Fréttabréf maí 2014

Ágætu Grunnvíkingar!

 

Eftir umhleypingasaman vetur er vorið komið og þá er tímabært að huga að síðustu atburðum starfsársins hjá okkur Grunnvíkingum.

Af vetrarstarfinu er það að frétta að aðventudagurinn var á hefðbundnum tíma og allt honum tilheyrandi með sama sniði og verið hefur í gegnum árin. Þorrablótið var í Hnífsdal 8. febrúar og var ekki annað að sjá en gestir skemmtu sér þar vel.

Á síðasta ári var nýting á Höfða sumarhúsimeð allra besta móti. Pantanir fyrir sumarið eru farnar að berast, þannig að þeir sem vilja nýta sér húsið í sumar ættu að athuga með lausan tíma sem fyrst, hvort sem um viku eða helgarleigu er að ræða. Helgina 10.-12. maí ætla sunnanmenn í vinnuferð í Höfða. Umsjónarmaður Höfða er Ægir Ólason, sér hann um úthlutun og gefur upplýsingar um húsið í síma  561-1687 eða 847-8180. Einnig er hægt að senda honum póst á netfangið aegirogthora@simnet.is.

Heimasíða félagsins sem Ernir Ingason sér um vex og dafnar. Þar er að finna myndir og ýmsan fróðleik og upplýsinga s.s. um sögu félagsins, Grunnvíkingabók, Höfða o.fl. Ernir hefur verið ötull við að safna efni og biður þá sem eiga í fórum sínum gamlar myndir sem þeir vilja lána til að setja inn á síðuna að hafa samband við sig. Einnig eru allar ábendingar um efni vel þegnar. Undir hornstrandir.is er tengill á Grunnvíkingafélagið á Ísafirði. Einnig eru félögin hér vestra og fyrir sunnan með sameiginlega facebook síðu.

Sumarkaffinu sem verið hefur fastur liður á þessum árstíma höfum við frestað þar til seint í sumar eða hausts. Það verður auglýst með götuauglýsingum, á heimasíðu félagsins og með tölvupósti til þeirra sem við höfum netföng hjá

Aðalfundur félagsins verður í Kiwanishúsinu á Ísafirði miðvikudaginn 28. maí. kl. 20:00. Auk venjulegra aðalfundarstarfa þurfa félagsmenn að kjósa sér nýjan stjórnarmann og formann. Við hvetjum alla til að mæta á fundinn og hafa þar með áhrif á starf félagsins. Og að sjálfsögðu eru allir nýir félagar boðnir velkomnir.

Vinnuferð í Flæðareyri. er ráðgerð í júní. Þar á að skipta um glugga í eldhúsinu og klæða það að innan. Þá þarf fljótlega að skipta um glugga í salnum og ofna og lagnakerfi í húsinu

Stefnt er að því að messað verði að Stað í Grunnavík í sumar. Nánari upplýsingar verða settar inn á heimasíðuna okkar þegar þær liggja fyrir.

Árlega seljast nokkur eintök af Grunnvíkingabókinni. Auk þess að vera til sölu hjá stjórn félagsins er hægt að fá hana hjá Inga Jóhannessyni s. 456-3646, Kristjáni Friðbjarnarsyni s. 456-3589 og Matthildi Guðmundsdóttur s. 456-7295 hér fyrir vestan. Fyrir sunnan fæst hún hjá á Kristbirni Eydal s. 581-2918  og Valgerði Jakobsdóttur s.554-3583. Bókin kostar 5000 kr.

Með bestu kveðjum.

    Fyrir hönd stjórnar Grunnvíkingafélagsins

Hlíf Guðmundsdóttir