Fréttabréf Grunnvíkingafélagsins apríl 2013

Ágætu Grunnvíkingar!

Þó töluverður snjór sé ennþá verður vorið komið áður en við vitum af og vor og sumarverkin taka við. Hjá okkur Grunnvíkingum eru það sumarkaffið og aðalfundurinn í maí og síðan vinnuferð í Flæðareyri.     

Af vetrarstarfinu er það að frétta að aðventudagurinn var á hefðbundnum tíma og allt honum tilheyrandi með sama sniði og verið hefur í gegnum árin. Þorrablótið var vel sótt í Hnífsdal 9. febrúar. Skemmtinefndin fór þar á kostum og ef hugmyndir hennar ganga eftir þurfum við ekki að kvíða því að eldast með félaginu.

Nýting á Höfða sumarhúsihefur verið ásættanleg það sem af er árinu. Búið er að panta hluta af maímánuði, fullbókað er í júní og júlí og fram til 9. ágúst. Umsjónarmaður Höfða er Ægir Ólason, sér hann um úthlutun og gefur upplýsingar um húsið í síma  561-1687 eða 847-8180. Einnig er hægt að senda honum póst á netfangið aegirogthora@simnet.is. Við hvetjum fólk til að nota húsið, hvort sem um viku eða helgarleigu er að ræða.

Heimasíða félagsins sem Ernir Ingason sér um vex og dafnar. Hann hefur verið ötull við að safna efni og biður þá sem eiga í fórum sínum gamlar myndir að norðan sem þeir vilja lána til að setja inn á síðuna að hafa samband við sig. Einnig eru allar ábendingar um efni vel þegnar. Undir hornstrandir.is er tengill á Grunnvíkingafélagið á Ísafirði.

Á síðasta aðalfundi félagsins var ákveðið að setja inn í lög þess greinar sem kveða á um slit á félaginu ef til þess kemur. Sendur var tölvupóstur til þeirra sem við höfum netföng hjá og óskað eftir hugmyndum um hvað verða ætti um eigur félagsins ef það yrði lagt niður.

Tillaga stjórnar er að við núverandi lög bætist eftirfarandi greinar:

9. gr. Tillaga um að slíta félaginu eða sameina það öðrum félagsskap skal koma fram í fundarboði til aðalfundar. Til að slíta félaginu þarf samþykki ¾ hluta fundarmanna.

10. gr. Verði félagið lagt niður skulu eigur þess seldar og andvirði þeirra renna í sjóð til viðhalds kirkjunum að Stað í Grunnavík og í Furufirði.

Greidd verða atkvæði um þessar tillögur á aðalfundinum í maí.

Sumarkaffið verður sunnudaginn 12. maí á Hótel Ísafirði kl.15:00.

Með sumarkaffinu viljum við þakka eldra fólkinu okkar fyrir það sem það hefur lagt til félagsins og jafnframt gefa félögum tækifæri til að hittast, spjalla saman og fagna sumri um leið og notið er góðra veitinga. Við hvetjum fólk til að gera sér dagamun og mæta í kaffið.

Aðalfundur félagsins verður í seint í maí. Hann verður auglýstur með götuauglýsingum og tölvupósti til þeirra sem við höfum netföng hjá.Við hvetjum félagsmenn til að mæta á fundinn og að sjálfsögðu eru allir nýir félagar boðnir velkomnir. Við þurfum fleiri félaga svo ekki þurfi að reyna á nýju lagagreinarnar.

Með bestu kveðjum.

    Fyrir hönd stjórnar Grunnvíkingafélagsins

Hlíf Guðmundsdóttir