinni línu niður skaflinn og náði góðri lendingu á hjallanum. Þetta gerði eftirleikinn betri fyrir okkur hina, því að nú voru komin för í skaflinn sem gerðu okkur sem á eftir komu auðveldara að halda bílunum í réttri stefnu.  Gunni Garðars fór næstur og gekk honum jafnvel og Stebba. Þegar röðin kom að okkur Ragga vandaðist málið aðeins vegna þeirra nokkru sentimetra sem  Suburbanbílar okkar voru breiðari en Blazerarnir. Raggi mátaði sinn bíl fyrst en ekki tókst í fyrstu lotu að koma honum í gegn og urðum við því að reyna að losa grjót úr hamraveggjunum báðum megin skarðsins. Eftir mikið erfiði fannst okkur ástæða til að gera aðra tilraun og í þetta sinn  gekk þetta, Raggi smaug í gegn og strunsaði niður skaflinn til hinna sem komnir voru á undan.  Ég fór síðastur í gegn og smaug þetta á svipaðann hátt og Raggi. Þótti okkur nú að talsverðum áfanga væri náð, en þegar við horfðum til baka upp skarðið, litum við hvert á annað og sennilega öll hugsað það sama; Hvernig í ósköpunum gætum við komist þarna upp til baka, ef til þess kæmi?  

Okkur fannst því að nafnið “Afglapaskarð” væri meira réttnefni á skarði þessu en Dynjandisskarð. 

En það þýddi ekki að hugsa um það í bili því við vissum um hina leiðina, sem var Fagranesið svo að við litum bara fram á veginn og hófum nýja landkönnun.

Ragnar rennir sér niður í gegnum skarðið
Ragnar rennir sér niður í gegnum skarðið

Leiðin lá nú niður í Dynjandisdalinn og gátum við þrætt okkur niður með símalínunni en það var sæmileg leið eftir hlíðarhjöllum, sem við sögðum okkar á milli að væri eins og að vera komin á malbik í samanburði við það sem við vorum búin að fara yfir.

 Gekk ferðin síðan snurðulítið þar til komið var að þeim stað sem tvær smáár mættust neðarlega í  dalnum. Þetta voru Dynjandisá og Múladalsá en við þær og þegar komið var niður undir láglendi tóku við nokkuð blaut svæði og allmiklar mýrar sem ekki varð komist hjá að aka yfir.  Þarna hófst heilmikill bardagi við þessar bleytur sem voru einnig að hluta til í gömlu túnunum  frá bænum Dynjanda sem hafði verið mesta og stærsta höfuðbýlið  í Jökulfjörðum í aldaraðir.

Best reyndist okkur að keyra á ferðinni yfir mestu bleyturnar og gekk það í flestum tilfellum nokkuð vel. Þó kom fyrir að einn og einn lenti all illilega á kafi í mýrinni og þá  upphófst mikill mokstur og spilverk sem bar þó árangur að lokum. Í þetta fór talsvert langur tími en loksins er við náðum í gegnum þennan farartálma,  þá komumst við niður á greinilegan vegslóða sem ruddur hafði verið til samgöngubóta á árunum 1955 -1959. Hann lá frá Grunnavík og inn með Jökulfjörðum allt til höfuðbýlisins Dynjanda áður en allt fór þarna í eyði árið 1962.

Garðar fer í gegn
Garðar fer í gegn

        Eftir þetta gekk ferð okkar nokkuð snurðulaust út með strönd Jökulfjarða, fyrst framhjá samkomustað þeirra Jökulfirðinga,  Flæðareyri þar sem við stoppuðum og skoðuðum okkur um. Við héldum svo áfram framhjá eyðibýlinu Höfða og linntum ekki látum þar til við nálguðumst næsta býli  sem er Höfðaströnd. Frekar fórum við nú hægt yfir því að þó að þarna væri ruddur slóði þá var hann ekki sem bestur yfirferðar og því víða tafir vegna úrrennslis og svipaðra vandamála því slíkt fylgjir gjarnan slóðum sem ekki hafa notið neins viðhalds í áratugi.  En þegar við nálgumst Höfðaströnd verðum við vör við  mannaferðir og  tökum eftir að þar eru nokkur börn að leik utan við bæinn.

Á leið niður fram með Tröllafelli
Á leið niður fram með Tröllafelli

Við sjáum að um leið og þau verða vör við okkur stöðva þau öll leik sinn og stara í áttina til okkar, en taka síðan á harðan sprett í átt til bæjar. Þegar við komum nær sjáum við að nokkrir fullorðnir eru komin út á hlað ásamt börnunum. Við bröltum á bílunum í gegnum hálfgert forarsvað sem varð á leið okkar rétt við bæjarhlaðið og stöðvum síðan til að heilsa upp á fólkið. Ekki veit ég hvorir voru meira undrandi,       við að rekast á fólk þarna eða fólkið á staðnum að sjá þarna bíla á ferð. Á þessum árum var það ekki orðið svo algent sem síðar varð, að fyrrum ábúendur eða niðjar þeirra færu að hafa sumardvöl á yfirgefnum jörðum sínum eða forfeðra sinna, sér til afþreyjingar. En nú voru þarna til staðar afkomendur síðustu ábúenda Höfðastrandar  og áttu síst á öllu von á vélknúnum faratækjum akandi í hlað á bæ sínum.  Fólkið sem samanstóð mestmegnis af konum og börnum sögðu okkur jafnframt að þegar börnin komu hlaupandi inn í bæinn og sögðu að það væru bílar að koma, hefði verið heldur hressilega hastað á þau því að ekki hafði nokkur maður tekið þau trúanleg. Þarna hefðu ekki sést bílar síðan fyrir 1960. En börnin gáfu ekki sitt eftir og hættu ekki fyrr en þau gátu dregið fullorðna fólkið út á hlað svo að þau gætu séð með eigin augum hvað væri að ske.

Komið niður í Dynjandisdal, Tröllafell og símalínan í baksýn
Komið niður í Dynjandisdal, Tröllafell og símalínan í baksýn

        Okkur var tekið opnum örmum og boðið til bæjar . Ekki var annað tekið í mál en að við yrðum að þiggja veitingar og þegar farið var að spjalla saman kom auðvitað í ljós að Sigfús þekkti til allra viðkomandi og að sjálfsögðu jafnframt til allra þeirra skyldmenna. Þetta varð því hin mesta skemmtun og við hin urðum margs vísari um ættir og sögu Jökulfirðinga og Grunnvíkinga. En ekki þýddi að stoppa of lengi því að við þurftum að ná til Grunnavíkur fyrir myrkur og við áttum eftir að komast yfir eina heiði sem Staðarheiði nefnist og  þar vissi enginn hvernig leiðin framundan væri.

Komin niður, Dynjandisskarð og símalínan í baksýn
Komin niður, Dynjandisskarð og símalínan í baksýn

        Þess má kannske til gamans geta að 17 árum eftir að þessir atburðir gerðust áttí ég ásamt eiginkonu minni ferð um þessar slóðir fótgangandi og gengum við alla þá sömu leið sem  sagt er frá í þessari frásögn. Þegar við komum að Höfðaströnd hittum við aftur fyrir fólk sem reyndist að mestu vera það sama og segir hér frá. Þegar ég fór að rifja upp þessa sögu sagði ein konan við mig ”Svo það varst þú sem keyrðir yfir kartöflugarðinn minn?”

Svo ofarlega var þetta henni enn í minni.

        Við héldum svo aftur af stað eftir þessar góðu og skemmtilegu móttökur og héldum okkur enn við gömlu jeppaslóðina sem var ótrúlega greinileg ennþá. Samt var eins og áður var sagt víða runnið úr henni og víða ógreinileg. Þegar á Staðarheiðina var komið var eins og gatan hefði varðveist betur og var býsna góð.  Því var það að okkur miðaði bara nokkuð vel áfram og komum niður í Grunnavík vel fyrir kvöldmál.

Við ármót Dynjandis og Múladalsár
Við ármót Dynjandis og Múladalsár

        Í þá daga  voru þá  flestar byggingar í Grunnavík enn að mestu leyti  í þokkalegu ástandi. Við ókum inn í þorpið og  staðnæmdust fyrst við kirkjuna. Þarna og víða á vestfjörðum heitir kirkjustaðurinn bara “Staður”,

Við skoðuðum kirkjuna og héldum smáfund um framhald ferðarinnar. Sigfús sagði okkur að hann hefði heimild til að útvega okkur gistingu í yfirgefnum bæ aðeins utar með víkinni þar sem að allir sem vildu gætu gist. Var því haldið aftur af stað en til að komast í næturstað urðum við að fara yfir brú á ánni sem rann niður í miðja víkina. Að sjálfsögðu heitir hún “Staðará”. Á henni var þá allþokkaleg brú sem þó var farin að láta á sjá, bæði handriðin voru þó enn á brúnni en ekki var hún mjög traustvekjandi,  brúin sjálf virtist þó óskemmd. Við tókum því áhættuna á því að aka yfir hana.

Spilverk í mýrinni í Dynjandisdal
Spilverk í mýrinni í Dynjandisdal

Það tókst bara vel, allir komust yfir og brúin hélt.  Þegar ég kom þarna næst, 17 árum seinna var brú þessi alveg horfin og ekkert að sjá nema part af nyrðri brúarstöplinum.

 Því næst var stefnan sett á bæinn Naust utar við víkina þar sem ætlunin var að gista næstu nótt. Þegar þangað var komið fór Sigfús fyrstur inn og kannaði aðstæður, hann kom síðan og tjáði okkur að allt væri í stakasta lagi og fórum við við því inn til að skoða bæinn. Þarna var um að litast eins og að fólkið hefði rétt brugðið sér í næsta hús.

Við Flæðareyri í Jökulfjörðum, samkomuhús Grunnvíkingafélagsins
Við Flæðareyri í Jökulfjörðum, samkomuhús Grunnvíkingafélagsins

Öll húsgögn á sínum stað og í eldhúsi voru diskar, pottar og pönnur allt í sínum skápum, sem sagt allt eins og íbúarninr hefðu rétt skroppið út. Upp á lofti voru rúm og rúmstæði með dýnum í allt tilbúið til notkunar.

        Ekki leist nú öllum samt vel á að gista þarna, sumum fannst eins og við værum að ráðast inn í einkahíbýli annarra og vildu þessvegna alveg eins halda til í bílunum eina nótt enn. Við Hrafn, Sigfús, Gunni og Svenni Jakobs hreiðruðum um okkur á svefnloftinu og létum fara vel um okkur.

Komin á gamla veginn á Staðarheiði, séð niður í Grunnavík
Komin á gamla veginn á Staðarheiði, séð niður í Grunnavík

Við notuðum samt öll aðstöðuna til að elda dýrindis máltíð um kvöldið og nutum þess að hafa svona góða og sérkennilega aðstöðu. Sigfús hafði margt að segja um líf og starf þess fólks sem þar hafði búið og jafnframt um æsku sína og uppvaxtarár í Grunnavík. Áttum við þarna mjög skemmtilegt og notalegt kvöld

Ekki var laust við að sumir okkar sem sváfu inn í bæjarhúsunum yrðu varir við einhverja ókyrrð um nóttina og spunnust um það talsverðar umræður daginn eftir.

Fyrst var staðnæmst við kirkjustaðinn Stað í Grunnavík
Fyrst var staðnæmst við kirkjustaðinn Stað í Grunnavík

        Daginn eftir sem var sunnudagur var veðrið enn mjög ljúft og gott. Í víkinni var blankalogn og bærðist ekki hár á höfði. Við byrjuðum á því að biðja Ísafjarðarradio að gefa okkur samband við skrifstofu Djúpbátsins til að kanna hvenær  Fagranesið gæti sótt okkur og ferjað okkur yfir djúpið til Ísafjarðar.

Var okkur þá tjáð að það yrði ekki fyrr en seinnipart dagsins, eftir að Fagranesið lyki fastri áætlunarferð sinni um djúpið.  Við höfðum því nokkuð góðan tíma til að litast um í Grunnuvík og notfærðum okkur óspart kunnugleika Sigfúsar um svæðið, því hann var heill hafsjór af fróðleik um fólkið og sögu þess. Við héldum síðan áleiðis að höfn þeirra Gunnvíkinga, þar sem eina bryggja staðarins var. Reyndist hún hafa látið talsvert á sjá vegna skorts á viðhaldi í áraraðir og var bryggjugólfið farið að gefa sig allmikið. Þó töldum við að enn væri hægt að leggjast að henni að við gætum ekið bílunum að skipshlið.

        Undir kvöldið fengum við svo fregnir um  að Fagranesið væri lagt af stað til okkar og innan tíðar birtist það svo á fullu stími inn víkina. Báturinn lagðist svo að bryggjugreyjinu og við ásamt áhöfninni tókum til við að koma bílunum um borð. Fljótlega kom í ljós að aðeins var pláss fyrir þrjá bíla á dekkinu og þá vandaðist málið því að skipstjórinn var ekki áfjáður í að taka fleiri bíla með sér en þá sem komust fyrir þar. Eftir nokkurt þóf náðist þó samkomulag um að hífa þá þrjá sem komust á dekkið um borð og sjá svo hvað hægt yrði að gera í málinu.

Hópurinn sem tók þátt í fyrstu ökuferð til Grunnavíkur við kirkjuna á Stað. 
Frá vinstri: Ragnar, Hrafn, Garðar, Sveinn, Anna Steina, Gunnar, Ásdís, Stefán
Hópurinn sem tók þátt í fyrstu ökuferð til Grunnavíkur við kirkjuna á Stað. Frá vinstri: Ragnar, Hrafn, Garðar, Sveinn, Anna Steina, Gunnar, Ásdís, Stefán

Var Ragga bíll tekin fyrst, síðan Stebbi og svo Gunni Garðars, þá var allta orðið fullt.  Hvað átti að gera við þann fjórða?  Eftir miklar bollaleggingar kom fram sú hugmynd hvort ekki væri i hægt að hafa minn bíl hangandi í bómunni yfir djúpið vegna þess hve gott var í sjóinn, blankalogn og ládauður sjór. Ég og skipstjórinn féllumst á það og var síðan hafist handa um að hífa bílinn um borð og ganga frá honum eins tryggilega og hægt var við þessar aðstæður.

Ekið var yfir brúnna á Staðará, Sútarabúðir í baksýn
Ekið var yfir brúnna á Staðará, Sútarabúðir í baksýn

 Skipshöfnin kom fyrir tveimur tunnum rétt innan við borðstokkinn, eina fyrir afturhjól og aðra fyrir framhjól og síðan var bílnum slakað niður þannig að hann tyllti hjólunum vinstra megin í tunnurnar en hékk að öðru leyti í bómunni og hægri hjólin héngu bæði fyrir utan borðstokk.

Siðan var allt bundið og njörvað fast eins og tök voru á og þá vorum við tilbúin til brottferðar.

        Siglingin yfir djúpið tók ekki nema um klukkustund og gekk eins og í sögu. Eins og áður sagði lék veðrið við okkur, djúpið var eins spegill yfir að líta og var ferð þessi öll hin ánægjulegasta. Er til Ísafjarðar kom var allt dótið híft upp á kajann og þegar að við höfðum gert upp okkar mál var stefnan tekin beint til Suðurnesja  því að öll þurftum við að mæta til vinnu á morguninn eftir, sem við og gerðum.

Stefán var næstur um borð
Stefán var næstur um borð

 En ansi held ég að það hafi verið orðnir lúnir og svefnþurfi ferðalangar sem mættu til vinnu þann mánudagsmorgun sem fylgdi á eftir.

Ragnar hífður um borð í Fagranesið, hinir bíða
Ragnar hífður um borð í Fagranesið, hinir bíða

        Þannig lauk þessari fyrstu ökuferð til Grunnavíkur og Jökulfjarða árið 1975.

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins var haldinn 28. maí s.l.

Auk venjulegra aðalfundastarfa var kosin nýr formaður, en Hlíf Guðmundsdóttir sem gegnt hefur stöðu formanns um langt skeið gaf ekki kost á sér. Í ávarpi sem Rannveig Pálsdóttir hélt að þessum tímamótum kom fram m.a;  „Hlíf Guðmundsdóttir lætur nú af störfum sem formaður félagsins. Hún hefur gegnt formannsembættinu í 35 ár, þ.e. allt frá árinu 1979 er hún tók við af Kristjáni Guðjónssyni. Hlíf hefur unnið óeigingjarnt starf fyrir félagið og komið að ýmsum málum í þágu þess. Má þar nefna t.d. hve hún vann ötullega að útkomu Grunnavíkurbókar  ásamt bókanefnd. Hlíf er úrræðagóð, samviskusöm, skipulögð, góður stjórnandi og framúr skarandi traustur félagi. Hlíf hefur alltaf haft veg og vanda af Flæðareyrarhátíðinni. Þar þarf góða skipulagningu og vinnu svo að vel til takist að halda svo stóra hátíð sem Flæðareyrarhátíðin er. Á meðan allir skemmtu sér á hátíðinni er hún vakin og sofin yfir henni. Hún er mætt allra fyrst og fer síðust af vettvangi.

Ég veit að hún hlakkar til að fá að sitja í brekkunni og horfa á skemmtiatriðin eins og við hin,en það hefur hún aldrei gert öll þessi ár. Hugsið ykkur það.

Við viljum fyrir hönd félagsins þakka Hlíf fyrir farsælt og óeigingjarnt starf að málefnum Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði sem formaður þess og þökkum samveruna í þessi 35 ánægjulegu ár. Við munum sakna þín Hlíf“

Nýr formaður var kostin Rannveig Pálsdóttir og aðrir í stjórn; Óskar Kárason, Brynjar Ingason, Elvar Ingason og ný í stjórn Salóme Elín Ingólfsdóttir.

Fréttabréf maí 2014

Ágætu Grunnvíkingar!

 

Eftir umhleypingasaman vetur er vorið komið og þá er tímabært að huga að síðustu atburðum starfsársins hjá okkur Grunnvíkingum.

Af vetrarstarfinu er það að frétta að aðventudagurinn var á hefðbundnum tíma og allt honum tilheyrandi með sama sniði og verið hefur í gegnum árin. Þorrablótið var í Hnífsdal 8. febrúar og var ekki annað að sjá en gestir skemmtu sér þar vel.

Á síðasta ári var nýting á Höfða sumarhúsimeð allra besta móti. Pantanir fyrir sumarið eru farnar að berast, þannig að þeir sem vilja nýta sér húsið í sumar ættu að athuga með lausan tíma sem fyrst, hvort sem um viku eða helgarleigu er að ræða. Helgina 10.-12. maí ætla sunnanmenn í vinnuferð í Höfða. Umsjónarmaður Höfða er Ægir Ólason, sér hann um úthlutun og gefur upplýsingar um húsið í síma  561-1687 eða 847-8180. Einnig er hægt að senda honum póst á netfangið aegirogthora@simnet.is.

Heimasíða félagsins sem Ernir Ingason sér um vex og dafnar. Þar er að finna myndir og ýmsan fróðleik og upplýsinga s.s. um sögu félagsins, Grunnvíkingabók, Höfða o.fl. Ernir hefur verið ötull við að safna efni og biður þá sem eiga í fórum sínum gamlar myndir sem þeir vilja lána til að setja inn á síðuna að hafa samband við sig. Einnig eru allar ábendingar um efni vel þegnar. Undir hornstrandir.is er tengill á Grunnvíkingafélagið á Ísafirði. Einnig eru félögin hér vestra og fyrir sunnan með sameiginlega facebook síðu.

Sumarkaffinu sem verið hefur fastur liður á þessum árstíma höfum við frestað þar til seint í sumar eða hausts. Það verður auglýst með götuauglýsingum, á heimasíðu félagsins og með tölvupósti til þeirra sem við höfum netföng hjá

Aðalfundur félagsins verður í Kiwanishúsinu á Ísafirði miðvikudaginn 28. maí. kl. 20:00. Auk venjulegra aðalfundarstarfa þurfa félagsmenn að kjósa sér nýjan stjórnarmann og formann. Við hvetjum alla til að mæta á fundinn og hafa þar með áhrif á starf félagsins. Og að sjálfsögðu eru allir nýir félagar boðnir velkomnir.

Vinnuferð í Flæðareyri. er ráðgerð í júní. Þar á að skipta um glugga í eldhúsinu og klæða það að innan. Þá þarf fljótlega að skipta um glugga í salnum og ofna og lagnakerfi í húsinu

Stefnt er að því að messað verði að Stað í Grunnavík í sumar. Nánari upplýsingar verða settar inn á heimasíðuna okkar þegar þær liggja fyrir.

Árlega seljast nokkur eintök af Grunnvíkingabókinni. Auk þess að vera til sölu hjá stjórn félagsins er hægt að fá hana hjá Inga Jóhannessyni s. 456-3646, Kristjáni Friðbjarnarsyni s. 456-3589 og Matthildi Guðmundsdóttur s. 456-7295 hér fyrir vestan. Fyrir sunnan fæst hún hjá á Kristbirni Eydal s. 581-2918  og Valgerði Jakobsdóttur s.554-3583. Bókin kostar 5000 kr.

Með bestu kveðjum.

    Fyrir hönd stjórnar Grunnvíkingafélagsins

Hlíf Guðmundsdóttir

Fréttabréf Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði í nóvember 2013.

Ágætu Grunnvíkingar!

 

Í upphafi vetrar hittist stjórn Grunnvíkingafélagsins og lagði drög að fréttabréfi haustsins. Það sem helst hefur borið við hjá okkur frá því síðasta bréf barst ykkur er eftirfarandi:

 

Aðalfundur: Á aðalfundi félagsins s.l vor var gengið frá þeim lagagreinum félagsins sem vísað hafði verið til frekari skoðunar árinu áður. Eftirfarandi greinar voru samþykktar:

   

8. gr. Ákvörðun um að slíta félaginu eða sameina það öðrum félagsskap skal tekin á aðalfundi og skal tillaga þess efnis koma fram í fundarboði til aðalfundar. Til að slíta félaginu þarf samþykki ¾ hluta fundarmanna.

 

9. gr. Verði félagið lagt niður skulu eigur þess seldar og andvirði þeirra renna í sjóð til viðhalds kirkjunum að Stað í Grunnavík og í Furufirði.

 

10. gr. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða.

  

Þá tilkynnti Hlíf formaður félagsins að á næsta aðalfundi þyrftu félagsmenn að kjósa sér nýjan formann þar sem hún gæfi ekki lengur kost á sér í stjórn félagsins. Félagsmenn þurfa því að fara að leita sér að nýjum formanni og eru ábendingar í þá átt vel þegnar.

   

Flæðareyri: Að venju var farin vinnuferð í Flæðareyri. Allt timburverk var rifið innan úr eldhúsinu og gert við loftbita. Ástæða lekans sem vart varð við í fyrravetur fannst, gamalt ónotað niðurfall og var því lokað. Einnig var þrifið og litla herbergið hægra megin við sviðið málað. Til stendur að skipta um glugga í eldhúsinu og klæða það að innan næsta sumar og í framhaldi af því að setja upp nýja innréttingu. Þá er fyrirliggjandi að skipta þarf um aðra glugga í húsinu og endurnýja ofnakerfið.

   

Höfði. Aðsókn að Höfða í sumar var sú besta síðan við eignuðumst húsið og komust færri að en vildu. Gott útlit er fyrir veturinn og þeim sem ætla sér ákveðinn tíma þar er bent á að panta með góðum fyrirvara. Höfði er í umsjón Þóru Einarsdóttur og Ægis Ólasonar og gefa þau allar nánari upplýsingar í síma 845-6090. Einnig er hægtsenda þeim póst á netfangið aegirogthora@simnet.is.

 

Heimasíða félagsins sem Ernir Ingason sér um vex og dafnar og margt skemmtilegt er þar að finna. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við hann með ábendingar um efni og að lána myndir sem leynast í gömlum albúmum til að skanna inn á síðuna. Þetta er síðan okkar allra og við þurfum að hjálpast að við að gera hana sem veglegasta. Undir hornstrandir.is. finnið þið tengil á Grunnvíkingafélagið á Ísafirði.

 

Grunnvíkingabók: Árlega seljast nokkur eintök af Grunnvíkingabókinni. Auk þess að vera til sölu hjá stjórn félagsins er hægt að fá hana hjá Inga Jóhannessyni s. 456-3646, Kristjáni Friðbjarnarsyni s. 456-3589 og Matthildi Guðmundsdóttur s. 456-7295 hér fyrir vestan. Fyrir sunnan fæst hún hjá á Kristbirni Eydal s. 581-2918 Bókin kostar 5000 kr.

 

Nýir félagar. Á aðalfundi félagsins s.l. vor skráðum við nokkra nýja félagsmenn, ungt fólk sem á rætur sínar að rekja norður fyrir Djúp og vill hlúa að þeim. Við auglýsum áfram eftir fleiri félögum. Við erum fjölskylduvænt félag þar sem finna má eitthvað fyrir alla aldurshópa. Í lögum félagsins segir að félagsmenn geti allir þeir orðið sem átt hafa heima í Grunnavíkurhreppi, fjölskyldur þeirra, afkomendur, makar þeirra og aðrir velunnarar.

 

Netföng: Gott væri að fá netföng fleiri félagsmanna. Vinsamlegast sendið upplýsingar um ný eða breytt net og heimilisföng á hlif@simnet.is

 

Það sem er framundan: Búið er að ákveða eftirfarandi dagskrá vetrarins og tilnefna fólk í nefndir.

 

Aðventufagnaður verður í Kiwanishúsinu Sigurðarbúð fyrsta sunnudag í aðventu, 1. desember kl. 15:00.

 

Aðventufagnaðurinn er fjölskylduskemmtun með aðaláherslu á börnin. Með aðventufagnaðinum hefjum við undirbúning jólanna, föndrum, spjöllum, syngjum og spilum bingó, um leið og við röðum í okkur smákökum og öðru góðgæti, ásamt tilheyrandi drykkjum. Við hvetjum fólk til að koma í Sigurðarbúð þennan dag þó það sé barnlaust, flétta sér eina körfu eða músastiga og upplifa stemminguna.

 

Þorrablótið verður í Félagsheimilinu í Hnífsdal 8. febrúar.Búið er að panta húsið og semja við hljómsveit.

 

Sumarkaffið verður um sumarmálin. Dagsetning á því verður ákveðin í samráði við nefndina.

 

Eftirfarandi fólk hefur verið tilnefnt í nefndir félagsins þetta árið.

 

 

 

Aðventunefnd:

Hlíf Guðmundsdóttir

Sigrún Elísabet Halldórsdóttir

Hulda Veturliðadóttir

Hákon Óli Sigurðsson

Birkir Stefánsson

 

Sumarkaffisnefnd:

Sigrún Guðmundsdóttir

Brynjar Ingason

Sævar Gestsson

Gerða Helga Pétursdóttir

 

Þorrablótsnefnd:

Rebekka Pálsdóttir

Kristín Oddsdóttir

Matthildur Guðmundsdóttir

Rúnar Eyjólfsson

Sig. Bjarki Sigurvinsson

Hafþór Gunnarsson

Vésteinn Rúnarsson

Salome Ingólfsdóttir

Elvar Ari Stefánsson

Eva Karen Sigurðardóttir

 

 

Stjórn Grunnvíkingafélagsins skipa:

Hlíf Guðmundsdóttir, formaður, s. 456-4321

Brynjar Ingason, gjaldkeri s. 456-5215

Rannveig Pálsdóttir, ritari s. 456-3696

Elvar Ingason meðstjórnandi s. 456-3478

Óskar Kárason, meðstjórnandi s 456-4252

 

 

 

 Með bestu kveðjum.

 Fyrir hönd stjórnar Grunnvíkingafélagsins

 

 

 

Útsaumur o.fl.

Heimildarmaður: Guðrún Jakobsdóttir

Ég undirrituð á í fórum mínum slitur af gömlu söðuláklæði. Sá eigandi sem ég fyrst veit um hét Matthildur Giteonsdóttir fædd 31. janúar 1851 að Sútarabúðum í Grunnasveit, dáinn í Reykjafirði í maí 1890, maður Benedikt Hermannsson. Pjatlan er nú 50 x 46 cm en því er hún ekki stærri nú að þegar amma mín Ketilríður, síðari kona Benedikts Hermannssonar kom í Reykjarfjörð var ekki annað eftir, þar var sem sé verið að nota efnið í bætur og leppa inn í skó, svo var fátæktin þá. Efnið er íslensk ull, glitofin einskefta, munstur og litur auðvitað slitið en þó ekki meir en svo að í vetur hef ég haft það að tómstundaiðju að sauma munstrið með gópilínsaum, en á það vantar.

Telji ég til hannyrða það sem unnið var að á mínu bernsku heimili vil ég byrja á að geta þess að í bernsku minni var heimilisiðnaður unninn þar flestum stundum, þeim sem ekki fóru til matargerðar eða útiverka og ef til vill kann ég ekki að greina þar nógu glöggt á milli. Hvað var heimilisiðnaður? Hvað voru hannyrðir?       Mitt bernskuheimili var mannmargt og allir skór unnir heima og fatnaður hverskonar. Það var mikil og erfið vinna til dæmis að gera leðurskó úr svokölluðu trollaraleðri. Það var þykkt og óþjált og þeir skór voru ekki bryddaðir heldur lögð snærissnúra meðfram varpinu og saumað eða varpað þétt yfir með tvöföldum togþræði auðvitað heimaunnum. En þetta leður kom faðir minn með þegar hann kom úr veri eða frá því að ganga í brún og aðstoða við eggjatöku í Hornbjargi, öllu heldur að fá að vera með í því starfi, þar var mikla matbjörg að fá.      En leðrið fékk hann þannig að skipt var á eggjum eða prjónafatnaði eins og sokkum og vettlingum við skipverja á skipum sem leituðu inn á Hornhöfn. Einnig man ég eftir frá þessum vöruskiptum svokölluðu beinakexi hörðubrauð. Svo voru gerðir skór úr selskinnum og sauðskinnsskórnir eru nú allstaðar þekktir á þessu landi.

Ég var ekki gömul þegar ég fékk að reyna að sauma saman á tá og hæl á skæðunum í skóna mína og svo að leggja niður við bryddinguna.      Það var meiri vandi að varpa skó svo vel færi, því var það amma mín Ketilríður Jóhannesdóttir sem hagræddi því.      12 ára gömul kom ég á bæinn Dynjanda á svo gatslitnum skóm að bæturnar sem áttu að vera til hlífðar stóðu út um götin. Ég bað húsmóðurina um nál og þráð. Hún léði mér nál og seimi, öllu heldur stykki af þurrkuðum sinubíld af hval og þar af var rifin tægja sem kölluð var seimi, þrælsterkur þráður, notaður við skósaum og við brókargerð. (Skinnbrækur).       Mér hefur dvalist við skósauma vegna þess að sá þáttur í þeirri mynd sem var er horfinn úr vinnuþætti heimilanna. Mamma sagði mér að ein vinnukonan sem var hjá ömmu hefði verið heilt vordægur að gera brúðarskóna en svo vel hafi þeir verið gerðir að hvergi hafi sést í þráðinn sem notaður var (á réttunni). Þeir skór voru auðvitað úr lituðu sauðskinni, bryddaðir með hvítu eltiskinni.       Ég var innan við fermingaraldur þegar ég lærði að bregða hrosshársgjarðir. Það lærði ég af gömlum manni, Jakobi Jenssyni sem stundaði þá iðju á vetrarkvöldum. Ég man nokkuð um hvernig hrosshársspuni fór fram, hef oft ætlað að reyna það verk en ekki hefur af því orðið.

Ég var barn að aldri þegar amma kenndi mér að merkja með krosssaumi. Ég byrjaði svo sem á stafaklút en lauk aldrei við hann, á ennþá það sem ég saumaði sem var einfaldasta gerð af stafrófinu. Hinsvegar man ég enn hvað ég dáðist oft af tösku sem elsta systir mín, Jóhanna, 10 árum eldri en ég, gerði úr pappa og setti á bakvið stafaklútinn sinn. Hann var saumaður með nokkrum stafagerðum og ártali, smá rósabekkur þar fyrir utan og snúra. Taskan var eins og hálfhringur í laginu með fléttuðu haldi svo hægt var að hengja hana á rúmmaran með saumadótinu í.      Sem unglingur lærði ég af henni að sauma kantarsting og flatsaum, fékk að sauma út í svæfilver og fleira.      Í mínum barnaskóla var ekki kennd handavinna, það voru aðeins fáir mánuðir í farskóla. Amma mín Ketilríður fædd 14. oktober 1868 þótti sérstaklega vel verki farin kona og vandvirk. Hún eignaðist fyrstu saumavélina sem til var í Grunnavíkurhreppi norðan Skorarheiðar. Auk þess smíðaði maður hennar Benedikt Hermannsson vefstól handa henni, það var því margur sem til hennar leitaði til að koma ull í fat. Hún kunni líka að koma mjólk í mat. Amma var mikil tóvinnukona og óf bæði vaðmál og tvistdúk eftir það að ég man til verka.      Seinast setti hún upp vef í vefstólinn sem afi smíðaði veturinn 1935-1936.

Einn fyrsti fatnaður sem ég man sérstaklega eftir frá bernsku minni voru sunnudagakjólar móður minnar og elstu systur. Kjólarnir voru úr grænu vaðmáli ofnu í vefstólnum hennar ömmu úr heimaunnum þræði og ívafi auðvitað og lituðu en útsaumsmunstur með gulu bandi voru saumuð með lykkjuspori neðst á pilsinu með nokkru millibili, einnig fremst í ermarnar og við hálsmálið að framan. Mig minnir að munstrið minnti á slaufur.      Ég man einnig frá þessum árum að móðir mín átti hvíta sparisvuntu sem í var settur bekkur með harðangursmunstri í java eins og síðar var sett í sængurver heima.       Það var það langt á milli bæja á mínum heimaslóðum að ég get raunar ekki sagt frá útsaum annarsstaðar, þó veit ég að á mínum æskuárum var töluvert um útsaum og aðra handavinnu á flestum heimilum á Ströndum.      Þó finnst mér að amma mín Ketilríður hafi löngum haft sér álit í viðgerð á fatnaði, man að henni var sendur sparifatnaður og fleira til viðgerðar ef óhöpp höfðu hent eins og brunagat eða rifið á nagla, allt var þetta hjá henni vandasöm handavinna eða hannyrðir þó ekki væri um rósasaum að ræða.

Móðir mín var einnig handlagin og vel verki farin en átti ekki margar frístundir til hannyrða á ungdómsárum mínum. En á sínum elliárum prjónaði hún mikið af laufaviðarvettlingum með rós í handabaki sem ég hef ekki orðið vör við að aðrar konur hafi gert á sama máta og þær hún og amma á undan þeim.

Á heimilum í Reykjafirði var enginn alinn upp í iðjuleysi.      Ég var orðin vel fullorðin þegar ég gerði mér grein fyrir að það hafi ekki alltaf verið fyrir að nauðsyn bæri til að af kasta því á stundinni sem við börnin vorum látin aðhafast heldur hitt það var verið að kenna okkur að vinna og nota tímann til þess en ekki í leik eða ólæti. Sunnudagar voru helgidagar með húslestri oftast fyrir hádegi og fyrir þann tíma voru ekki unnin nema nauðsynlegustu verk. Um nón var talið eðlilegt að konur sinntu tómstundaiðju og réðu því hvað þær gerðu við sinn tíma ef ekki þurfti að vinna aðkallandi og óvænt störf. Þar var þá tími til fínni handavinnu þó sérstaklega yfir vetrarmánuðina.      

 

Þó það komi ekki útsaum við ætla ég að geta þess að sunnudags húslestur var síðast lesinn á Reykjarfjarðarheimilinu 9. desember 1938 en nokkur ár þar á eftir voru lesnir Passíusálmar. Frá þessum tíma var farið að hlusta á útvarpsmessur og þá var látið óátalið að setið væri við hannyrðir meðan hlustað var og var þá jafnvel sérstakt stykki sem saumað var eða prjónað á þeim tíma.      Ég á í fórum mínum slitinn kaffidúk sem ég saumaði aðeins á þeim tíma er ég hlýddi á útvarpsmessur
frá þessum árum, efnið í þann dúk pantaði ég frá Nýju kvennablaði, það var ekki farið í kaupstað þá til að kaupa efni. Ég minnist þess einnig að um líkt leyti saumaði móðir mín út krosssaumsmunstur í hvítan poka undan haframjöli og bjó til dúk á stofuborðið, hún prjónaði líka skakka eða hyrnu er hún hlýddi á útvarpsmessurnar.      

 

Ég get ekki tíma eða aldurssett hvenær var farið að kenna stúlkubörnum útsaum. Ef til vill skýrir þessi vísa sem afi minn kvað til móður minnar ungrar nokkuð. Að lítilli pjötlu leikur hér  lippar um sinn fingur undir skeggið svarta sér  sauma grundin stingur.      Telpur fengu gjarnan pjötlu og nál með þræði þegar konurnar voru að sníða og sauma fatnað og svo voru sporin löguð smá saman þar til sporið fékk ákveðið nafn sem afturstingur, kantarstingur, krossspor, flatsaumur, gópilín eða harðangurspor þegar ofið var yfir þræði og ekki má gleyma kappmelluspori. Ég man ekki hvað ég var gömul þegar amma kenndi mér að sauma hnappagöt og reyndar okkur systrum en ég var innan við fermingaraldur. En eitt var það að hún kenndi okkur að stoppa í sokka og flíkur og það urðu strákarnir að læra líka til að geta gert við sokka og vettlinga þegar þeir færu í verið. (til róðra)      Það þekkti ég að saumað var út í spariföt eins og milliboli og skjört, blússur, kjóla og pils, var þá gjarnan saumaður gatasaumur eða venesíenst í millibolinn sem notaður var undir peysufatapeysuna.      Á stríðsárunum saumuðu stúlkur sér kjóla úr hvítum mjölpokum og blússur og skreyttu með rósamunstri eða bekk sem oft var þá saumað með mislitu áróra eða perlugarni og notað lykkjuspor (þegar garn fékkst) en munstrin bjó gjarnan einhver til. Útsaumuð sængurföt þekki ég og punthandklæði, borðdregla og eldhúsgluggatjöld, sessur. Efni í þess háttar var hægt að kaupa áteiknuð í hannyrðaverslun á ísafirði ef ferð féll og til voru krónur. Þá var það og til um 1940 og þar eftir að ef einhver átti áteiknaðan púða eða dúk að önnur fékk að draga munstrið upp á pappír, bleyta hann í olíu svo hann var gegnsær svo var munstrinu breytt lítið eða mikið og notað á fleiri stöðum.      Víst er ég á annað borð byrjuð að segja frá kem ég að því til að vera trúverðug eins og mér var kennt í uppvexti að segja frá að ég tel að eins og víða segir. Hver og einn á sína sögu og ég á einn kafla.

Svo heimildin sé sönn verð ég að byrja á byrjuninni.      

Haustið 1948 kom í réttir í Reykjafirði ær nýlega borin með gimbrarlamb sem faðir minn átti. Á stundinni fannst honum eðlilegast að lífdagar lambsins yrðu ekki fleiri og bað nærstaddan son sinn rétta sér eggjárn sem hann vísaði á en þá barst óvænt hróp frá ungri stúlku, pabbi, pabbi gerðu það ekki. Það má segja að hann hafi fleygt í mig lambinu um leið og hann sagði þú mátt þá eiga það, þú getur alið það í fjósinu og heiglað því um leið og þú mjólkar kýrnar.      Margar gjafir gaf faðir minn mér en ég get ekki fundið nokkra dýrmætari því þarna gaf hann mér líf. Þetta var upphaf þess ásetnings míns að verja arðinum frá skepnunni í eftirminnilegan grip. Efni voru á þessum árum af skornum skammti en haustið 1950 kaupi ég mér fyrir fyrsta arðinn af skepnunni svart svokallað peysufatasatín og silkigarn til að sauma mér kirtil en þá var að fá munstur. Ég náði hvergi til þess svo ég bjó það til sjálf og aðferðin var sú að ég sleit blöð af blómunum, klippti þau til, raðaði þeim saman og dró línur umhverfis. Þá var til smjörpappír sem hægt var að nota. Það tók margar tómstundir að koma þessu saman og þegar kom að því að fara að draga upp í efnið átti ég bara eina örk á stærð við þetta blað af dökkbláum kalkipappír sem illa sást í efninu. Því varð ég að taka bara eitt munstur í einu og þræða í kring.

Þar með voru blöðin fengin og þau áttu að vera græn. Ég var þá búin að vera á Laugardalsskóla svo saumaskapurinn var ekki vandamál.      En þegar kom að því að búa til nokkur blómamunstur fór ég og tíndi nokkur blóm úr bökkunum á bæjarlæknum og lagfærði þau og notaði litasamsetninguna til að sauma eftir.      Ég hafði þessa handavinnu ekki með mér þó ég færi í vinnu annarsstaðar, ég held núna að ég hafi óttast að þessi aðferð mín öll þætti flónsleg ef of margir vissu af.      Þegar ég settist að í Reykjahlíð við Mývatn haustið 1954 ákveðin í að gifta mig lét ég þó senda mér kirtilinn og lauk við að sauma hann fyrir brúðkaupið 19. mars 1955 og klæddist honum þá í fyrsta sinn.      Til gamans hef ég nú skráð þessa sögu því ég tel að þar tel ég felast lykilinn að því hvernig formæður mínar fóru að þegar þær vantaði munstur.      Og svona til uppörvunar fyrir mig sjálfa þá hafa tvær vígslubiskupsfrúr í Hólastifti klæðst þessum kirtli mínum þegar menn þeirra hafa tekið vígslu í Hóladómkirkju.      Lík ég svo þessum kafla.

                            Guðrún Jakobsdóttir

Um fornar rústir í Grunnavíkurhreppi

Heimildarmaður: Dagbjartur Majason

Ég er fæddur á Leiru í Jökulfjörðum og ólst þar upp til 10 ára aldurs. Leirubærinn var líklega kringum einn og hálfan kílómetra inn af Leirufirði. Mun ég nú lýsa áttum eins og þær voru í daglegu tali manna. Talað var um að fara vestur á Snæfjallaströnd, vestur á Ísafjörð, vestur í Bolungarvík og Hnífsdal. Frá þessum stöðum var aftur farið norður í Jökulfirði. Frá Leiru var farið út að Dynjanda, út á Sveit, sem voru bæirnir frá Dynjanda út að Staðarheiði og út í Grunnavík. Næsti bær við Leiru í átt til sjávar var Kjós. Það var farið ofan í Kjós, ofan í Tanga, sem eru fyrir botni Leirufjarðar en frá Kjós fram að Leiru. Sá sem fór ofaní Kjós var niðri í Kjós ekki ofaní Kjós. Það orðalag þekktist ekki. Höfuðáttirnar voru aldrei notaðar um það sem var í næsta nágrenni. Frá Leiru var talað um að fara norður í Furufjörð og Bolungarvík (á Ströndum) en austur í Reykjarfjörð í sama hreppi. Frá Leirubænum var farið uppá Leirufjall, fram að jökli og yfir í Dynjandisfjall sem er á móti bænum. Tíu ára gamall fluttist ég að Höfðaströnd sem er að sunnanverðu við Jökulfirði. Þaðan var kallað að fara inn að Höfða og bæjanna þar fyrir innan, inn að Hrafnfjarðareyri. Það var málvenja að segja og skrifa Hrafnfjörður og Hrafnfjarðareyri ekki Hrafns. Sömuleiðis er fyrri hluti nafnsins Grunnavík eins í öllum föllum samanber Grunnavíkur-Jón. Frá Höfðaströnd var kallað að fara yfir í Kvíar og þaðan yfir að Höfðaströnd. Segja má að það hafi verið föst regla að kalla það út sem var í átt til hafs. Það var til að sagt var að fara neðan brekkuna eða fjallið og ofan til baka. 

Eins og segir í skopvísunni:

Margt er skrýtið málfærið
Mönnum vestra lagið.
Að ganga neðan gelming með
Á gráum peys mitt hræið.

Algengara var að segja upp fjallið og niður fjallið.  Allir bæir, sem kenndir voru við vík eða fjörð höfðu forsetninguna í.  Í Barðsvík, í Furufirði.  Auk þess var sagt í Kvíum og í Sætúni.  Þeir bæir og kennileiti, sem nafnið endaði á eyri höfðu forsetninguna á, á Marðareyri, á Meleyri.  Þó var ein undantekning frá þessari reglu, það var samkomustaður Grunnvíkinga, hann var í Flæðareyri.  Og ennþá koma brottfluttir Grunnvíkingar saman í Flæðareyri á nokkurra ára fresti.  Nú er mín fæðingarsveit, þ. e. Grunnavíkurhreppur, öll í eyði nema Látravík, þar sem Hornbjargsviti er.  Á flestum býlum þar eru rústir einar, en á stöku stað standa ennþá hús, sem búið var í.  Ef einhver vildi kynna sér bæjarnöfnin get ég vísað til Grunnvíkingabókar, sem er nýlega komin út.  Þar eru nöfn á öllum býlum í hreppnum, sem vitað er til að einhverntíma hafi verið byggð.

Ekki veit ég mikið um fornar rústir í Grunnavíkurhreppi.  Efst á Lægrafjalli á Leiru er hóll, sem heitir Eyvindarhóll og sagður vera kenndur við Fjalla-Eyvind.  Þar mótar fyrir hleðslu.  Ekki þykir mér líklegt að Fjalla–Eyvindur hafi nokkurntíma hafst þar við.  Frá Leirubænum mun vera rúmlega einn km upp að þessum hól og um klukkutíma gangur inn að Hrafnfjarðareyri, þar sem Eyvindur bjó.

Í Reykjarfirði í Grunnavíkurhreppi var býli, nokkuð lengra frá sjó en Reykjafjarðarbærinn, það heitir Kirkjuból.  Það var í eyði þegar manntal var tekið 1703, en var öðruhverju búið þar á 19. öld fram yfir 1880.  Þar hefur verið kirkja og grafreitur, og ef ég man rétt, hafa þar fundist mannabein.  Um þetta þori ég ekki að fullyrða, en get bent á Guðfinn Jakobsson eða eitthvert hans systkina, sem gætu gefið betri upplýsingar um það.  Þau eru fædd og uppalin í Reykjarfirði.  Í Furufirði er bænhús og grafreitur.

Á Stað í Grunnavík er kirkja, sem var byggð um 1890.  Um það bil einn og hálfan km fyrir framan Stað, skammt frá Staðará, eru tóttir.  Þar heitir Fornibær.  Ekki hef ég heyrt neinar sagnir í sambandi við hann, hvort Staðarbærinn hefur einhverntíma verið þar, eða þar hafi verið sérstakt býli.

Á Staðareyrum eru rústir af verbúðum.  Þaðan var síðast róið haustið 1927 eða 1928.

Í innanverðum túnjaðrinum á Kollsá var blettur, sem kallaður var Þrælavirki.  Hann var rétthyrndur, á að giska 15 – 20 metrar á lengd og 8 – 12 metrar á breidd.  Gæti hafa verið stærri.  Hann var með greinilegri hleðslu allt í kring.  Um 1930 hurfu þessi ummerki, þegar plægt var yfir þetta svæði og allt sléttað út.

Í túninu á Hrafnfjarðareyri er sagt að Fjalla–Eyvindur sé grafinn.  Ekki veit ég sönnur á því.  Árin 1887 – 1894 bjó á Hrafnfjarðareyri Jón Eilífsson f. 16.10.1838, d. 1899, hann var frá Mávahlíð á Snæfellsnesi.  Jón þessi setti stein á leiðið og klappaði á hann:  Hér hvílir Fjallaeyvindur Jónsson.

Einn álagablett heyrði ég talað um á Leiru, en ekki man ég eftir neinum sögnum í sambandi við hann, annað en það, að ekki mátti slá hann.  Á Dynjanda var álagablettur í tungunni, þar sem saman koma árnar úr Dynjandisdal og Múladal.  Dynjandisdalur er austan við Tröllafell en Múladalur að vestan.  Ég hef heyrt að bóndinn í Neðribænum á Dynjanda hafi eitt sinn slegið þennan blett og skömmu seinna misst kú.  Var það sett í samband við álagablettinn.  Annar bóndi, Hallgrímur Jónsson, sem seinna kom að Dynjanda og bjó í Fremribænum, segir frá því í bók sinni „Saga stríðs og starfa“ að hann hafi einu sinni slegið álagablettinn og afleiðingarnar hafi ekki látið á sér standa.  Morgun einn um haustið, þegar hann kom í fjósið, var ein kýrin dauð á básnum.  Seinna, þegasr hann kom í fjárhúsið, var ein uppáhaldsærin dauð.  Um áramót höfðu sex ær drepist og var engin sjáanleg ástæða fyrir þessum faraldri.  Mig langar til að bæta hér við einni frásögn, eins og ég skrifaði hana í dagbók sama daginn og mér var sögð hún, en það var 10. mars 1946.  Fer hún hér á eftir:  Í dag sagði Friðbjörn Helgason, bóndi á Sútarabúðum, mér eftirfarandi sögu:  Þegar Friðbjörn var á þrettánda ári flutist hann með Hírami Veturliðasyni að Búðum, í Sléttuhreppi.  (Búðir eru í Hlöðuvík).  Var þá gamall maður í húsmennsku á Búðum.  Sagði hann Hírami frá álagabletti, sem væri á Búðum og ekki mætti slá.  Sagðist Híram ekki leggja neinn trúnað á slíkt og um sumarið slær hann blettinn, fær af honum 60 hesta af góðu heyi og segist ætla að ala lömbin á því um veturinn og sjá til, hvort þeim verði ekki gott af því.  Um haustið setur Híram 20 lömb á eldi.  Einn morguninn þegar hann kemur í fjárhúsið eru þrjú lömb dauð, föst á öllum fótum í grindunum.  Eftir það smá tínast þau upp, drepast með ýmsu móti, þar til eftir er einn geldingur ljómandi fallegur.  Er komið fram á vor og farið að hafa orð á því, að líklega eigi geldingurinn að fá að lifa.  En eitt kvöldið, þegar féð er látið inn, vantar hann.  Er leitað að honum og finnst hann hálsbrotinn í tótt á túninu.  Híram sló ekki álagablettinn eftir það.

Reykjavík í mars 1993.  Dagbjartur Majasson

 

Nýjar (gamlar) myndir

Nú erum við að birta 12 nýjar (gamlar) myndir með tengingu úr Reykjarfirðinum, undir Myndir - Grunnvíkingar. Mikið væri það ánægjulegt og vel þegið ef fleiri myndu nú gauka að okkur gömlum myndum úr hreppnum

Viðgerðarferð að Flæðareyri - Sjálboðaliðar óskast

Fyrirhugað er að fara í viðgerðarferð að Flæðareyri 5. - 7. júlí n.k.
Sjálfboðaliðar -karlar - konur eru velþegnir, séð verður fyrir ferðum - fæði og húsnæði.
Upplýsingar gefa stjórnarmenn.

Sumarkaffi Grunnvíkingafélagsins 2013

Sumarkaffi Grunnvíkingafélagsins var haldið að Hótel Ísafirði sunnudaginn 12.maí s.l. Mæting var mjög góð, yfir 60 manns mættu og gæddu sér á stórglæsilegum veitingum, röbbuðu saman og sungu nokkur sumarlög.