Þakkarorð
Vesturland 10.06 1929
Þakkarorð
Hinn 29. maí s. 1. vorum við undirritaðir að koma úr fiskiróðri í besta veðri. En er við komum á Grunnavík, skall á vestanveður svo snögglega, að sjór gekk þegar á bátinn og sökk hann undir okkur.
Héngum við á lóðabelgjum og öðrum munum úr bátnum og var lítil von um hjálp, því þetta var fyrir venjulegan fótaferðatíma og alllangt frá bæjum.
En hér fór öðruvísi en á horfðist. Bóndinn á Naustum, Elías Halldórsson var snemma á fótum þennan morgun og af athygli sinni veitti hann bátnum eftirtekt og sá er hann hvarf. Tókst honum með miklu snarræði, og sonum hans, er hlupu til hálfklæddir,að bjarga okkur. Var hér um æði langa leið að fara frá Naustum og að svonefndum Hlössum, þar sem báturinn sökk, og mun það nær einsdæmi að takast skyldi að ná okkur öllum lifandi í slíku stórviðri.
Þetta er ekki fyrsta sinni sem Elías bjargar mönnum úr sjávarháska, því fyrir fáum árum sökk bátur Hjartar Guðmundssonar í Hnífsdal framundan húsum Elíasar, og tókst honum þá að bjarga allri skipshöfninni, ellefu mönnum.
Fyrir lífgjöf þessa og alúðarviðtökur húsfreyjunnar og dætra þeirra hjóna, þegar á land kom færum við okkar innilegustu þakkir og treystum því að guð muni ekki láta slík verk ólaunuð. En það vitum við, að Elíasi Halldórssyni mundi ekki þykja sér með öðru betur launað, en hann fengi oftar tækifæri til að hjálpa mönnum, sem staddir væru í slíkri neyð sem við vorum.
Dynjanda 4. júní 1929.
Einar Ágúst Einarsson. Jóhannes Einarsson. Gestur Oddleifs Loftsson. Kári Samúelsson.
Ennfremur vil ég innilega þakka herra Jakob Elíassyni frá Ísafirði og mönnum hans, er komu á Grunnavík nokkru síðar, fyrir hjálp þeirra og aðstoð við að bjarga bátnum og koma honum til lands.
Einar Á. Einarsson.