Loading...

Fréttabréf Grunnvíkingafélagsins apríl 2013

Ágætu Grunnvíkingar!

Þó töluverður snjór sé ennþá verður vorið komið áður en við vitum af og vor og sumarverkin taka við. Hjá okkur Grunnvíkingum eru það sumarkaffið og aðalfundurinn í maí og síðan vinnuferð í Flæðareyri.     

Af vetrarstarfinu er það að frétta að aðventudagurinn var á hefðbundnum tíma og allt honum tilheyrandi með sama sniði og verið hefur í gegnum árin. Þorrablótið var vel sótt í Hnífsdal 9. febrúar. Skemmtinefndin fór þar á kostum og ef hugmyndir hennar ganga eftir þurfum við ekki að kvíða því að eldast með félaginu.

Nýting á Höfða sumarhúsihefur verið ásættanleg það sem af er árinu. Búið er að panta hluta af maímánuði, fullbókað er í júní og júlí og fram til 9. ágúst. Umsjónarmaður Höfða er Ægir Ólason, sér hann um úthlutun og gefur upplýsingar um húsið í síma  561-1687 eða 847-8180. Einnig er hægt að senda honum póst á netfangið aegirogthora@simnet.is. Við hvetjum fólk til að nota húsið, hvort sem um viku eða helgarleigu er að ræða.

Heimasíða félagsins sem Ernir Ingason sér um vex og dafnar. Hann hefur verið ötull við að safna efni og biður þá sem eiga í fórum sínum gamlar myndir að norðan sem þeir vilja lána til að setja inn á síðuna að hafa samband við sig. Einnig eru allar ábendingar um efni vel þegnar. Undir hornstrandir.is er tengill á Grunnvíkingafélagið á Ísafirði.

Á síðasta aðalfundi félagsins var ákveðið að setja inn í lög þess greinar sem kveða á um slit á félaginu ef til þess kemur. Sendur var tölvupóstur til þeirra sem við höfum netföng hjá og óskað eftir hugmyndum um hvað verða ætti um eigur félagsins ef það yrði lagt niður.

Tillaga stjórnar er að við núverandi lög bætist eftirfarandi greinar:

9. gr. Tillaga um að slíta félaginu eða sameina það öðrum félagsskap skal koma fram í fundarboði til aðalfundar. Til að slíta félaginu þarf samþykki ¾ hluta fundarmanna.

10. gr. Verði félagið lagt niður skulu eigur þess seldar og andvirði þeirra renna í sjóð til viðhalds kirkjunum að Stað í Grunnavík og í Furufirði.

Greidd verða atkvæði um þessar tillögur á aðalfundinum í maí.

Sumarkaffið verður sunnudaginn 12. maí á Hótel Ísafirði kl.15:00.

Með sumarkaffinu viljum við þakka eldra fólkinu okkar fyrir það sem það hefur lagt til félagsins og jafnframt gefa félögum tækifæri til að hittast, spjalla saman og fagna sumri um leið og notið er góðra veitinga. Við hvetjum fólk til að gera sér dagamun og mæta í kaffið.

Aðalfundur félagsins verður í seint í maí. Hann verður auglýstur með götuauglýsingum og tölvupósti til þeirra sem við höfum netföng hjá.Við hvetjum félagsmenn til að mæta á fundinn og að sjálfsögðu eru allir nýir félagar boðnir velkomnir. Við þurfum fleiri félaga svo ekki þurfi að reyna á nýju lagagreinarnar.

Með bestu kveðjum.

    Fyrir hönd stjórnar Grunnvíkingafélagsins

Hlíf Guðmundsdóttir

Bænhúsið í Furufirði

"Mest af öllu kvarta þó Strandamenn yfir erfiðleiknum og kostnaðinum við að flytja lík til greftrunar, enda er það engin furða. Það má vissulega svo að orði kveða að ómögulegt sé að flytja þungar líkkistur norðan af Ströndum að Stað í Grunnavík, einkum að vetrinum enda hefir það komið fyrir að menn hafa neyðzt til að skilja eftir líkkistur á fjöllum uppi og láta þær bíða þar svo vikum hefur skipt vegna þess að ómögulegt hefir verið að halda áfram ferðinni hríðar og ófærðar vegna..."

Þannig lýsir Jón Arnórsson bóndi á Höfðaströnd og hreppstjóri Grunnavíkurhrepps þeim erfiðu aðstæðum sem menn á Ströndum bjuggu við undir lok 19. aldar. Fyrr á öldum var ástandið betra því líklega hefur verið bænhús í Furufirði frá fornu fari og því þjónað af prestinum á Stað í Grunnavík. Furufjörður var í eyði snemma á 18. öld þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín settu saman Jarðabók sína en í bókinni er getið um að meðan jörðin var í byggð hafi verið embættað tvisvar á ári og menn gengið til altaris. Jörðin byggðist aftur en prestsþjónusta komst ekki á heldur þurftu íbúar nú að sækja þá þjónustu til Grunnavíkur.

Það var ekki fyrr en undir lok 19. aldar sem tók að hilla undir að bænhús yrði reist að nýju í Furufirði. Árið 1894 hét viðlagasjóður Sparisjóðs Ísafjarðar því að leggja 500 kr. til bænhúss í Furufirði að því tilskyldu að húsið yrði komið upp fyrir aldarmótin. Sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu lagði til 300 kr. og á fundi bænda sem haldinn var í Furufirði veturinn 1896 var heitið 200 kr. framlagi í samskotum.

Lokið var við að reisa bænhúsið sumarið 1899 og hafði Benedikt Hermannsson bóndi í Reykjarfirði yfirumsjón með verkinu. Benedikt gaf og hjó til úr rekaviði grindina í húsið en Norðmenn sem ráku hvalveiðistöð á Meleyri í Veiðileysufirði gáfu panelklæðningu í húsið. Benedikt og Ketilríður Jóhannesdóttir kona hans gáfu klukku í bænhúsið og Benedikt smíðaði henni armböld og kom klukkunni fyrir.

Bænhúsið í Furufirði var vígt þann 2. júní 1902. Skyldi því þjónað frá Stað í Grunnavík og átti prestur að flytja þar fjórar messur að sumri en tvær að vetri. Notendur hússins áttu hins vegar að annast viðhald þess og sjá til þess að þar væru ávallt nauðsynleg áhöld til guðsþjónustu. Bændur á austurströndum greiddu til bænhússins og lítilsháttar kom af áheitum frá sveitungum. Þó hefur verið erfitt að láta enda ná saman, alla vega þegar sinna þurfti viðhald eins og sjá má á eftirfarandi yfirliti yfir rekstur bænhússins árið 1938 sem er að finna í minnisbók Árna Jónssonar, bónda í Furufirði:

 

Tekjur

 

    

Gjöld

 

Kirkjugjald af 47 m

kr.

58,75

 

Málning

kr.

34,64

Áheit G. Guðjóns

kr.

5,00

 

Vinna við málningu

kr.

14,00

Óli og Jói

kr.

2,00

 

Vísitasíulaun

kr.

15,00

Hjálmfríður

kr.

3,00

 

Brunabótagjald

kr.

6,75

Albert

kr.

1,00

 

Kerti

kr.

2,00

Samtals

kr.

69,75

 

Samtals

kr.

72,39



Erfiðleikar við að koma líkum til greftrunar voru ein helstu rökin fyrir því að reisa bænhús í Furufirði. Kringum bænhúsið í Furufirði er lítill kikjurgarður lautóttur og hnjúskóttur. Hann er nú vaxinn grasi með blómstrandi sóleyjum og blágresi. Girðingin er fallin en stærð garðsins er mörkuð með hornstaurum.

Flestir þeir sem létust í Grunnavíkursókn norðan Skorarheiðar eftir síðustu aldamót eru grafnir við bænhúsið. Nokkrir krossar standa upp úr gróðrinum og má þar lesa nöfn þeirra sem þar hvíla. Vitað er um nöfn felstra sem þar liggja og fá leiði óþekkt. Síðast var jaðrsett í Furufirði árið 1949.

Bænhúsið var líka notað til annarra kirkjuathafna, þar var skírt, fermt og gift. Síðustu fermingar og skýrnir áður en byggðin fór í eyði voru 1947 og 1950. Furufjörður fór í eyði sumarið 1950. Síðasti sóknarprestur byggðar norðan Skorarheiðar var sr. Jónmundur Halldórsson á Stað í Grunnavík.

Eftir að byggð lagðist af og þar til fyrrum ábúendur og afkomendur þeirra fór að dvelja yfir sumartímann í Furufirði upp úr 1970 var ekkert gert fyrir húsið og var það verulega farið að láta á sjá. Fyrir miðja síðustu öld fór fram viðgerð á bænhúsinu og var það þá bárujárnsklætt og málað. Þá mun loftið hafa verið málað blátt og á það settar gyltar stjörnur svo það líkist mest himinhvolfinu sjálfu þar sem lítill söfnuður situr undir í allri sinni smæð.

.

Blaðið Grettir 29.01 1894

Laugardaginn hinn 9. f. m. vildi enn á ný það hrapalega slys til, að bátur fórst hér á fjörðunum með 6 mönnum. Formennirnir, er reru frá Staðareyrum og voru í samlögum, voru Jón bóndi Guðmundson frá Marðareyri, 23 ára gamall, giftur ekkjunni þar fyrir 3 mánuðum, mesti efnis- og dugnaðarmaður, og Guðmundur Sigurðsson frá Höfða, einnig orðlagður dugnaðarmaður. Hásetar voru Frímann Stígsson frá Höfn, Ragúel Kristjánsson frá Marðareyri, Bjarni Guðlaugsson frá Leiru og Guðmundur Torfason frá Kjós, allir ungir og duglegir menn.

Deginum áður höfðu menn þessir ætlað í fiskiróður út undir Grænuhlíð, en vegna illviðris orðið að hverfa upp að Sléttu og gistu þar síðan aðfaranótt laugardagsins en með því að veður var þá enn verra með norðankafaldsbyl og frosti miklu,hættu þeir við róðurinn, en vildu heim á Eyrar (Staðareyrar), með því að vindur lá fremur vel á. Fóru þeir frá Sléttu um kl. 12 á laugardaginn og hafa sjálfsagt farist á þeirri leið á siglingu. það má með sanni segja, að Grunnavíkurhreppi eigi ekki úr að aka, þar sem svo að segja árlega sópast í sjóinn fleiri og færri hinna bestu, nýtustu og efnilegustu manna þeirrar sveitar.  

Það er að auðsætt, hversu sorgartilfelli þetta hrífur hina áður mæddu valinkunnu ekkju, Hansínu Tómasdóttir á Marðareyri, sem hefir fyrir mikilli fjölskyldu að sjá, einkum þegar litið er til þess, að tæp 3 ár eru liðin, síðan hún var þess sjónarvottur, er fyrri maður hennar drukknaði rétt fram undan bænum á Marðareyri, án þess að nokkur björgun væri möguleg.

 

Þakkarorð

Vesturland 10.06 1929


Þakkarorð

Hinn 29. maí  s. 1. vorum við undirritaðir að koma úr fiskiróðri í besta veðri. En er við komum á Grunnavík, skall á vestanveður svo snögglega, að sjór gekk þegar á bátinn og sökk hann undir okkur.
Héngum við á lóðabelgjum og öðrum munum úr bátnum og var lítil von um hjálp, því þetta var fyrir venjulegan fótaferðatíma og alllangt frá bæjum.


En hér fór öðruvísi en á horfðist. Bóndinn á Naustum, Elías Halldórsson var snemma á fótum þennan morgun og af athygli sinni veitti hann bátnum eftirtekt og sá er hann hvarf. Tókst honum með miklu snarræði, og sonum hans, er hlupu til hálfklæddir,að bjarga okkur. Var hér um æði langa leið að fara frá Naustum og að svonefndum Hlössum, þar sem báturinn sökk, og mun það nær einsdæmi að takast skyldi að ná okkur öllum lifandi í slíku stórviðri.


Þetta er ekki fyrsta sinni sem Elías bjargar mönnum úr sjávarháska, því fyrir fáum árum sökk bátur Hjartar Guðmundssonar í Hnífsdal framundan húsum Elíasar, og tókst honum þá að bjarga allri skipshöfninni, ellefu mönnum.


Fyrir lífgjöf þessa og alúðarviðtökur húsfreyjunnar og dætra þeirra hjóna, þegar á land kom færum við okkar innilegustu þakkir og treystum því að guð muni ekki láta slík verk ólaunuð. En það vitum við, að Elíasi Halldórssyni mundi ekki þykja sér með öðru betur launað, en hann fengi oftar tækifæri til að hjálpa mönnum, sem staddir væru í slíkri neyð sem við vorum.


Dynjanda 4. júní 1929.

Einar Ágúst Einarsson. Jóhannes Einarsson. Gestur Oddleifs Loftsson. Kári Samúelsson.

Ennfremur vil ég innilega þakka herra Jakob Elíassyni frá Ísafirði og mönnum hans, er komu á Grunnavík nokkru síðar, fyrir hjálp þeirra og aðstoð við að bjarga bátnum og koma honum til lands.

Einar Á. Einarsson.

Hljóðupptökur. Sögur og sagnir úr Grunnavíkurhreppi

Frásagnir Rebekku Pálsdóttur frá Höfða upptaka frá árinu 1970

Sagt frá Gvendarbrunni á Höfða í Jökulfjörðum

http://www.ismus.is/i/audio/id-1024262

Huldufé og huldufólk

http://www.ismus.is/i/audio/id-1024264

Frásagnir Maríu Pálsdóttur frá Höfða upptaka frá árinu 1968

Álagablettur á Stúfhjalla var sleginn

http://www.ismus.is/i/audio/id-1007929

Sorgarhylur og Sorgarholt heita svo vegna þess að barn drukknaði í hylnum

http://www.ismus.is/i/audio/id-1007932

Á Höfða var þinghús og þar var þingað á vorin

http://www.ismus.is/i/audio/id-1008058

Frásögn Sigurðar Líkafrónssonar frá Hrafnfjarðareyri upptaka frá árinu 1975

Fyrsta vorið sitt á sjó reri heimildarmaður með Alexander á Sigurvon

http://www.ismus.is/i/audio/id-1015510

Frásögn Sumarliða Eyjólfssonar  frá Kollsá upptaka frá 1975

Vagn Guðmundsson skaut Ólaf Samúelsson, tók hann fyrir tófu er þeir lágu á greni 

http://www.ismus.is/i/audio/id-1015502

Frásagnir Maríu Maack upptaka frá árinu 1967
Maríuhorn Í Grunnavík
http://www.ismus.is/i/audio/id-1004323

Álagablettur í Reykjarfirði

http://www.ismus.is/i/audio/id-1004316

Skrímsli í fjörunni við Dynjanda

http://www.ismus.is/i/audio/id-1004327

Huldufólk í Grunnavík

http://www.ismus.is/i/audio/id-1004315

Frásögn Soffíu Ólafsdóttur fædd á Nesi upptaka frá árinu 1970 tekið upp á Kletti

Huldufólk í Grunnavík

http://www.ismus.is/i/audio/id-1023116

Frásagnir Vilhjálms Jónssonar  fæddur í Kjós  upptaka frá árinu 1968

Draumar og draumaráðningar

http://www.ismus.is/i/audio/id-1008061

Draugasaga

http://www.ismus.is/i/audio/id-1008065

Frásagnir Bjarneyjar Guðmundsdóttur frá Hrafnfjarðareyri upptaka frá árinu 1969

Um álög á Hrafnsfjarðareyri

http://www.ismus.is/i/audio/id-1010084

Álagablettir voru í Kvíum og víðar.

http://www.ismus.is/i/audio/id-1010085

Sagt frá þeim Álfsstaðabændum sem urðu úti í Furufirði.

http://www.ismus.is/i/audio/id-1010090

Frásögn Hallgríms Jónssonar frá Dynjanda upptaka frá árinu 1970

Sló álagablett á Dynjanda í Jökulfjörðum

http://www.ismus.is/i/audio/id-1023977

Frásögn Hanns Bjarnasonar frá Steinólfsstöðum upptaka frá árinu 1967

Afturgöngur

http://www.ismus.is/i/audio/id-1003615

Frásögn Valdimars Björns Valdimarssonar upptaka frá árinu  1968

 Þorvaldur púðurhlunkur talinn vera sonur Þorleifs hreppstjóra í Barðsvík

http://www.ismus.is/i/audio/id-1008519

Jón E. Jónsson Kvíum

Jón E. Jónsson var helsti hvatamaður fyrir stofnun Ungmennafélagsins Glaðs í Grunnavíkurhreppi og var lengst af formaður þess félags, eða allt til þess að hann flytur úr hreppnum.


Jón Eilífur Jónsson búfræðingur var fæddur 19. okt. 1897, sonur Jóns Jakobssonar bónda í Kvíum í Jökulfjörðum og konu hans Kristínar Júlíönu Alexandersdóttur. Höfðu forfeður hans búið í Kvíum á eigin eign um rúmlega tveggja alda skeið. Jón fór fulltíða til náms í Hvanneyrarskóla. Síðan bjó hann í samlögum við foreldra sína og síðar mág sinn, Jakob Falsson skipasmíð.

Jón flutti til Ísafjarðar árið 1948 og fóru Kvíar þá í eyði. Byggði hann síðar íveruhús innan við Seljaland í Skutulsfirði, er hann nefndi Kolfinnustaði og ræktaði þar túnblett. 

Hann var kvæntur Gíslínu Eyjólfsdóttur og áttu þau ekki börn sem lifðu, en fóstursonur er Sigmundur Gunnarsson. Jón var vel greindur maður, verklaginn, prúðmenni og vel látinn.

Hann lést á Sjúkrahúsinu á Ísafirði 23. júlí. 1965

Úr handraða Sigurvins Guðbjartssonar

Grunnvíkingar að undirbúa Flæðareyrarhátíð 1984


Frá Ísafirði var farið,til Flæðareyrar með báti,

undirbúa þar átti útihátíð með látum,

í  þessum báti var aðeins ættgöfugt fólk að norðan

og örfáir gestir,sem ekki eru nefndir hérna.


Þar var Ingi og Óskar með ótal brandara fína,

Albert og Eddi sæti,með ungu konuna sína,

Óli Friðbjörns og Eyjólfs,einnig Brynjar og Rúnar,

Stína Alla og Stonni,stráklingar tveir og Nonni.


Úr  Víkinni voru líka vaskir kappar og þekktir.

Gunnar Leós „hinn ljúfi“ leiddi hersingu slynga.

Þar var var Bía og Bjarki,bæði Sigurvin og Árni,

skáldin sem enginn skilur,skálkar hálf fálkalegir.


Áður en út var haldið,undirbúin var förin,

allskonar efni gefnu,út í bátinn var safnað.

Olíutankar tómir,tunnur af ýmsu fylltar,

ryðgaðar keðjur og kaðlar og kamarseturnar gylltar.

Einhver ósköp af timbri,sem átti að sumra hyggju,

að heita vel fenginn viður og vera góður í bryggju.


Báturinn fjarska fullur,af fólki og allskyns dóti,

öslaði Djúpsins öldur,út og norður var haldið.

Í þetta eina sinni aldrei við til þess fundum,

hve leiðin til Leirufjarðar löng er og krókótt stundum.


Svo var málað og múrað og meitlað og sagað og grafið.

kamrarnir reistir og reyndir og rykið af öllu skafið.

Étin heil kynstur af kjöti og kannski eitthvað súpu glundur,

loks eftir dálaglegt dagsverk dulítill festur blundur.


Ekkert er um að segja

allir að lokum sneru

aftur til Ísafjarðar

eftir sólarhrings veru.


Ferðin gekk vel að vanda

vel sást til allra stranda.

Aldrei var ælt né spúið,

ævintýrið er búið.

Sigurvin Guðbjartsson 1984



Yndæla fólk.

Þið sem flykkist á Flæðareyri,

fjórða hvert ár,

þegar allsherjar hátíð er sett.

Öllum finnst gaman,

það koma alltaf fleiri og fleiri,

því fjörið er geggjað

og skapið er ólgandi létt.


Söngglaða fólk.

Þið sem saman í hrifningu syngið,

sönginn um það,

hversu Strollan gekk hólana flott.

Málglaða fólk.

Sem á kvöldin í kunningja hringið

og hvíslið í símtólið;

mikið assgoti er koníak gott.


Ástheita fólk.

Þið sem hvort annað kyssið og knúsið

og konurnar strjúkið,

með sérstökum Hrafnfjarðar brag.

Lífsþyrsta fólk.

Þið sem dettið stundum í djúsið

og djammið á sjötíu

langt fram á

þarnæsta dag.


Sigurvin Guðbjartsson 2008


Horft til Jökulfjarða

Í Himnaríki er afarstór útsýnisgluggi,

með eilítið hallandi rúðum,úr tvöföldu gleri.

Og á bak við hann sitja á háfættum hægindastólum,

í hrókasamræðum,íslenskur maður og Drottinn.


Þeir virða fyrir sér einstæða fegurð Íslands,

og efst til vinstri má þekkja norðurpart Vestfjarðakjálkans,

með  drifhvítan jökul og dali með hlíðum svo grænum,

dimmbláa firði,sem roðna í kveldsólarskini.


Og Drottinn brosir kankvís og kinkar kolli.

„Já kanski var þetta besta smíðin min forðum.

Allavega er ósköp fallegt í Fjörðum.

Furðulegt að engir menn skuli búa hér lengur


„En segðu mér nú í trúnaði vestfirski vinur,

hvað vildirðu geta endurtekið af hinu liðna?

Ljúfar stundir sem liggja þér efst í huga,

er lífs þíns dögum þú flettir og horfir til baka?“


Það stóð ekki á svari“Um Djúpið er dýrlegt að fara

og dansa á Flæðareyri um sólbjartar nætur.

Vinahópnum að heilsa og horfa á fólkið,

sem hittist þarna,brosir og kyssist og hjalar“

„Ég vil finna ylinn sem örlítið tár veitir jafnan.

Örmunum vefja konur,svo mjúkar og hlýjar.

Þetta vildi ég lifa upp aftur og aftur,

því aldregi leið mér betur,fyrr eða síðar !“


„En ætli ég verði ekki hjá þér Drottinn,

nokkrum ljósárum lengur.

Mér líkar svo vel þetta útsýni,úr glugganum hérna“.


Sigurvin Guðbjartsson