Jón E. Jónsson Kvíum

Jón E. Jónsson
Jón E. Jónsson

Jón E. Jónsson var helsti hvatamaður fyrir stofnun Ungmennafélagsins Glaðs í Grunnavíkurhreppi og var lengst af formaður þess félags, eða allt til þess að hann flytur úr hreppnum.


Jón Eilífur Jónsson búfræðingur var fæddur 19. okt. 1897, sonur Jóns Jakobssonar bónda í Kvíum í Jökulfjörðum og konu hans Kristínar Júlíönu Alexandersdóttur. Höfðu forfeður hans búið í Kvíum á eigin eign um rúmlega tveggja alda skeið. Jón fór fulltíða til náms í Hvanneyrarskóla. Síðan bjó hann í samlögum við foreldra sína og síðar mág sinn, Jakob Falsson skipasmíð.

Jón flutti til Ísafjarðar árið 1948 og fóru Kvíar þá í eyði. Byggði hann síðar íveruhús innan við Seljaland í Skutulsfirði, er hann nefndi Kolfinnustaði og ræktaði þar túnblett. 

Hann var kvæntur Gíslínu Eyjólfsdóttur og áttu þau ekki börn sem lifðu, en fóstursonur er Sigmundur Gunnarsson. Jón var vel greindur maður, verklaginn, prúðmenni og vel látinn.

Hann lést á Sjúkrahúsinu á Ísafirði 23. júlí. 1965