Flutt úr Grunnavík í nóvember 1962
Tekið saman úr tveimur blaðaviðtölum við Hallgrím Jónsson
Tíminn 11. nóvember 1962 og Morgunblaðið 13. nóvember 1962
Blaðið átti tal við Hallgrímur Jónsson frá Sætúni í Grunnavík, en hann var síðasti hreppstjóri þeirra Grunnvíkinga, sem fluttist til Ísafjarðar á fimmtudaginn ( 8.nóvember 1962). Við vorum 17, sem komum til Ísafjarðar á fimmtudaginn; nokkrir voru ekki heima, en alls voru 22 heimilisfastir í Grunnavík. Af þeim 17 sem til Ísafjarðar komu voru 9 börn undir 16 ára aldri, í allt voru fjölskyldurnar 6. Þeir sem fluttu auk Hallgríms og fjölskyldu voru Ragúel Hagalínsson og Helga Stígsdóttir, 4 manna fjölskylda, bróðir hans Jakob og Sigríður Tómasdóttir, þrennt í heimili. Ein hjón öldruð, Tómas Guðmundsson og kona hans Ragnheiður Jónsdóttir, Grímur Finnbogason og systir hans Guðrún, bæði fullorðin. Marinó Magnússon og Margrét Hallgrímsdóttir, 4 manna fjölskylda fara héðan til Ólafsfjarðar.
Öllu fénu um 1000 var slátrað,ef frá eru taldar nokkrar kindur sem seldar voru í næsta hrepp. Það var í fyrravetur, sem við tókum ákvörðun um það að flytjast öll á brott úr sveitinni okkar. Tún kól mjög illa í fyrrasumar og auðséð var, að enn erfiðara yrði með heyskapinn. Þá þjakaði heilsuleysi fólkið og eins og samgöngum er háttað er ekki hlaupið að því að ná í lækni, ef eitthvað bjátar á. Já, samgöngumálin voru erfið hjá okkur. Fagranesið kom einu sinni í viku. Við vorum ekki í akvegasambandi við umheiminn, og ekki fyrirsjáanlegt, að úr því yrði bætt. Það væri sjálfsagt hægt að leggja veg í Grunnavík, en hann kæmi bara aldrei að fullum notum, þetta er svo mikill óravegur til Ísafjarðar fyrir Djúpið. Það væri hægt að útbúa flugvöll fyrir litlar vélar í Grunnavík og stærri vélar inni í Leirufirði, en það yrði aðeins hægt að nýta þá yfir sumarmánuðina.
Já, það er ákaflega snjóþungt í sveitinni okkar, í gær sá þar hvergi á dökkan díl, en sumarbeit er þar ákaflega góð. Það er einnig ákaflega mikil berjatekja í Jökulfjörðunum, þar vaxa alls konar ber. Áður fyrr var mikil fiskgengd í Jökulfjörðum, en nú hefur fiskurinn lagst frá. Það hefur ekki verið mikill reki í Jökulfjörðunum, en á Ströndum er mikill reki. Það er ekki mikil veiði í ánum í Jökulfjörðum, en kunnugir telja, að auðvelt sé að rækta þar lax. Jú, þeir eru byrjaðir að kaupa upp jarðir. Það voru keyptar tvær í Leirufirði, Leira og Kjós. Þær fóru nú fyrir lítið, voru seldar saman fyrir 35 þúsund, en það eru ekki hús á jörðunum. Vissulega kveðjum við sveitina okkar með söknuði. Forfeður sumra okkar hafa búið þar mann fram af manni. En við þessu er víst ekkert að gera, unga fólkið vill ekki vera kyrt, og vissulega eru örðugleikarnir margir. Það er ekki gott með ræktun. Landið er grýtt og svo eru blautar mýrar, en þær hefði verið hægt að ræsa fram, ef við hefðum fengið stórvirkar vélar, en þær hafa ekki fengist. Já, það var víst ekkert annað að gera.