Um fornar rústir í Grunnavíkurhreppi
Heimildarmaður: Dagbjartur Majason
Ég er fæddur á Leiru í Jökulfjörðum og ólst þar upp til 10 ára aldurs. Leirubærinn var líklega kringum einn og hálfan kílómetra inn af Leirufirði. Mun ég nú lýsa áttum eins og þær voru í daglegu tali manna. Talað var um að fara vestur á Snæfjallaströnd, vestur á Ísafjörð, vestur í Bolungarvík og Hnífsdal. Frá þessum stöðum var aftur farið norður í Jökulfirði. Frá Leiru var farið út að Dynjanda, út á Sveit, sem voru bæirnir frá Dynjanda út að Staðarheiði og út í Grunnavík. Næsti bær við Leiru í átt til sjávar var Kjós. Það var farið ofan í Kjós, ofan í Tanga, sem eru fyrir botni Leirufjarðar en frá Kjós fram að Leiru. Sá sem fór ofaní Kjós var niðri í Kjós ekki ofaní Kjós. Það orðalag þekktist ekki. Höfuðáttirnar voru aldrei notaðar um það sem var í næsta nágrenni. Frá Leiru var talað um að fara norður í Furufjörð og Bolungarvík (á Ströndum) en austur í Reykjarfjörð í sama hreppi. Frá Leirubænum var farið uppá Leirufjall, fram að jökli og yfir í Dynjandisfjall sem er á móti bænum. Tíu ára gamall fluttist ég að Höfðaströnd sem er að sunnanverðu við Jökulfirði. Þaðan var kallað að fara inn að Höfða og bæjanna þar fyrir innan, inn að Hrafnfjarðareyri. Það var málvenja að segja og skrifa Hrafnfjörður og Hrafnfjarðareyri ekki Hrafns. Sömuleiðis er fyrri hluti nafnsins Grunnavík eins í öllum föllum samanber Grunnavíkur-Jón. Frá Höfðaströnd var kallað að fara yfir í Kvíar og þaðan yfir að Höfðaströnd. Segja má að það hafi verið föst regla að kalla það út sem var í átt til hafs. Það var til að sagt var að fara neðan brekkuna eða fjallið og ofan til baka.
Eins og segir í skopvísunni:
Margt er skrýtið málfærið
Mönnum vestra lagið.
Að ganga neðan gelming með
Á gráum peys mitt hræið.
Algengara var að segja upp fjallið og niður fjallið. Allir bæir, sem kenndir voru við vík eða fjörð höfðu forsetninguna í. Í Barðsvík, í Furufirði. Auk þess var sagt í Kvíum og í Sætúni. Þeir bæir og kennileiti, sem nafnið endaði á eyri höfðu forsetninguna á, á Marðareyri, á Meleyri. Þó var ein undantekning frá þessari reglu, það var samkomustaður Grunnvíkinga, hann var í Flæðareyri. Og ennþá koma brottfluttir Grunnvíkingar saman í Flæðareyri á nokkurra ára fresti. Nú er mín fæðingarsveit, þ. e. Grunnavíkurhreppur, öll í eyði nema Látravík, þar sem Hornbjargsviti er. Á flestum býlum þar eru rústir einar, en á stöku stað standa ennþá hús, sem búið var í. Ef einhver vildi kynna sér bæjarnöfnin get ég vísað til Grunnvíkingabókar, sem er nýlega komin út. Þar eru nöfn á öllum býlum í hreppnum, sem vitað er til að einhverntíma hafi verið byggð.
Ekki veit ég mikið um fornar rústir í Grunnavíkurhreppi. Efst á Lægrafjalli á Leiru er hóll, sem heitir Eyvindarhóll og sagður vera kenndur við Fjalla-Eyvind. Þar mótar fyrir hleðslu. Ekki þykir mér líklegt að Fjalla–Eyvindur hafi nokkurntíma hafst þar við. Frá Leirubænum mun vera rúmlega einn km upp að þessum hól og um klukkutíma gangur inn að Hrafnfjarðareyri, þar sem Eyvindur bjó.
Í Reykjarfirði í Grunnavíkurhreppi var býli, nokkuð lengra frá sjó en Reykjafjarðarbærinn, það heitir Kirkjuból. Það var í eyði þegar manntal var tekið 1703, en var öðruhverju búið þar á 19. öld fram yfir 1880. Þar hefur verið kirkja og grafreitur, og ef ég man rétt, hafa þar fundist mannabein. Um þetta þori ég ekki að fullyrða, en get bent á Guðfinn Jakobsson eða eitthvert hans systkina, sem gætu gefið betri upplýsingar um það. Þau eru fædd og uppalin í Reykjarfirði. Í Furufirði er bænhús og grafreitur.
Á Stað í Grunnavík er kirkja, sem var byggð um 1890. Um það bil einn og hálfan km fyrir framan Stað, skammt frá Staðará, eru tóttir. Þar heitir Fornibær. Ekki hef ég heyrt neinar sagnir í sambandi við hann, hvort Staðarbærinn hefur einhverntíma verið þar, eða þar hafi verið sérstakt býli.
Á Staðareyrum eru rústir af verbúðum. Þaðan var síðast róið haustið 1927 eða 1928.
Í innanverðum túnjaðrinum á Kollsá var blettur, sem kallaður var Þrælavirki. Hann var rétthyrndur, á að giska 15 – 20 metrar á lengd og 8 – 12 metrar á breidd. Gæti hafa verið stærri. Hann var með greinilegri hleðslu allt í kring. Um 1930 hurfu þessi ummerki, þegar plægt var yfir þetta svæði og allt sléttað út.
Í túninu á Hrafnfjarðareyri er sagt að Fjalla–Eyvindur sé grafinn. Ekki veit ég sönnur á því. Árin 1887 – 1894 bjó á Hrafnfjarðareyri Jón Eilífsson f. 16.10.1838, d. 1899, hann var frá Mávahlíð á Snæfellsnesi. Jón þessi setti stein á leiðið og klappaði á hann: Hér hvílir Fjallaeyvindur Jónsson.
Einn álagablett heyrði ég talað um á Leiru, en ekki man ég eftir neinum sögnum í sambandi við hann, annað en það, að ekki mátti slá hann. Á Dynjanda var álagablettur í tungunni, þar sem saman koma árnar úr Dynjandisdal og Múladal. Dynjandisdalur er austan við Tröllafell en Múladalur að vestan. Ég hef heyrt að bóndinn í Neðribænum á Dynjanda hafi eitt sinn slegið þennan blett og skömmu seinna misst kú. Var það sett í samband við álagablettinn. Annar bóndi, Hallgrímur Jónsson, sem seinna kom að Dynjanda og bjó í Fremribænum, segir frá því í bók sinni „Saga stríðs og starfa“ að hann hafi einu sinni slegið álagablettinn og afleiðingarnar hafi ekki látið á sér standa. Morgun einn um haustið, þegar hann kom í fjósið, var ein kýrin dauð á básnum. Seinna, þegasr hann kom í fjárhúsið, var ein uppáhaldsærin dauð. Um áramót höfðu sex ær drepist og var engin sjáanleg ástæða fyrir þessum faraldri. Mig langar til að bæta hér við einni frásögn, eins og ég skrifaði hana í dagbók sama daginn og mér var sögð hún, en það var 10. mars 1946. Fer hún hér á eftir: Í dag sagði Friðbjörn Helgason, bóndi á Sútarabúðum, mér eftirfarandi sögu: Þegar Friðbjörn var á þrettánda ári flutist hann með Hírami Veturliðasyni að Búðum, í Sléttuhreppi. (Búðir eru í Hlöðuvík). Var þá gamall maður í húsmennsku á Búðum. Sagði hann Hírami frá álagabletti, sem væri á Búðum og ekki mætti slá. Sagðist Híram ekki leggja neinn trúnað á slíkt og um sumarið slær hann blettinn, fær af honum 60 hesta af góðu heyi og segist ætla að ala lömbin á því um veturinn og sjá til, hvort þeim verði ekki gott af því. Um haustið setur Híram 20 lömb á eldi. Einn morguninn þegar hann kemur í fjárhúsið eru þrjú lömb dauð, föst á öllum fótum í grindunum. Eftir það smá tínast þau upp, drepast með ýmsu móti, þar til eftir er einn geldingur ljómandi fallegur. Er komið fram á vor og farið að hafa orð á því, að líklega eigi geldingurinn að fá að lifa. En eitt kvöldið, þegar féð er látið inn, vantar hann. Er leitað að honum og finnst hann hálsbrotinn í tótt á túninu. Híram sló ekki álagablettinn eftir það.
Reykjavík í mars 1993. Dagbjartur Majasson