Halldór B. Halldórsson
Halldór B. Halldórsson gaf Ungmennafélaginu Glað í Grunnavíkurhreppi lóð undir húsið á Flæðareyri með gjafabréfi dagsettu á Ísafirði 14. ágúst 1933, en hann var eigandi jarðarinnar Höfða. Segir hann í bréfinu að lóðin sé 2500 fermetrar á svo nefndri Flæðareyri, og að þess utan hafi félagið frían fimm metra breiðan veg til sjávar frá lóðinni. Einnig gaf Halldór tuttugu poka af sementi til byggingar hússins.
Halldór Benjamín Halldórsson var ættaður úr Jökulfjörðum, fæddur á Dynjanda 30. júlí 1894. Foreldrar hans voru Halldór Jakobsson og Kristín Jakobsdóttir. Hann ólst upp hjá Benedikt Kr. Benediktssyni og Gunnvöru Rósu Elíasdóttur á Dynjanda. Ungur kvæntist hann Hólmfríði Benjamínsdóttur frá Hesteyri. Stuttu síðar fluttist hann til Ísafjarðar, og stundaði sjómennsku um nokkur ár. Síðar tók hann að verka síld og kaupa og jafnframt fékkst hann við kaup á lýsi. Settist að á Grænagarði á Ísafirði, keypti þar hús og síldarstöð. Tókst honum furðu vel að stýra hinn krappa sjó, er mætti þeim er fengust við síldarkaup á þessum árum. Aflaði Halldór sér trausts þeirra er skiptu við hann, enda var hann ráðvandur maður.
Þegar þess er gætt, að Halldór hafði ekki notið þeirrar fræðslu, sem nú á tímum þykir sjálfsögð, hverjum manni, má segja að honum hafi tekist vel að sjá sér farborða. Hann var sagður ávalt hafa eitt hvað nýtt í huga og var furðu laginn að koma því í framkvæmd. Hann þótti manna vinsælastur, greiðvikinn og góðviljaður.
Halldór lést 15. mars 1935 og var jarðsettur í Reykjavík